Fimmtudagur 18.04.2013 - 20:52 - FB ummæli ()

Umferð í Úganda

____________________________________________________________________________________

Gatnakerfið í Kampala ber ekki umferðina. Á álagstímum tekur óratíma að komast á milli staða. Í Kampala  virðast engar umferðarreglur gilda og víða eru hvorki umferðarmerki né götuljós. Hér ekki lestakerfi. Það eru leigumótorhjól og skutlur sem halda uppi almenningssamgöngum.

Skutlurnar eru bílar sem taka 10-14 manns í sæti. Þær aka ekki eftir ákveðinni áætlun og gjaldskrá fyrir hvern og einn heldur skipta farþegar kostnaðinum á milli sín. Bíllinn fer ekki af stað nema hann sé nánast fullur þannig að farþegar vita aldrei hversu lengi þeir þurfa að bíða.

taxi

Ég veit ekki hvort mér finnst óskiljanlegra að fólk geti fundið rétta bílinn í þessu kraðaki eða að bílarnir komist yfirhöfuð út á vegina en þeir eru víst með kerfi sem sagt er að virki. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

taxi2Á mörgum þessara bíla eru límborðar með einhverskonar skilaboðum þvert yfir framrúðuna. Maður hefði nú kannski haldið að það væri hentugt að merkja bílana með áfangastaðnum en þetta eru oft skilaboð sem eiga ekkert skylt við samgöngur. Skilaboðin eru gjarnan trúarlegs eðlis en í Úganda er mikið trúarlíf.

Ef maður ætlar bara að fara stutta vegalengd innanbæjar og er ekki lífhræddur er „boda-boda“ hentugur ferðamáti. Boda-boda eru skellinöðrur en nafnið kemur til af því að upphaflega voru hjól, fyrst reiðhjól en síðar vélhjól, notuð til þess að smygla varningi milli landamæra. „Border to border“ hljómaði í eyrum heimamanna sem „boda-boda“ og orðin sem í fyrstu voru notuð um smygl festust við farartækið.

Skellinöðrur eru ekki einungis notaðar til fólksflutninga. Hér flytja menn ótrúlegustu byrðar á vélhjólum og reyndar einnig á reiðhjólum. Timburhlaða sem standa heilan metra út til hvorrar hliðar, með tilheyrandi slysahættu. Ávexti sem er hlaðið svo þétt utan á hjólið að maður sér varla ökumanninn og trúir því varla að hægt sé að halda jafnvægi með svo þungan og umfangsmikinn farm, hvað þá að fylgjast með umferðinni líka. Jafnvel húsgögn eru flutt á hjólum og aðrir vegfarendur sýna því mikið umburðarlyndi.  Ég sá mann á reiðhjóli sem hafði komið um 80 cm breiðri grind fyrir á bögglaberanum og á henni var svo hár hlaði af eggjum að aftan frá rétt grillti í svartan kollinn á honum.  Eggin voru ekki einu sinni í lokuðum öskjum, heldur bara raðað á opna eggjabakka. Einar sá m.a.s. lík flutt á mótorhjóli en ég missti af því.

hjol

Þessi er að flytja vatnsbrúsa. Vonandi tóma. Kranavatnið í Kampala er drykkjarhæft (ég lagði reyndar ekki í að prófa það sjálf) en margir hafa ekki aðgang að vatnsveitu. Sumt fólk sem hefur aðgang að vatnsveitu selur kranavatn á brúsum. Ætli þeir séu nokkurntíma sótthreinsaðir?

Það er fljótlegast að komast um borgina á boda-boda og það hentar prýðilega ef maður er gefinn fyrir áhættusport. Ökumennirnir hika ekki við að smeygja sér milli bílaraða á miklum hraða og þeir útvega ekki hjálma svo ef maður á ekki hjálm er maður bara óvarinn. Úgandamenn virðast reyndar langt frá því að vera slysahræddir. Fáir nota hjálma og eitt sinn sáum við megaskvísu í netsokkabuxum og snípstuttu pilsi standa á öðrum fæti á farþegasætinu og halla sér fram, með hinn fótinn beint upp í loftið. Hún uppskar lófaklapp og blístur ungra töffara sem fylgdust með afrekinu.

kyrflutningar

Þessi mynd af gripaflutningabíl er tekin út um bílglugga. Inni í borginni silast umferðin áfram en þessi var úti á landi á góðum hraða. Maður bara Jesúsar sig og gleymir því alveg að það eru ekki nema 40 ár síðan börnum á Íslandi var leyft að sitja óvarin á vörubílapöllum.

Okkur er sagt að hér sé mikið um ölvunarakstur en árið 2011 var ákveðið að gera átak í þeim málum. Sett lög um hámarks áfengismagn í blóði og löggunni útveguð öndunarpróf. Vinir okkar hér segja að í barnslegri gleði sinni yfir nýju dóti hafi löggan farið offari í stútabösti og auk þess túlki laganna verðir lögin á þann veg að þeim beri að kæra hvern þann sem áfengi mælist í, jafnvel þótt það sé langt frá hámarkinu. Ég fann mig knúna til að leita staðfestingar og það tók ekki langan tíma, þetta er víst svona. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir víst gefið það út að þeir áskilji sér rétt til að handtaka fólk fyrir ölvunargöngu þar sem drukknir gangandi vegfarendur valdi einnig slysahættu. En ég veit ekki hvort hefur nokkurntíma reynt á það.

Eins og gefur að skilja er slysatíðni há við þessar aðstæður. Samkvæmt opinberum tölum verða um 17000 umferðarslys í landinu á hverju ári. Ég er samt ekki viss um að það væri hægt að spara mikið í heilbrigðiskerfinu með því að bæta vegakerfið og gera strangari öryggiskröfur. Það er ekki eins og ríkissjóður þurfi að punga út örorkubótum eða dagpeningum þegar fólk slasast.

____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics