Laugardagur 30.11.2013 - 15:33 - FB ummæli ()

Svínshausarasismi

Nei elskurnar, það á ekki að refsa fólki fyrir að vera fífl.

Í fyrsta lagi eru rökin fyrir ritskoðun og annarri skerðingu tjáningarfrelsis alltaf þau að uppræta þurfi hættuleg viðhorf eða koma í veg fyrir að þau nái fótfestu. Í okkar samfélagi vilja góðir menn þagga niður í þeim sem hatast við samkynhneigð. Í mörgum Afríkuríkjum vilja góðir menn þagga niður í þeim sem tala fyrir réttindum samkynhneigðra. Rökin eru hin sömu í báðum tilvikum; óvinurinn ógnar góðu siðferði.

 

405539_10151009617427963_1674882930_n

Ég tel að upplýsinga- og tjáningarfrelsi sé mikilvægasta tækið til þess að byggja upp og viðhalda lýðræði og jafnrétti. Þegar margar ólíkar raddir fá að heyrast höfum við betra tækifæri til að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir og taka upplýstar ákvarðarnir.  En allt sem  gott er og fagurt kostar fórnir og tjáningarfrelsið hefur sína galla. Það hefur í för með sér meira umburðarlyndi gagnvart særandi og niðurlægjandi orðræðu og því miður þrífast lygar, gervivísindi, vond list og subbulegur húmor í skjóli tjáningarfrelsis.

 
Hvernig á þá að taka á kynþáttahatri?
 
Leiðin til að taka á þessum vandamálum er ekki sú að banna og refsa. Refsingar breyta ekki viðhorfum fólks. Rökræða getur hinsvegar gert það. Ekki viðhorfum þeirra öfgafyllstu heldur skoðunum hófsama meðalmannsins og þeirra sem hætta er á að tileinki sér hugmyndir sem byggjast á röngum upplýsingum. Kynþáttahatur, hatur gegn trúarhópum, hatur gegn samkynhneigðum og öðrum minnihlutahópum á ekki að þagga í hel með refsingum heldur að ræða það í hel með rökum. Afhjúpa það.

Þessi svínahausagjörningur hefur reyndar jákvæða hlið. Hann lýsir glórulausri heift í garð minnihlutahóps, sem hefur ekki valdið íslensku samfélagi neinum skaða og það vekur hugsandi fólki bæði samúð með múslimum og andúð á rasisma. Þvælan sem streymdi upp úr Óskari Bjarnasyni og mannvitsbrekkunum á kommentakerfum í kjölfarið afhjúpar svo vanþekkinguna sem býr að baki þessum viðhorfum og gefur okkur fínt tækifæri til þess að leiðrétta ranghugmyndir.

 

Ranghugmyndir Óskars Bjarnasonar

Óskar heldur því fram að moska á Íslandi jafngildi herstöð. Gott væri ef einhver skeleggur blaðamaður innti Óskar eftir því hvaða moskur það eru sem eru notaðar sem herstöðvar.  Í Bretlandi einu saman eru um 1500 moskur. Ég hef ekki nákvæmar tölur um fjölda moska í heiminum en þær eru vel yfir 2 milljónum. Óskar getur kannski svarað því hversu margar þeirra hafa verið notaðar sem herstöðvar.

Blaðamenn gætu einnig spurt Óskar hvort hann telji í alvöru að 1,62 milljarður manna sé stórhættulegt bókstafstrúarfólk. Staðreyndin er sú að trúrækni múslima breytist venjulega mjög hratt þegar þeir flytjast til Vesturlanda frá mjög íhaldssömum samfélögum þar sem trúin er grundvöllur lagakerfis og samfélagsskipunar. Viðhorf þeirra breytast líka. Í París er m.a.s. risin „hommavæn moska„. Það er erfitt að sjá neitt sem styður þá hugmynd að múslimir séu ólíklegri til þess en aðrir menn að tileinka sér jafnrétti og frjálslyndi.

Einnig væri rétt að Óskar og aðrir rasistar færðu rök fyrir fullyrðingum sínum um skipulagðar nauðganir múslima á sænskum og norskum konum.  Fyrir nokkrum árum kom upp ljótt mál í Noregi. Haft var eftir lögreglunni að múslimar væru ábyrgir fyrir nánast öllum nauðgunum síðustu fimm ára. Þessar fréttir rötuðu inn í norska ríkissjónvarpið. Því miður var það þó ekki svo gott að Norðmenn væru hættir að nauðga konum. Opinberar tölur sýna nefnilega að í 89% tilvika voru Norðmenn að verki.

Í umræðum um fréttina benti einhver á að sænskir fjölmiðlar hefðu ekki flutt neinar fréttir af meintum múslimanauðganafaraldri í Svíþjóð. Einhver viskubrunnurinn skýrði það með því að gyðingar stjórnuðu öllum fréttaflutningi í Svíþjóð. Annar benti á rasistasíður sem heimild. Dæmi nú hver fyrir sig.

Þá þyrfti einnig að krefja Óskar svara við því hvar það hefur komið fram að múslimir líti á sænskar konur sem hórur og hvar í Kóraninum sé að finna tilmæli um að konum skuli nauðgað.

 

Hættulega fólkið dreifir ekki svínsblóði

Málflutningur Óskars og annarra rasista af hans tagi er svo glórulaus að þeir afhjúpa sig nánast hjálparlaust. Við þurfum ekki að refsa þeim heldur svara þeim. Við eigum ekki að óttast þá heldur hía á þá. Ég er dálítið hissa á því að fréttamenn láti manninn komast upp með að halda fram þvílíkri þvælu nánast gagnrýnislaust. Það er óþarfi því það þarf ekki merkilegri fréttamann en meðalbloggara til þess að svara bjánum.

Það eru hinir „hófsömu“ rasistar sem við þurfum að hafa áhyggjur af.  Þessir sem eru nógu menntaðir til þess að orða rasisma sinn af aðeins meiri fágun og smekkvísi. Menn  eins og Ólafur F. Magnússon og Guðmundur Franklín. Þeir hættulegu eru ekki þeir sem ekki dreifa svínshausum heldur þeir sem dreifa röngum upplýsingum, eins og t.d. lögreglan í Noregi. Eins og t.d.  Jón Magnússon sem laug því að hælisleitendur fengju dagpeninga upp á 215 þúsund á mánuði. Rétt eins og norska sjónvarpið flutti fréttir af múslimanauðgunum, án þess að hafa fyrir því að skoða heimildina,  löptu íslenskir fjölmiðlar upp lygina úr Jóni Magnússyni og hún hefur vRerið margtuggin síðan.

Hættulega fólkið er nefnilega ekki illa talandi þvaðurþursar á facebook, heldur hinir virtu og menntuðu svínshausar sem smygla kynþáttahyggju inn í stjórnkerfið, menntakerfið og fjölmiðla, með rangfærlsum og rækilega dulbúnum áróðri. Það er fólkið sem fréttamenn þyrftu að hafa fyrir að afhjúpa, gagnrýna, krefja skýringa og hrekja út í horn, því það eru þessháttar rasistar sem hafa raunveruleg áhrif.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Flóttamenn og innflytjendur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics