________________________________________________________________________________________
Góðæri framundan, hæhó jibbýjei, nú er víst óhætt að hefja partýið aftur.
En veistu hvað; markaðsráðgjöfum Disney er sama um ímynd Meridu. Markmið þeirra er ekki að virða listaverk, hvað þá að vinna gegn staðalmyndum, heldur að græða eins mikla peninga og mögulegt er. Eigendur Disney myndu setja skegg á Pétur Pan og gera Öskubusku að feminista ef þeir héldu að það skilaði meiri gróða.
Disney er sama um Meridu. Sjálfsagt finnst einhverjum það ómerkilegt mál að listaverk sé eyðilagt og boðskapurinn fari forgörðum en kannski ekki eins léttvæg staðreynd að eigendum Walmart er sama um starfsfólkið í fataverksmiðjunum í Bangladesh. Og af hverju ætti þeim ekki að vera sama? Þetta fólk er með sem svarar 5000 kalli í mánaðarlaun (og sumir minna) og er það mikil hækkun frá því fyrir hrunið. Það er ekkert vit í því að fjárfesta í öryggi fyrir fólk sem er svona lítils virði enda nóg framboð af fólki sem getur unnið í fataverksmiðjum ef fleiri deyja.
Walmart er sama um verksmiðjuþræla og hugsanlega hafa einhverjir þeirra val. En fangar hafa ekki val og Obama er sama um fangana í Guantánamo. Hann komst til valda út á loforð um að draga úr hernaði og uppræta mannréttindabrot en raunverulegt markmið hans var að þjóna undir kapítalið. Og það gerði hann.
Og veistu hvað; rétt eins og Obama, eru bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn handbendi kapítalismans. Stórfyrirtækja sem hafa engin prinsipp, hvort sem við skoðum menningu og listir, velferð og öryggi, mannréttindi eða neitt annað sem skiptir almenning máli. Silfurskeiðabandalaginu er sama um þig.
Hvað er kapítalismi?
Grunnhugmynd kapítalismans, sú hugmynd að hagnaður sé grundvöllur velferðar, er rétt og góð. Fátækt er á allan hátt ógeðsleg og því er skiljanlegt að fólk vilji stjórnvöld sem leggja áherslu á gróða. Það virðist líka frekar réttlátt að þeir hæfustu, duglegustu og þeir sem taka frumkvæði og áhættu sem gagnast samfélaginu, njóti góðs af því. Jafnvel svokölluðum „vinstri flokkum“ finnst það réttlátt, enda langt frá því að stefna fráfarandi ríkisstjórnar eigi neitt skylt við kommúnisma þótt hún hafi ekki svifið skýjum ofar eins og Silfurskeiðabandalagið. En málið er að kapítalismi í framkvæmd er jafn langt frá því að vera réttlátur og kommúnismi er langt frá því að vera laus við persónudýrkun. Sá kapítalismi sem við þekkjum gengur ekkert út á það að „snúa hjólum atvinnulífins“ svo fleiri brauðmolar hrynji af borðum auðvaldsins heldur gengur hann út á frelsi fárra útvalinna til þess að blóðmjólka fjöldann.
Kapítalismi er réttlættur með hugmyndinni um náttúruval, að sumir njóti forréttinda vegna verðleika sem gagnast öllum, rétt eins og í náttúrunni. En það er blekking. Kapítalismi í framkvæmd er ekki það fyrirkomulag að silfurbakurinn í hópnum fái bestu bitana heldur það sem þú sérð í þessu myndbandi.
Þetta er sá kapítalismi sem rekinn er á Vesturlöndum í dag. Svona hegða engir apar sér. Þetta er ástandið sem „öfgasinnað“ umhverfisverndarfólk og sósíalistar eru að reyna að sporna gegn. Kapítalismi snýst ekkert um að útvega aumingjunum fleiri brauðmola. Ef það gerist er það fínt en það er ekki markmið. Kapítalismi snýst um að gera þá ríku ríkari og það eru engin takmörk fyrir því hvað það má kosta. Kapítalismi merkir að Disney er sama um boðskapinn, Walmart er sama um líf verkamanna, Obama er sama um mannréttindi og Silfurskeiðabandalaginu er sama um þig.
Já en þetta er Ameríka, ekki Ísland
Ég held að jöfnuður sé meiri á Íslandi en í Bandaríkjunum. En Bandaríkjamenn halda reyndar líka að jöfnuður í þeirra samfélagi sé meiri en hann er. Ég veit ekki hvort nokkur hefur skoðað tekju- og eignadreifingu á Íslandi ofan í kjölinn en Þórður Björn Sigurðsson hefur tekið saman upplýsingar sem gefa vísbendingu um að Íslendingar þurfi ekki að hafa verulegar áhyggjur af uppgangi kommúnisma alveg á næstunni. Útlistun Þórðar má sjá með því að smella á myndirnar.
Sætabrauðsdrengirnir voru ekki kosnir út á þessa mynd. Þeir voru ekki kosnir út á þann kapítalisma sem þeir hafa þjónað og ætla að þjóna. Þeir voru kosnir út á loforð um bættan hag almennings, ekki aðeins þeirra 5, 10 eða 15 prósenta sem eiga megnið af eignum og innistæðum og hafa hæstu tekjurnar.
Nú vill svo til að Íslendingar hafa rekið eina ríkisstjórn frá völdum, einmitt vegna þess að hún leyfði auðvaldinu að ræna almenning. Það hefur gerst og það getur gerst aftur. Kannski ætti Silfurskeiðabandalagið að velta þeim möguleika fyrir sér áður en veiðigjöld verða afnumin.
________________________________________________________________________________________