Það þurfti engar „forvirkar rannsóknarheimilidir“ til að koma upp um glæpastarfsemi Vítisengla. Það þurfti engar tálbeitur til að koma upp um Karl Vigni og aðra stórtæka barnanauðgara. Það var heldur ekki neinn skortur á valdheimildum sem réði því að það tók þá viku að sækja sönnunargögn Kastljóssins gegn Karli Vigni. Sú afsökun að umfang efnisins hafi verið svo gífurlegt að þeir hafi þurft margar vikur til viðbótar til að handtaka hann, er svo vond að maður fær hreinlega kjánahroll.
Þegar yfirvöld standa sig ekki er viðkvæðið það að stofnanir séu svo fjársveltar og hafi svo lítil völd. Á sama tíma blasir það við að menn ganga lausir þrátt fyrir rökstuddan grun um kynferðisbrot. Í stað þess að horfast í augu við afglöp lögreglu og vanhöld á samstarfi stofnana innan kerfisins, á nú að nýta þetta gullna tækifæri til að auka valdheimilidir vanhæfrar lögreglu, hugsanlega á kostnað mannréttinda.
Á meðan lögreglan hefur ekki einu sinni döngun í sér til að senda sína eigin starfsmenn í frí á meðan mál þeirra eru í rannsókn, er fráleitt að halda því fram að vandamálið sé skortur á valdheimildum. Menn ættu því fremur að krefja lögregluna skýringa á afglöpum sínum en að fá henni meiri völd; völd sem stuðla að eftirlitssamfélagi og greiða veg fasískra stjórnarhátta.