Kannski er hugmyndin um áhrifamátt bundins máls á undanhaldi en hún hefur lengst af verið áberandi í íslenskri menningu. Hún birtist til að mynda í galdratrú þar sem ákvæðakveðskapur skipar stóran sess og eins hefur skáldskapur löngum þótt áhrifarík leið til að kveða niður drauga. „Meiðyrðamál“ Íslendingasagna voru gegn skáldum sem höfðu ort níð. Þar sem alþýðukveðskapur er jafn stór þáttur í menningunni og á Íslandi er kannski ekki að furða þótt níðvísa hafi þótt líklegri til að skaða æru manna en móðgun í óbundnu máli.
Barnamenning er einnig lituð af þeirri hugmynd að rím og stuðlar hafi sérstakan áhrifamátt. Klifanir af ýmsu tagi eru áberandi í leikjum barna og krökkum hefur löngum þótt sniðugt að svara fyrir sig með rími og stríða öðrum með því að gala á eftir þeim misvel rímaðar móðganir, með syngjandi hljómfalli. Klassískt að ríma Gunna við tunna en sérlega vel heppnuð stríðni er eilítið flóknari. Ef ekki vill betur má alltaf bæta við „rassgatarunna“ eða öðru rími með óljósa merkingu. Og ef nafnið rímar ekki vel má alltaf nota stuðla í móðgunarskyni sbr. Bjössi bolla. Rassgöt og viðrekstrar, ásamt þeim sérstaka þef sem fylgir vindgangi þykja falla einkar vel að hverskyns móðgunum og bæta upp fyrir merkingarleysu.
Ég veit ekki hvort nokkur hefur tekið að sér að safna saman barnabulli sem hefur náð útbreiðslu en mér finnst áhugavert að skoða hverskonar rím og stuðlun hefur skotið rótum. Hér eru nokkur dæmi sem ég man eftir og sem aðrir hafa sagt mér frá, mér þætti gaman ef lesendur vildu bæta við.
Leikvallatilkynningar
Á leikvöllum virðast tímasetningar áhugaverðar bæði í leikjum og almennt.
Opin búð, klukkan þrjú!
Babú! klukkan þrjú.
Éttu snúð, klukkan þrjú!
Éttu kex, klukkan sex!
Allir inn, klukkan fimm!
Bless kex klukkan sex!
Klukkan átta, allir að hátta!
Ég man bara eina leikvallatilkynningu sem er almenns eðlis, hvorki hugsuð sem móðgun né tilsvar, þar sem tímasetning kemur ekki við sögu:
Allir frá, Fúsa liggur á, löggan stendur aftan á!
Tilsvör sem þykja hnyttin
Reyndar þykir almennt smellið að svara með rími en eftirfarandi línur þekkjast víða ef ekki um allt land.
Sjáð’etta hvíta! – Karlinn er að skíta.
Sjáð’etta græna! – Karlinn er að spræna.
Hvað ert’að gera? – Taka lamb og skera.
Hvað ertu að gera? – Taka hund og skera, salta hann ofan í tunnu og færa henni Gunnu.
Hvert ert’að fara? – Að skera rabbarbara.
Hamar og spýta. – Farðu að skíta.
Viltu veðja? -Kúkur og keðja.
Ertu alveg viss?… – Ertu í félagi með kúk og piss?
Ég skal segja brandara. – Fáðu þér standara.
Á ég að segja brandara? – Fáð’ér brjóstahaldara.
Hvað er klukkan? – Skítt’á puttann.
Hvað er klukkan? – Málmur og gler, í rassgatinu á þér.
Hvað er klukkan? – Málmur og gler, sem gengur fyrir rafmagni úr rassgatinu á þér.
Hvað er klukkan? – Málmur og gler, sem gengur eins og vant er, í rassgatinu á þér.
Ha? -ni á priki, ertu að safna spiki?
Ha? -ni á priki, skeindu þig á ryki.
Ég líka. – Óli píka.
Mér finnst áhugavert að nafnið Óli skuli hafa fest svona rækilega við þetta rím því það er alls ekki nauðsynlegt að þekkja neinn með því nafni til þess að svarið virki. Ég hef sjaldan heyrt annað nafn en Óli notað í þessu samhengi.
Montbull
Liggaliggalá! Sönglað í lok setningar til að gefa til kynna mont. Ef markmiðið er að gera viðmælandann öfundsjúkan er bætt við – ekki þú! T.d. Ég fæ líka nýja liti, liggaliggalá, og ekki þú!
Nanananabúbú! Svipað og liggaliggalá en þó áherslumunur. Nananabúbú er fyrst og fremst ætlað að svekkja viðmælandann þar sem liggaliggalá getur vel verið mont án spælingar.
Næstu tvær yfirlýsingar gefa til kynna að sönglandanum standi hjartanlega á sama um skoðanir annarra:
Iss, fliss, kúk og piss!
Iss, piss og pelamál
púðursykur og króna.
Þegar mér er mikið mál
þá míg ég bara í skóna.
Móðganir þar sem tiltekið nafn kemur fyrir:
Jói, spói spýturass
rekur við og segir pass.
Anna, panna, pottur og kanna.
Kata fata, alltaf að plata.
Jóa, fóa, feykiróa.
Jóa, tóa, litla lóa.
Gunna, tunna grautarvömb
étur eins og átján lömb.
Gunna tunna grautarvömb
gekk um allan daginn
áttatíu og átta lömb
át hún sama daginn.
Djarfmannlegt þykir að ögra tröllum
Grýla píla, appelsína!
Grýla píla, skítafýla!
Leppalúði, alger lúði!
Grýla píla, appelsína,
missti skóinn ofan í sjóinn,
þegar’ún kom að landi
var skórinn fullur af sandi.
Vaknaðu Grýla pissufýla!
(Þetta er leikjavísa, notuð í vegasaltsleik sem ég man ekki nógu vel til að lýsa honum.)
Stríðni og móðganir þar sem nöfnum þolenda er skipt út eftir þörfum
Jón og Gunna eru hjón
kyssast upp á títuprjón.
Siggi fór í fýlu á föstudaginn var
hitti hana Grýlu og gerði í buxurnar.
Grýla fór að verka en hafði varla við
því vesalings Siggi rak svo mikið við.
Bíbí og blaka
Bjarni skeit á klaka
fimmaura kaka
tí’aura til baka.
(Ekki þykir skipta máli að hafa höfuðstaf í annarri línu, það getur allt eins verið Valgerður sem skítur á klakann.)
Kata greyið rekur við
rífur gat á rassgatið.
Aðrar móðganir
Þú ert lítil, þú ert ljót
farðu bara að moka grjót.
Þú ert lítill, þú ert mjór
farðu bara að moka flór.
Ertu með störu? Kysst’ana Klöru. Útí fjöru.
Á hvað ertu að glápa? Eins og eldgömul sápa.
Á hvað ertu að horfa? Eins og gömul torfa.
Haltu kjafti,
snúðu skafti
rektu við af fullum krafti.
Rektu við og slefaðu,
snúð’ér við og þefaðu.
Farðu upp í sveit, að elta gamla geit.
Fokk jú, gamla kú. (Þessa heyrði ég ekki fyrr en yngri sonur minn byrjaði í skóla)
Ást í poka
sem ekki má loka. (Galað á eftir börnum sem eiga vin af gagnstæðu kyni.)
Farðu í rass og rófu
ríddu grárri tófu
(stundum bætt við:)
hafðu kött fyrir keyri
og keyrð’inn á Akureyri.
Apaköttur, apaspil, að þú skulir vera til. Eða; apaköttur, apaspil, ættir ekki að vera til.
Móðganir sem beinast líka að foreldrum
Í minni barnæsku var sannleiksgildið í eftirfarandi móðgunum ekki talið skipta máli. „Pabbi þinn er kokkur“ var í fullu gildi þótt faðir þolandans væri lögfræðingur eða sjómaður.
Haltu kjafti, éttu skít
mamma þín er kjaftatík.
Mamma þín er frekjuskass
og pabbi þinn er fituhlass.
Mamma þín er Kínverji
Pabbi þinn er Japani
og þú ert sjálfur aumingi.
Pabbi þinn er kokkur
og þú ert drullusokkur.
Mamma þín er hjúkka
og þú ert pissudúkka.
Margt af því sem hér hefur verið nefnt var mér gleymt en lesendur hafa rifjað það upp fyrir mér. Gaman væri að fá ábendingar um fleiri dæmi af þessu tagi. Við teljum þetta kannski ekki merkilegt í dag en það gæti vel orðið áhugavert að bera saman barnabull tuttugustu aldar og þeirrar tuttugustu og fyrstu.