Kosningin til stjórnlagaþings afhjúpaði það sem mig hefur lengi grunað; aðalástæðan fyrir því að það hallar á konur, þegar völd og áhrif er er annars vegar, er sú að þær sýna minni áhuga á þeim.
Í framboði til stjórnlagaþings voru 523 manns, 159 konur og 364 karlar. Konur voru því um 30% frambjóðenda. Samt var hlutfall kvenna þegar upp var staðið um 40% eða nógu hátt til þess að kynjakvóti var ekki notaður.
Annað dæmi þar sem enga kynjakvóta þarf til að tryggja jafnræði er framboð Píratanna. Þar eru kynjahlutföll í efstu sætum jöfn þrátt fyrir að engum fléttulistum, kynjakvótum né öðrum stjórntækjum hafi verið beitt.
Mér finnst reyndar ekkert vandamál þótt konur hafi minni tilhneigingu en karlar til að sækjast eftir völdum; þvert á móti vildi ég sjá pólitík sem einkennist ekki af valdafíkn og framapoti. Ég held að leiðirnar að kynjajöfnuði felist ekki í stýringu að ofan heldur annarsvegar því að konur og karlar gefi skít í staðalmyndir og sækist eftir því sem þeim finnst eftirsóknarvert og hinsvegar í beinu lýðræði þar sem möguleikar til að safna völdum á fáar hendur eru takmarkaðir.
Hvað ef tilgátan reynist rétt? Hvað myndi gerast ef flokkarnir hættu að stjórna okkur, kæmu bara með tillögur að listum en kjósendur fengju að ráða því sjálfir hvað þeir gerðu með þær tillögur? Það yrði áhugavert að sjá hversu hátt hlutfall frambjóðenda yrðu konur. Hver sem niðurstaðan yrði ætti hún allavega að gleðja feminista. Kannski yrði niðurstaðan sú að það þurfi enga fléttulista eða kynjakvóta til að jafna kynjahallann á Alþingi og þá er það sultufínt. Jafnvel tussufínt. Nú ef lágt hlutfall kvenna í framboði kæmist á þing, þá væru feministar komnir með fína sönnun fyrir nauðsyn þess að hlúa betur að jafnréttismálum.
Af hverju ekki að láta reyna á einstaklingskjör? Ég get ekki séð að það komi neinum illa nema þá helst valdaklíkum fjórflokksins. En það er kannski einmitt þessvegna sem þessi möguleiki er ekki skoðaður?