Þann 19. desember 2008 féll dómur við bæjardómstólinn í Herning í Danmörku. Sakborningur var 44 ára karlmaður að nafni Ejnar Nielsen. Hann hafði ráðist á þáverandi kærustuna sína, lagt hníf að hálsi hennar og nauðgað henni. Eða svo sagði hún og fyrir það var hann sakfelldur.
Uns sekt er afsönnuð
Áþreifanleg sönnunargögn voru engin. Konan hafði að eigin sögn misst þvag af skelfingu en nauðgarinn farið með hana inn á bað og látið hana þvo sér. Ekkert þvag fannst í rúmfötunum. Geðshræringin og skömmin ollu því (að sögn) að hún setti fötin sín í þvottavélina áður en hún leitaði til lögreglu. Hún hafði líka, í þessu undarlega hugarástandi, sett hnífinn í uppþvottavélina, en hann fannst nú samt og á honum voru fingraför gerandans. Engir óeðlilegir áverkar fundust en konan hafði kvartað um verki við lækni. Hún hafði tekið leigubíl þegar hún fór í skoðun og bílstjórinn staðfesti að hún hefði tekið með sér kodda til að sitja á.
Ekkert af þessu voru í sjálfu sér tæk sönnunargögn. Þótt fingraför finnist á eldhúshnífi í uppþvottavél sannar það ekki að honum hafi verið beitt sem vopni. Þótt kona sitji á kodda og segist finna til sannar það ekki að hún hafi orðið fyrir nauðgun. Það sem réði úrslitum var trúverðug frásögn og andlegt ástand fórnarlambsins. Konan grét. Hún grét og skalf og sýndi þess öll merki að hafa orðið fyrir áfalli.
Ejnar var dæmdur til tveggja ára fangavistar. Síðar staðfesti landsdómur sektarúrskurð en mildaði dóminn í 19 mánuði. Forsendan fyrir milduninni var samband þeirra. Að mati danskra dómstóla telst víst illskárra enn í dag að nauðga sínum eigin konum en annarra. Konan hafði reyndar neitað því að þau hefðu átt í ástarsambandi en þar sem hún hafði sent Ejnari kort, undirritað af „kærustunni“, taldi dómurinn rétt að láta Ejnar njóta vafans að því leyti. Ekki virðist hafa vaknað spurning um hvort konan hafi borið rangt um fleiri atriði.
„Þetta var bara svo fjári góð saga“
Ejnar Nielsen sat inni í fjórtán mánuði en fékk þá reynslulausn. Hann var ákveðinn í að hreinsa mannorð sitt, náði tali af „brotaþola“ og tók upp samtöl án hennar vitundar. Í máli konunnar kemur fram að hún hafi logið. Hún byrjaði að segja sögu og þegar hún einu sinni var byrjuð á því gat hún ekki dregið söguna til baka.
Í samtalinu lýsir konan því hversu auðvelt henni reyndist að sannfæra alla um að hún væri fórnarlamb grófrar nauðgunar og skálda upp sönnunargögn. Hún vissi að fingraför Ejnars hlytu að finnast á hnífi sem hann hafði notað til að skera ávexti fyrr um kvöldið. Það var ekkert einkennilegt þótt meint árásarvopn fyndist í uppþvottavélinni því brotaþolar í losti gera allskonar undarlega hluti, útskýrir hún:
Det var jo fordi, at jeg skulle lade som om, jeg var i chok, og så går man jo rundt og gør alt muligt mærkeligt.
Um það hversvegna hún sagðist hafa þvegið fötin sín eftir að hafa pissað á sig, segist hún hafa þurft að gefa skýringu á því hversvegna ekkert þvag fyndist.
Nej, men det var jo for at beslutte den der med at tisse i bukserne, den holdt i retten.
Hún útskýrir einnig fyrir „gerandanum“ hversvegna hún tók með sér púða þegar hún fór í læknisskoðun. Það var til þess að fá fram hagstæðan vitnisburð:
Og jeg ved endda også, at taxachaufføren skal jeg tænke ind (…) Jeg er nødt til at sørge for, at jeg har en pude med ud, sådan at det ser ud som om, jeg har ondt.
Konan talar um nauðsyn þess að sannfæra réttinn um að hún hafi verið algerlega á valdi karlsins. Hún þurfti bæði að koma fram sem skynsöm og trúverðug en einnig að sýna geðshræringu, gráta og sýna önnur mannleg viðbrögð.
Eller fordi så tilnærmer jeg mig i hvert fald, at jeg også er menneske. Jeg skulle jo være menneske. Jeg skulle jo græde. Der er mange ting, jeg skulle.
Við réttarhöldin baðst hún undan því að þurfa að hitta „gerandann“, ekki vegna þess að hún skammaðist sín of mikið til að horfast í augu við hann, heldur hafði hún áhyggjur af því að hún myndi missa andlitið og fara að hlæja ef hún sæi hann. Þetta var nefnilega svo helvíti góð saga.
Grunden til at jeg ikke vil se dig, var at jeg vidste, jeg ville begynde at grine eller smile eller et eller andet helt vildt.
Hún segist vera leið yfir þessu öllu saman en ekki nógu leið til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ein lygi leiddi af annarri en lygavefurinn varð nú samt aldrei svo íþyngjandi að hún íhugaði að segja sannleikann:
Men det gjorde det jo ikke. Jo, det gjorde det på sin vis, men det var jo bare en god historie, og den skulle jeg bare huske.
Mærin grét
Björgu Sveinbjörnsdóttur finnst það siðlaust og ljótt af manni sem segist vera saklaus af nauðgun að reyna að hreinsa mannorð sitt með því að benda á hnökra á framburði kæranda. (Ég velti því fyrir mér hvort henni finnist ekki siðlaust af Ejnari Nielssen að taka upp samtal án vitundar konunnar sem kom honum í steininn.) Björgu finnst líka voðalega ljótt og hallærislegt að láta sakborning njóta vafans. Ung kona sakar karl (og reyndar konu líka) um nauðgun og þótt lýsing hennar á aðdragandanum sé í mótsögn við frásögn vitna, ljósmyndir og símagögn, þá skiptir það engu máli. Mærin grét og þar með hlýtur henni að hafa verið nauðgað. Ef dómskerfið er ekki til í að sakfella ódáminn þá er lágmark að samfélagið geri það. „Réttarkerfisspilið“ sem Björg nefnir (þ.e. sú regla að telja mann saklausan uns sekt hans er sönnuð) er ekki sjálfsögð virðing við mannréttindi, heldur „þöggunartilburðir“. Framburður og ástand meints brotaþola er fullgild sönnun og sá sem brýtur siðareglu til þess að reyna að hreinsa sig er ofbeldismaður og óþverri.
Ejnar Nielssen fékk málið sitt endurupptekið og hlaut uppreisn æru gagnvart hinu opinbera. Í viðtali við Jyllandsposten í nóvember 2012 segist hann þrátt fyrir það ennþá vera stimplaður nauðgari í sínu samfélagi. Kannski hefði sektardómur yfir konunni hjálpað honum að endurreisa mannorð sitt en kæru hans um rangar sakargiftir var vísað frá.
Hversvegna var kærunni vísað frá þegar fyrir lá viðurkenning konunnar á því að hún hefði komið saklausum manni í fangelsi? Líklega að einhverju leyti vegna þess að viðhorf Bjargar Sveinbjörnsdóttur er ekki róttækt heldur „meinstrím“. Sú hugmynd að meintur brotaþoli sé heilagur gengur svo langt að þótt viðkomandi verði uppvís að því að segja ósatt um allskonar hluti sem tengjast málinu þá skiptir það ekki máli. Mærin grét. Mærin „upplifði“ eitthvað hræðilegt, svo eitthvað hræðilegt hlýtur að hafa gerst. Og hvað er mannorðsmissir, jafnvel fangelsisdómur, í samanburði við tár ungrar konu?
Hvað eru þessir nauðgaravinir að hugsa?
Góð saga er ekki verri þótt hún sé login. Sú hugmynd á auðvitað við um skáldskap. Ekki lygasögu sem sett er fram sem sannleikur og til þess ætluð að valda annarri manneskju skaða. Konan sem kærði Ejnar Nielssen fyrir nauðgun, (sú sem í dómsskjölum er kölluð „K“ af því að brotaþolar eiga að njóta sérstakrar nærgætni) telur hinsvegar að góð saga sé alltaf góð, líka ósönn saga sem kemur saklausum manni í fangelsi.
Ég veit ekki hvort Björg Sveinbjörnsdóttir er konunni „K“ beinlínis sammála eða hvort hún telur í alvöru að þegar kona grætur og skelfur þá sé það sönnun þess að hún hafi orðið fyrir nauðgun. Ég veit hinsvegar hvað við hin erum að hugsa, við sem erum svo full kvenfyrirlitningar að „spila út réttarkerfisspilinu“. Við þessi afturhaldssömu sem hikum við að stimpla mann nauðgara, vegna þess að mærin grét og ódámurinn sagði einu sinni ógeðslegan brandara.
Við erum að hugsa um menn eins og Ejnar Nielssen. Við höfum smávegis samúð með slíkum mönnum, jafnvel þótt þeir hinir sömu kunni að hafa sýnt dónaskap og tillitsleysi. Á feminísku kallast það að vera nauðgaravinur.