Laugardagur 12.10.2013 - 14:10 - FB ummæli ()

Verður læknavísindakirkjan að veruleika?

 

Loksins hillir undir stofnun trúfélags sem ég gæti hugsað mér að tilheyra. Ég trúi heilshugar á mátt læknavísindinna til að bæta heilsu og hamingju almennings og bjarga oss frá óþarfa þjáningu og ótímabærum dauða. Þessvegna ætla ég að ganga í læknavísindakirkjuna.

 

Hver eru skráningarskilyrðin?

Í netumræðunni hefur heyrst sú skoðun að læknavísindakirkjan uppfylli ekki skilyrði þess að kallast trúfélag. Ég fletti upp í lagasafni Alþingis til að skoða hverjar kröfurnar eru. Um almenn skilyrði er fjallað í 3. grein:

  • Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú.]1)
  • [Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.]1)
  •  [Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess og styðja lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.]1)
  • [Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögum þessum.]1)

 

Trú er ekki skilgreind í lögum

Ég sé ekki betur en að læknavísindakirkjan eigi samkvæmt þessu góða möguleika á að verða skráð sem trúfélag. Trú og átrúnaður eru ekki skilgreind í lögunum og því enginn sem getur haldið því fram að ég trúi ekki á læknavísindin.

Einnig kæmi til greina að skrá læknavísindakirkjuna sem lífsskoðunarfélag. Hún hefði þá að leiðarljósi þá siðferðislegu meginreglu að samfélagi beri að tryggja öllum borgurum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Það þarf ekki mikla þekkingu eða hugarflug til að taka saman safn greina og rita um siðferðislegt gildi góðrar heilbrigðisþjónustu og skal ég með ánægju leggja hönd á plóginn. Læknavísindakirkjan mun að sjálfsögðu einnig fjalla um þekkingarfræði góðrar heilsu „með skilgreindum hætti“. Hvar er sá háttur annars skilgreindur? Er ekki bara hægt að benda á læknisfræðihillur Þjóðarbókhlöðunnar? Eða eru vísindarit ekki nógu „skilgreind“?

Læknavísindakirkjan er þegar starfandi þótt hún hafi ekki fengið nafn

Það er ekkert vafamál að starfsemi læknavísindakirkjunnar er virk og stöðug, þótt það nafn hafi ekki verið notað um hana fyrr en nú.  Meirihluti landsmanna sækir þjónustu lækna og hjúkrunarfólks í mun meira mæli en meðlimir þjóðkirkjunnar sækja þjónustu presta. Þótt trúarhreyfing hafi ekki verið miðstýrð eða átt sér sérstaka málsvara fyrr merkir það engan veginn að meðlimir hennar hafi ekki komið saman til að styrkja hver annan í trúnni og breiða út fagnaðarerindið.

imagesBent skal á að blóðbankinn á í fórum sínar góðar sannanir fyrir blóðfórnum almenning í þágu læknavísindanna. Líklegt er að þær séu umtalsvert meiri bæði að blóðmagni og fórnartíðni en blóðfórnir í þágu þeirra trúfélaga sem þegar eru skráð. Staðfest mun að mörg kraftaverk hafa verið framin fyrir tilstilli þeirra fórna.

Einnig ber að hafa í huga að miklu meiri sala er í lyfjum en oblátum og það þarf ekki margar rannsóknir til að staðfesta að trú alþýðu manna á lækningarmátt lyfja er mun meiri en trúin á lækningarmátt hins heilaga orðs Biblíunnar og annarra trúarrita. Margir læknar munu aukinheldur tilbúnir til að staðfesta að skjólstæðingar leiti iðulega til þeirra sem sálusorgara ellegar til þess að leita svara við því hversvegna almættið leggur á þá hinar ýmsu þjáningar.

 

Nauðsynlegt er að tilnefna einhvern til að annast athafnir

Það eina sem læknavísindakirkjan þarf óumdeilanlega að gera, til að uppfylla skilyrði til skráningar, er að útnefna fulltrúa til að annast athafnir. Það ætti ekki að vera vandamál, ég er tilbúin til að íhuga möguleikann á því að taka það að mér sjálf ef enginn annar sýnir áhuga.

 

Ráðamenn líta nú þegar á heilbrigðiskerfið sem kirkju 

wish

Heilbrigðiskerfið er nú þegar rekið með trúna á kraftaverk að leiðarljósi. Ja, nema stjórnvöldum sé hreinlega sama hvort sjúklingar fái þá þjónustu sem þeir þarfnast eður ei. En það getur varla verið, skýringin hlýtur frekar að vera sú að ráðamenn trúi því að læknavísindin séu svo öflug að þau geti læknað fólk án þess tæknibúnaðar og mannafla sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins telja forsendu góðrar þjónustu.

Ríkisstjórnin trúir greinilega sjálf á kraftaverkamátt lækna og hjúkrunarfólks. Þetta er þó ekki svo einfalt því jafnvel Elín Hirst er búin að frétta af nauðsyn þess að bæta tækjakost Landspítalans. Það væri því í meira lagi ósiðleg ákvörðun að synja læknavísindakirkjunni um skráningu, sem er forsenda þess að hún geti innheimt sóknargjöld og bjargað þannig fjölda manns frá þjáningum og dauða.

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics