Laugardagur 17.11.2012 - 06:08 - FB ummæli ()

Losum okkur líka við strympu

Fyrst ég var nú komin í þjóðlega gírinn á degi íslenskar tungu, fór ég að velta fyrir mér orðtakinu „nú vænkast hagur strympu.“ Undarlegt að það hafi aldrei þvælst fyrir mér fyrr.  Orðið strympa hefur augljós orðsifjatengsl við stromp og ein skýring sem orðabækur gefa er sú að strympa sé skessa en ég kom þessu ekki heim og saman svo ég spurði snjáldrið.

Fyrstu tilgáturnar sem komu fram tengdust strumpunum en mér þótti ótrúlegt að orðtakið væri upprunnið úr strumpabókunum þar sem ég taldi mig hafa þekkt það löngu áður en þær komu út. Fljótt kom þó fram trúleg skýring. Stromphúfa tilheyrði nefnilega búningi heldri kvenna fyrr á öldum. Fullkomlega rökrétt. Samt fékk amma mín sáluga hland fyrir hjartað þegar ég talaði um skautbúning sem „búning með strumpahúfu.“

Hér sjáið þið strympu

Þjóðbúningar eru annars dálítið fyndið fyrirbæri. Svona eins og þjóðsöngurinn. Hér í Glasgow sér maður oft karla í skoskum búningi á götum úti en aldrei konur. Á Íslandi sér maður aldrei konur í þjóðbúningi nema á þorrablótum og enginn fer í karlabúning nema kannski meðlimir þjóðdansafélagsins. Hátíðabúningur karla var ekki hannaður fyrr en 1994.

Það er í raun stórfurðulegt að kvenbúningarnir skuli ennþá vera dregnir fram á þorrablótum því þeir eru hræðilega ljótir. Hin þjóðlegu snið gera ekki bara ráð fyrir lærapokum heldur því að þjóhnappar kvenna nái frá mjóbaki og niður að hnjám og strumpahúfan, svo hræðileg sem hún er, er þó skömminni skárri en pottlokið sem fylgir upphlutnum. Upphluturinn sjálfur er reyndar ekki svo slæmur einn og sér. Ef maður sleppir pilsinu og blússunni, já og auðvitað pottlokinu, er hann bara svona huggulegt vesti með einhverju gulldrasli.  Ég gæti ímyndað mér að það færi vel við níðþröngar rúskinns- eða leðurbuxur og þá á ég vitanlega við að konan yrði nakin undir vestinu, með þokkalegan barm og laus við krumpubringu. Það yrði auk þess í anda klámvæðingarinnar en klám er einmitt hinn nýi húslestur og færi vel á því að láta þjóðbúning endurspegla samruna þessara tveggja menningarstrauma; gvuðsmenningarinnar og klámsins.

Allt hefur sinn verðmiða en mikið mætti þó ganga á til þess að ég fengist til að klæðast þjóðbúningi. Það væri þá helst þessi með strumpahúfunni en húfan yrði örugglega skilin eftir heima nema þeim mun glæsilegri verðlaun væru í boði. Ég hef reyndar heyrt þá kenningu að húfur strumpanna eigi rætur sínar í búningi Kú Klúx Klan en líklegra þykir mér að íslenski strumpahúfubúningurinn hafi orðið tískuhönnuði Klansins að innblæstri. Þótt ég hafi gaulað Land míns föður af innlifun á 18 mánaða skammti af áfengi í nokkrum „rannsóknarferðum“ stúdenta á sokkabandsárum mínum (nota reyndar sokkabönd ennþá eg svo ber undir svo sokkabandsárin hljóta að standa enn), get ég ómögulega lagt nafn mitt við þá þjóðernishyggju sem varð fyrirmynd Kú Klúx Klan. Fyrir náttúrulega utan það að húfan er skelfing hallærisleg þótt hún sé kannski skárri en pottlokið, prjónahúfan og viskustykkið með spjaldinu upp úr. Hvernig stendur annars á því að sá höfuðbúnaður sést ekki lengur? Hann gæti hentað sköllóttum þjóðrækniskonum prýðilega.

En gott og vel. Vonandi vænkast hagur strympu með nýrri stjórnarskrá og ef einhver tekur að sér að hanna íslenskan búning með svörtum leðurbuxum og klámvæddu upphlutsvesti, þá gætum tekið hann upp um leið og við skiptum um stjórnarskrána og þjóðsönginn. Hvað erum við annars að þvælast með þetta þjóðarhugtak ef við göngum ekki í þjóðbúningum og syngjum þjóðsöngva? Er það kannski eitthvað annað sem gerir okkur að þjóð? Eða er þjóð goðsögn?

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics