Á ögurstundum í lífi þjóðar getur varla verið forgangsmál að forða börnum frá boðskap um rökhyggju og réttlæti. Þessvegna ættum við að fá einhvern valinkunnan trúleysingja til að fara í barnaskóla og segja börnunum frá hugmyndum Richards Dawkins um Gvuð. Er það ekki Hanna Birna?
Hvernig þætti þeim sem telja trúarinnrætingu í barnaskólum boðlega ef trúleysingjar færu í skólana og boðuðu þar hugmyndir sínar um þarfleysu og jafnvel skaðsemi trúar eins og þær séu óumdeilanlegur sannleikur? Eða ef börnin yrðu send í heimsókn til Siðmenntar á skólatíma? Vilduð þið kannski hafa alveg á hreinu að markmiðið væri einungis fræðsla en ekki innræting?
Væruð þið til í að fá Matta í Vantrú til að segja börnunum hvað honum finnst um Jesús? Væruð þið til í að börnin fengju að sjá brúðuleikhús þar sem ein brúðan útskýrir fyrir annarri að biblíusögurnar séu bara þjóðsögur Gyðinga og þótt megi hafa gaman af þeim sé jafn vitlaust að hafa áhyggjur af áliti Gvuðs og að óttast drauga og útlilegumenn?
Nú efast ég stórlega um að Siðmennt eða Vantrúarmenn fengjust til þess að fara í skólana og ræða við börnin en það eru fleiri trúleysingjar en þeir sem tilheyra sérstökum lífsskoðunarfélögum sem vilja ekki sjá trúarlega innrætingu í skólum. Þið haldið kannski að Vantrúarmenn séu leiðinlegir, well, ye ain’t seen nothing yet! Það er til fullt af fólki sem myndi með ánægju standa fyrir mótvægisaðgerðum. Ef Hanna Birna kemur bænahaldi inn í skólana aftur, þá verður það ögurstund í lífi Hönnu Birnu. Á því augnabliki skal ég prívat og persónulega taka að mér að vera bæði andskotinn og amma hans.