Fimmtudagur 17.01.2013 - 22:01 - FB ummæli ()

Fjör hjá flóttatúristum

Að vera flóttamaður er góð skemmtun.

Flóttamenn eru í raun og veru túristar í dulargervi. Þeir ljúga upp allskonar sögum um að í heimalöndum þeirra ríki stríð eða ólýðræðislegir stjórnarhættir með skoðanakúgun og óeðlilegum afskiptum stjórnvalda. Minnihlutahópar séu ofsóttir, fólk sé fangelsað fyrir skoðanir sínar, þvingað í hjónabönd gegn vilja sínum, fái ekki sanngjarna málsmeðferð fyrir rétti, afbrotamenn sæti pyntingum (einnig fyrir skírlífisbrot og óæskilegar skoðanir), stundum dauðarefsingum og menn séu jafnvel látnir „hverfa“. Í raun er tilgangur þeirra þó bara sá að vinna ólöglega og helst að fá bætur líka. Það eru engin takmörk fyrir þeirri vitleysu sem fólk lætur sér detta í hug til að komast í gott frí á kostnað Vesturlandabúa. Stundum er ekkert að hjá þessu fólki nema hungursneyð en hættan á því að horfalla er ekki álitin mannréttindamál svo fólk fær nú sem betur fer ekki stöðu flóttamanns út á svoleiðis hégóma.

Flóttatúristar skemmta sér jafnan vel á ferðum sínum. Þótt þeir sæki einkum til Íslands hafa þeir oft ferðast víða; jafnvel farið í heila heimsreisu fyrir lítinn pening áður en þeir fara að mjólka velferðarkerfið á Íslandi. Einn þeirra flóttatúrista sem hafa komið til Íslands er Wali Safi. Hann bjó um tíma í ruslagámi í Grikklandi. Það þótti honum nú skemmtilegt enda var honum farið að leiðast heima í Afghanistan, einkum eftir að hús nágranna hans varð fyrir sprengingu. Í Grikklandi frétti hann samt að það væri ennþá meira fjör á Fit en í grískum ruslagámum svo hann lagðist í „asylum shopping“ eins og svo margir afghanskir ævintýramenn. Hann smyglaði sér inn á Íslendinga með því að tyggja upp tröllasögu af „talíbönum“ sem eru í rauninni mestu meinleysisgrey þótt þeir hafi ekki tryggt þau gífurlegu lífsgæði sem flóttatúristar fá á Fit. Þegar það dugði ekki til hótaði hann að stúta sér. Þetta er svo athyglissjúkt þetta fólk.

Flóttatúristar eru hamingjusamir á Íslandi. Einkum líkar þeim vel hversu langan tíma tekur að afgreiða hælisumsóknir þeirra því það gefur þeim lengri tíma á bótum.  Að vísu eru þeir til sem sjá skrattann í hverju horni og finnst líka ómögulegt að vera á bótum við að kynnast landi og þjóð. Ot Alaas, bæklunarskurðlæknir frá Síberíu er einn þeirra. Hann kom til Íslands í desember 2006. Honum hafði leiðst í fásinninu heima svo hann skrifaði blaðagrein þar sem hann gagnrýndi Pútín. Yfivaldið tók ponkulítið í lurginn á honum fyrir það, lamdi hann smávegis. Ekkert bigg díl sko, bara nýrnaskaði, beinbrot og svona smávegis. Læknirinn lét sér það að kenningu verða, leysti fjölskyldu sína upp og hélt út í heim að leita sér frægðar og frama. Hann komst í feitt á Íslandi og varð svo hrifinn af landi og þjóð að eftir sjö mánaða bið fór hann í hungurverkfall, svona eins og flóttatúristar og ævintýramenn gera gjarnan til að knýja á um að ósanngjarnri kröfu þeirra um hæli verði sinnt. Mehdi Kavyanpoor var ekki eins óþolinmóður. Hann var búinn að sprella á Íslandi í sjö ár áður en hann fékk frekjukast og hótaði að kveikja í sér. Já það er aldeilis fjör hjá þessum flóttamönnum.

Það er gott að vera flóttatúristi á Íslandi enda er mulið undir þá á allan hátt. Þeir fá að búa á hótelinu að Fit í Reykjanessbæ, þeir fá matarúttekt í lágvöruverðsverslun og m.a.s. pening til að komast í bæinn einu sinni í mánuði. Þann dag nota þeir til að kynnast landi og þjóð. Hina dagana fara þeir á bókasafnið í Reykjanessbæ því þeir búa líka við þann lúxus að fá frítt bókasafnsskírteini. Flóttatúristar þurfa ekkert að vinna. Þeim er synjað um atvinnuleyfi svo þeir geti haldið áfram að lifa hóglífi á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Þeir verða heldur aldrei veikir enda búa þeir við þann munað að fá bráðaþjónustu ef þeir slasast eða veikjast lífshættulega.

Það er nauðsynlegt að draga úr þessum flóttatúrisma því hagkerfið hreinlega ber hann ekki. Ég legg því til að Kristín Völundardóttir og annað starfsfólk Útlendingastofnunar bregði sér í heimsreisu sem flóttamenn (þau geta bara logið því að þau séu Palestínumenn) túri skilríkjalaus í gegnum Mið-Austurlönd, sæki um hæli á Ítalíu og reyni loks fyrir sér í Noregi eða Danmörku. Þannig myndu þau áreiðanlega verða margs vísari um þá klæki sem „asylum shoppers“ beita til að slá ryki í augu Útlendingastofnunar.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics