Miðvikudagur 09.04.2014 - 13:00 - FB ummæli ()

Eru skáldin virkilega „svokölluð“?

Hin svokölluðu skáld. Eru skáldin virkilega „svokölluð“?  Yfirskrift þessa menningarviðburðar endurspeglar þá hugmynd að hefðbundinn kveðskapur sé harla lítils metinn, gott ef ekki fyrirlitinn.

Ég held nú reyndar að almenningur sé frekar jákvæður gagnvart hefðbundnum kveðskap og það séu einkum tveir mjög litlir hópar sem leggja lítið upp úr listrænu gildi bragformsins. Hugsanlega þrír hópar en ég held að sá þriðji sé ekki fordómafullur gagnvart forminu heldur bara bundinn af lögmálum markaðarins.

Mér virðast það einkum vera þeir, sem  hafa ekki þolinmæði til þess að læra þá undirstöðu sem þarf til að yrkja snoturlega, sem tala með fyrirlitningu um rím og stuðla. Hefðbundnir bragarhættir setja manni vitanlega ákveðnar skorður, rétt eins og tónlist lýtur ákveðnum reglum, en þeir sem líta á bragreglur sem vinnutæki, fremur en kúgandi kerfi, geta fundið öllu sem þeim liggur á hjarta hentugan bragarhátt. Ég á auðvitað ekki við að bundinn kveðskapur sé betri en óbundinn, þetta eru bara ólík form, en ég hef aldrei orðið þess vör að góð skáld sem yrkja óbundin ljóð, hafi þá afstöðu að hefðbundinn kveðskapur sé úreltur. Ég held því að þessi yfirskrift beri frekar vott um óöryggi okkar sem fáumst við hefðbundinn kveðskap en það að formið njóti ekki virðingar.

Í öðru lagi finnst mér svolítið bera á þeirri afstöðu meðal almennings að dægurlagatexti sé eitthvað allt annað en ljóð og það sé óþarfi að vanda textagerð. Þeir popptónlistarmenn sem hafa þessa afstöðu álíta æskilegra að skrifa sína texta hjálparlaust en að leita í smiðju þeirra sem hafa tilfinningu fyrir hljómi og hrynjandi hins bundna máls. Mér finnst þetta einkennilegt. Tónlistarmenn verja ómældum tíma til þess að þjálfa færni sína í hljóðfæraleik og semja tónlist. Þeir líta á það sem sjálfsagt mál að fá fleiri tónlistarmenn til liðs við sig og fá aðstoð við útsetningu en virðast samt sem áður álíta að textagerð krefjist engrar kunnáttu.  Ég held samt að það sé ekki fyrirlitning á forminu heldur þeirra eigin tjáningarþörf sem ræður mestu þar um. Má benda á í því sambandi að Bubbi Morteins, vinsælasti tónlistarmaður sinnar kynslóðar, hefur vissulega notað sína eigin texta að mestu en hefur þó bæði lagt það á sig að læra undirstöðu í bragfræði og þegið ráðgjöf sem tvímælalaust hefur bætt textagerð hans. Mættu aðrir taka það sér til fyrirmyndar.

Í þriðja lagi er mér sagt að útgefendur hafi jafnan þá afstöðu að hefðbundnir bragarhættir sómi sér ef til vill á hagyrðingamótum en eigi lítið skylt við þá hámenningu sem þeir telji sig vera að þjóna. Ég þekki ekki hlutfall þeirra handrita sem forlögin fá af hefðbundnum kveðskap á móti handritum af órímuðum ljóðum en bókaforlög hljóta að hafa það markmið eins og  önnur fyrirtæki að koma út í gróða og staðreyndin er sú að ljóðabækur seljast yfirleitt illa svo mér finnst það nú nærtækari skýring en sú að þau hafi lítið álit á forminu.

Ljóðabækur seljast illa og af því draga margir þá ályktun að ljóðið sé dautt. Það held ég að sé hin mesta firra. Ljóðabækur hafa ekki notið verulegra vinsælda síðan grammófónninn varð almenningseign en þeir sem lesa ekki ljóð syngja nú samt, svo þótt fáar ljóðabækur prýði metsölulista þá selst kveðskapur samt ágætlega í tengslum við tónlist. Ljóðið hefur líklega aldrei verið sérlega sterkt sem sjálfstæð listgrein. Ljóðið þarf tónlist, leikhús eða upplestur til að öðlast líf. Og það er ekkert einstakt fyrir ljóðið að þurfa stuðning annarra listgreina. Megnið af allri popptónlist styðst við texta og þó hvarflar það ekki að nokkrum manni að tónlistin sé dauð.

skaldinSé það rétt að útgefendur álíti að ljóðelskandi Íslendingar vilji ekki lesa kvæði undir hefðbundnum bragarháttum hljóta þeir að hafa endurskoðað þá afstöðu sína eftir að Bjarki Karlsson fékk Tómasinn. Hin bráðskemmtilega bók hans Árleysi alda var á metsölulistum í tíu vikur, hún hefur nú selst í mörg þúsund eintökum og höfðar jafnt til almúgans sem lærðustu fræðimanna. Ljóðið er nefnilega ekki dautt og allra síst þau kvæði sem styðjast við bragreglur. Þvert á móti brúar hið hefðbundna nútímaljóð bilið milli svokallaðrar „hámenningar“ og „lágmenningar“. Allir sem hafa gaman af ljóðlist ættu því að fá eitthvað við sitt hæfi á þessari ljóðadagskrá sem fer fram í Háskólabíó núna á laugardaginn og ber yfirskriftina Hin svokölluðu skáld. Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast þeim nýju straumum sem nú renna í gömlum farvegi og ég hvet alla ljóðaunnendur til að tryggja sér miða.

 

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics