Mig langar að vita hvernig höfundar aðalnámskrár sjá fyrir sér heimilisfræðikennslu sem byggir á þessum grunnþáttum. Hvernig eldar maður t.d. sjálfbærar jafnréttiskjötbollur í lýðræðissamhengi?
Tenging heimilisfræðinnar við hreinlæti og hollustu er augljós. Að sjálfsögðu kennum við krökkunum að það sé óheppilegt að nærast eingöngu á sælgæti og frönskum kartöflum og við kennum þeim að fara ekki með áhöld beint úr hráu kjöti í grænmetið sem við ætlum að nota í salat. Sköpun á líka ágætlega heima í eldhúsinu, um að gera að hvetja ungt fólk til að prófa nýjar leiðir til að blanda saman hráefnum og finna skemmtilegar borðskreytingar. En hvað með sjálfbærni, jafnrétti, mannréttindi og lýðræði?
Er börnum kennt að hafa jafnrétti að leiðarljósi við kjötbollugerð með því að láta makann sjá um innkaupin og uppþvottinn? Eða eigum við að kaupa hakkið af slátrara sem er fatlaður eða svartur? Þurfum við að bjóða einhverjum samkynhneigðum í mat? Eða eigum við að gæta jafnréttis með því að nota svuntu í lit sem ekki er tengdur staðalmyndum kynjanna?
Og hvað með sjálfbærnina? Gæta skólaeldhús þess að kaupa eingöngu kjöt frá búum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi við framleiðsluna? Er börnunum kennt að greina á milli sjálfbærrar og ósjálfbærrar kartöflu?
Hvernig koma mannréttindi inn í heimilsfræðikennslu? Er börnum kennt að nota eingöngu mjöl með „fair trade“ vottun í kjötbollurnar? Og hvernig í fjáranum setur maður matreiðslu, þrif og þvotta í samhengi við lýðræði?