Mér er vel við slysavarnarfólk og starfsemi björgunarsveitanna. Ekki bara vegna þess að þeirra vegna er mér rórra þegar ævintýramenn sem mér þykir vænt um eru prílandi uppi um fjöll og firnindi, heldur líka af því að þessi félög eru svo greinilegt dæmi um það hvernig hægt er að halda uppi mikilvægri samfélagsþjónustu með sjálfboðastarfi. Lifandi sönnun þess að þátttökusamfélag virkar. Ég vil Landsbjörgu allt hið besta og vona að mjög margir kaupi neyðarkall.
Ég verð samt að segja að mér fannst þessi pistill í aðra röndina athyglisverður. Það er svosem ekki huggulegt að ætla einhverjum svekktum sölumanni það innræti að vilja ekki aðstoða þá sem ekki versla við sveitirnar en hinsvegar er dálítið hressandi að einhver skuli benda á það hvernig staða slysavarnarfélaga og björgunarsveita getur þróast.
Það er umhugsunarvert hversvegna sá sem kaupir flugelda af öðrum en björgunarsveitunum getur reiknað með að mæta heilagri vandlætingu. Það er umhugsunarvert að einhver félagsskapur sé svo mikilvægur að það teljist ganga landráðum næst ef einhver vogar sér í samkeppni við hann. Ekki heyrir maður umræður um að kvenfélög og Lionsklúbbar, sem þó hafa látið margt gott af sér leiða, ættu að hafa einkarétt á því að selja kleinur og harðfisk. Af hverju er þá svona ofboðslega ljótt að fara í samkeppni við björgunarsveitirnar? Jú, það er vegna þess að þær eru ómissandi. Það er algjörlega óraunhæft sem höfundur Kryppupistilsins stingur upp á, að Landhelgisgæslan verði látin um þau björgunarstörf sem sjálfboðaliðar sinna í dag. Gæslan hefur ekki mannafla til þess og svo eru starfsmenn hennar ekki sjálfboðaliðar heldur á góðum launum, sumir mjög háum. Það er heldur ekki hægt að reikna með því að nema lítill hluti þjóðarinnar sýni þá fyrirhyggju að koma sér upp lager af dósamat og grjónum.
Neyðarkallarnir eru orðnir ómissandi og þegar félagsskapur er farinn að sinna samfélagsþjónustu sem við getum ekki verið án, þá er hætta á að hann verði að stofnun og öðlist völd. Mörg dæmi eru um að áhugafélög sinni verkefnum sem með réttu ættu að vera á hendi ríkisins, fyrst við á annað borð sitjum uppi með ríkisvald. AA samtökin hafa tekið að sér hlutverk sem heilbrigðiskerfið ætti með réttu að sinna. Svo sjálfsagt þykir að slíkur félagsskapur, sem byggir á trúarlegum grunni, gegni heilbrigðisþjónustu að til skamms tíma voru fangar á Vernd skikkaðir á AA fundi. Nú eru SÁÁ, sem vinna út frá sömu hugmyndafræði og AA samtökin, orðin hluti af heilbrigðiskerfinu og vilja að hluti skatttekna verði eyrnamerktur þeirra skjólstæðingum. Stígamót eru annað dæmi um félag sem er á leið með að öðlast stöðu ríkisstofnunar. Stígamótakonur eru svo heilagar að þær geta haldið fram hvaða þvælu sem er í fjölmiðlum án þess að nokkrum blaðamanni detti í hug að spyrja augljósustu spurninga.
Björgunarsveitirnar byggja mér vitanlega ekki á neinni sérstakri hugmyndafræði en engu að síður má spyrja hversu heppilegt það er að ríkið reiði sig á þjónustu þeirra. Þær sinna nú þegar öryggisgæslu á menningarhátíðum. Hvernig mun það hlutverk þróast? Mun koma að því að slysavarnarfólki verði gefið umboð til að gramsa í eigum Þjóðhátíðargesta?
Ég vil að björgunarsveitir séu vel búnar og ef ég kaupi stjörnuljósapakka um áramótin mun ég kaupa hann af einhverri þeirra. Og ég vildi helst sjá samfélag sem væri borið algerlega uppi af sjálfboðastarfi. En ríkisvald er einmitt, eins og orðið gefur til kynna, stofnun sem hefur vald yfir öllum þorra almennings og þau félög sem það treystir á verða með tímanum hluti af því. Það er vert að hafa í huga að í nágrannalöndunum eru björgunarsveitir hluti af hernum. Í Danmörku heyrir yfirstjórn björgunarsveita og slökkviliða, Beredskabsstyrelsen, undir Varnamálaráðuneytið og ég hef velt því fyrir mér hvert hlutverk íslenskra björgunarsveita verði ef draumórar Björns Bjarnasonar um íslenskan her verða að veruleika.
Ég tel litlum vafa undirorpið að björgunarsveitir og slysavarnarfélög séu ómissandi fyrir íslenskt samfélag og kannski færi bara best á því að viðurkenna stöðu þessara félaga og gera þau að ríkisstofnun. Þau þyrftu þá ekki að standa í sölu neyðarkallsins til að lifa af. Kryppumenn geta svo huggað sig við að ef kemur að því að björgunarsveitirnar taki við hlutverki gasmanns, verður allavega bráðfyndið að sjá óeirðarlögguna vappa um Austurvöll á froskalöppum og með gasgrímu. Kannski löggan stofni á móti kafarahópa sem bera kylfur og skildi 🙂