Mánudagur 28.10.2013 - 16:13 - FB ummæli ()

Verður kartöflurækt einokuð?

Í gær benti ég á þvæluna í þeim sem flokka hvern þann sem marxista, sem telur kapítalismann vinna gegn lýðræði og frelsi.

Í þessu viðtali er fjallað um fyrirhugaða plöntulöggjöf Evrópusambandsins; reglur sem hætta er á að hefti frelsi almennings til þess að stunda jafn áhættulausa og sakleysislega iðju og matjurtarækt. Þetta er einmitt dæmi um það hvernig kapítalisminn snýst beinlínis gegn viðskiptafrelsi og maður þarf ekki að vera sérstakur aðdáandi „samsæriskenninga“ til að gruna að slíkar reglur séu settar með hagsmuni stórfyrirtækja að leiðarljósi.

Við trúum því varla að sé hægt að banna fólki að rækta sínar eigin kartöflur. Staðreyndin er samt sú að stórfyrirtæki hafa öðlast einkaleyfi á tilteknum fræjum og öðru útsæði. Einkaleyfi Monsantó á útsæði hafa t.d. þau áhrif að smábændur sem vilja rækta þau afbrigði þurfa að kaupa útsæði árlega og aðrir geta átt á hættu lögsókn ef fræ berast inn á lönd þeirra. Kúgunin sem Monsanto stendur fyrir hefur þó ekki fengið þá athygli sem maður hefði búist við, kannski vegna þess að umræður um erfðabreytt matvæli fara yfirleitt fljótlega að snúast um hvort þau séu skaðleg heilsu manna eða ekki.

Nú er fyrirhugaðri plöntulöggjöf Evrópusambandsins að sögn ætlað að vernda almenning gegn skaðlegum jurtum. Ekkert liggur þó fyrir um að sú fæða sem við ræktum sjálf í görðunum okkar sé skaðleg og slík löggjöf býður beinlínis upp á einokun stórfyrirtækja.

Fram til ársins 2009 hafði Evrópusambandið strangar reglur um stærð og lögun ávaxta og grænmetis. Til þess að geta flutt ávexti og grænmeti á Evrópumarkað þurfti að rækta sérstaklega afbrigði sem stóðustu kröfur um stærð og útlit. Og hverjir höfðu bolmagn til þess? Varla smábændur. Nú hefur þessum klikkuðu reglum verið aflétt en þau fyrirtæki sem stóðu undir kröfunum eru búin að hasla sér völl og neytendur eru orðnir vanir því að gúrkur séu beinar og að blómkál sé af tiltekinni stærð. Það er ekkert einfalt fyrir smábændur að ganga inn í þetta undarlega afbrigði af markaðsfrelsi. Það verður heldur ekkert einfalt fyrir garðyrkjubændur í Biskupstungum að selja tómatana sína ef  þeir þurfa blessun Evrópusambandsins til þess. Við búum þegar við einokun nokkurra auðmanna á rétti til fiskveiða. Hverjir ætli eigi mesta möguleika á að kaupa sér einkaleyfi til kartöfluræktar?

Og nú er ég ekki að fullyrða að fyrirhuguð plöntulöggjöf sé ástæða til þess að hafna Evrópusambandinu, heldur er ég að benda á að „viðskiptafrelsið“sem kapítalisminn boðar er alls ekki frelsi fyrir alla. Fyrir þá ríku og voldugu jú, en ekki fyrir einyrkja og lítil fjölskyldufyrirtæki.

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics