Mannanafnanefnd hefur samþykkt nokkur nöfn til viðbótar en foreldrar Christu litlu verða enn um sinn að sætta sig við að nafn hennar sé ólöglegt. Sú ákvörðun stenst enga rökvísi enda eru fjölmörg nöfn með samstöfunni ch á mannanafnaskrá og nafnið fellur prýðilega að beygingakerfinu.
Þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir nokkur ár aftur í tímann kemur í ljós að eina reglan sem raunverulega er virt er hefðarreglan. Tvöfaldur sérhljóði er stundum leyfður og stundum ekki. Nöfn má stundum rita án broddstafa og stundum ekki, sum nöfn sem enda á óframbornu e má gefa íslenskum börnum en önnur ekki. Samstafan th er stundum leyfð og stundum ekki og það er álíka tilviljanakennt hvort ph er leyft. Útlensku stafirnir c og z eru stundum leyfðir en q hlýtur ekki náð fyrir augum nefndarinnar og fleiri dæmi má nefna þar sem engin rök er hægt að finna önnur en þau að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir nýsköpun.
Það er ekki bara tregða gegn nýsköpun sem nafnalögin byggja á heldur er er svo langt gengið í íhaldsseminni að undantekningar eru háðar því að ættingjar barnsins beri eða hafi borið það nafn sem ágreiningur er um. Þannig er ákveðin ættbálkahugsun lögfest, rétt eins og fólki sé ekki treystandi til þess að ákveða sjálft hverjir það eru sem standa því næst.
Mannanafnalög eru öðrum lögum fávitalegri. Hvaða rök sem menn kunna að færa fyrir þeim í orði, þjóna lögin í raun þeim eina tilgangi að geðjast ákveðinni íhaldssemi. Í fjölmenningarsamfélagi þar sem fólk getur gefið börnum nöfn í samræmi við hefðir fjarlægra menningarsamfélaga er einfaldlega útilokað að viðhalda beygingarvenjum og framburði með valdboði. Eðlilegast væri að afnema lög um mannanöfn en fá mannanafnanefnd ráðgjafarhlutverk fyrir þá foreldra sem óska ráðgjafar t.d. um stafsetningu eða beygingu.
Það er heldur engin ástæða til að setja mannanafnalög í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk velji börnum sínum ónefni. Þegar gilda í landinu barnaverndarlög og ef einhverjir foreldrar velja barni sínu nafn sem þykir niðurlægjandi eða til þess fallið að verða barninu til ama, þá er það bara mál barnaverndaryfirvalda rétt eins og önnur vanvirða gagnvart börnum. Ef út í það er farið bjóða núgildandi lög upp á svo fíflalegar samsetningar að þeir sem endilega vilja gera brandara úr nöfnum barna sinna ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að gera það samkvæmt núgildandi lögum.