Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með skrifum mínum að ég er afskaplega ósátt við margt í málflutningi feminista. Þeir sömu hafa heldur ekki komist hjá því að taka eftir því að ég hef mikla andúð á öllum hugmyndum um skerðingu tjáningarfrelsis. Til þess að takast á við hugmyndir sem maður álítur rangar, á maður að nýta sitt eigið málfrelsi til að benda á veikleika í málflutningi andmælenda sinna. Góð samfélagsumræða skapast því aðeins að sem flestar, ólíkar raddir fái að heyrast; án tjáningar- og upplýsingafrelsis er ekkert lýðræði.
Ég er oft ósammála Hildi Lilliendahl en ég virði tjáningarfrelsi hennar. Ég hef stundum verið ósammála þeirri merkingu sem hún leggur í ummæli en ég hef ekki séð hana fara rangt með staðreyndir eða flíka gervirannsóknum. Hvað svo sem manni finnst um skoðanir og baráttuaðferðir Hildar Lilliendahl er málflutningur hennar heiðarlegur og það skiptir máli fyrir kynjaumræðuna.
Hildur hefur nú í fjórða sinn orðið fyrir því að aðgangur hennar að facebook er skertur um tíma. Í þetta sinn er henni bannað að setja inn nýtt efni í heilan mánuð. Hún fékk engar skýringar á þessu en þetta skjáskot var fjarlægt af síðunni og virðist því vera ástæðan fyrir þessari refsiaðgerð.
Samkvæmt reglum fb er notendum óheimilt að birta skjáskot af fb nema með sérstöku leyfi. Reglurnar eru væntanlega settar í þeim tilgangi að vernda notendur gegn ýmisskonar misnotkun. Hugmyndin er varla sú að auðvelda pólitískar ofsóknir en með því að refsa þeim sem birta persónulegar árásir af þessu tagi, snúast reglurnar gegn markmiði sínu.
Ég er ekki tilbúin til að sætta mig við að reglur sem settar eru til að stuðla að öryggi fb-notenda verði að farvegi fyrir pólitískar ofsóknir. Má þá einu gilda hvort það eru mín skoðanasystkini eða aðrir sem verða fyrir þeim, það gæti bitnað á sjálfri mér næst. Ég skrifaði fb þessvegna í gær og vakti athygli á innihaldinu í þessu skjáskoti og fór fram á að tekið yrði tillit til þess hverju fólk væri að pósta og í hvaða tilgangi, fremur en að reglum væri fylgt án tillits til aðstæðna. Ég sendi á nokkur netföng en svarið sem ég fékk frá þeim öllum var tenglalisti með svörum við algengum spurningum. Ekki er boðið upp á möguleika á að svara þeim pósti.
Ég sendi einnig póst á þessa síðu: http://www.socialnetworkhelpline.com/contact.asp og fékk uppgefið símanúmerið 0911 699 7842. Ég hringdi í það núna áðan og náði sambandi við mann sem sagðist ætla að koma þessari athugasemd til réttra aðila. Ég hvet alla sem láta sig þetta mál varða til að hringja í númerið og vekja athygli á því að fleiri séu ósáttir við þetta.
Ég setti einnig af stað undirskriftasöfnun þar sem ég mótmæli þeirri ákvörðun fb að takmarka möguleika Hildar Lilliendahl á að nota aðganginn sinn. Ég bið þá sem er annt um tjáningarfrelsið að undirrita hana.
Það er þó ekki nóg að undirrita áskorun, það þarf líka að koma henni til skila og þau svör sem ég hef hingað til fengið frá fb benda til þess að viðtakendur lesi ekki póst. Ég held því að til þess að aðstandendur fb fái skilaboðin sé nauðsynlegt að koma skilaboðum um óánægju með þessa refsiaðgerð og önnur mál af svipuðu tagi í fjölmiðla erlendis. Nú eru nokkur dæmi um íslenska blaðamenn sem hafa þurft að verja ritfrelsi sitt fyrir dómstólum. Íslensk samfélagsumræða fer að miklu leyti fram á facebook og blaðamannastéttin öll ætti að líta á það sem stórt hagsmunamál að geta vitnað til samskipta sem þar fara fram, án þess að eiga refsiaðgerðir yfir höfði sér. Ég fer þess því á leit við blaðamenn og þá ekki síst þá sem hafa persónulega reynslu af þöggunartilburðum, að þeir sjái um að koma fréttum af þessum refsiaðgerðum gegn Hildi í erlenda fjölmiðla.
Ég hef einnig í hyggju að mótmæla ákvörðun fb gagnvart Hildi á annan hátt. Ég ætla mér að birta mynd af þessu umrædda skjáskoti reglulega þannig að það sé alltaf sýnilegt á veggnum mínum á fb, þar til banninu hefur verið aflétt af Hildi eða ég sjálf útilokuð. Ég nota fb mjög mikið og get ekki sagt að mér sé sama þótt verði lokað á mig en hér er um stórt hagsmunamál að ræða og ég er tilbúin til að fara þessa leið í von um að vekja athygli stjórnenda fb á nauðsyn þess að endurskoða reglurnar. Ég reikna ekki með að það hafi nein áhrif ef ég geri þetta ein en ef 100 manns eða fleiri tækju upp á því að hafa sömu skjámyndina sýnilega á veggnum sínum dag eftir dag, þá yrði dálítið vandræðalegt fyrir fb að loka á þá alla, a.m.k. ef ástæðan kæmist í hámæli.