Kennari sem segir (ekki í skólanum heldur annarsstaðar) að samkynhneigðir fari til Helvítis, getur sært nemendur sína og er því vanhæfur. Þessvegna er í lagi að brjóta gegn stjórnarskrárvörðu málfrelsi kennara sem hafa ranga skoðun á samkynhneigð.
Gott og vel. Gefum okkur að það sé rétt. En ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm þá merkir það líka eftirfarandi:
Kennari sem segir að fóstureyðing eigi að vera lögleg ef fyrirsjáanlegt er að barnið verði fatlað eða langveikt, á við að fatlaðir eigi ekki sama lífsrétt og aðrir og eðlilegt að túlka það sem hatursáróður gegn fötluðum.
Kennari sem segir að fóstureyðingalöggjöfin sé of frjálsleg og það sé ekkert ósanngjarnt við það að ungt fólk sem stundar óábyrgt kynlíf taki afleiðingunum er þar með að hvetja til ofsókna gegn ungum mæðrum.
Kennari sem segir að slæðunotkun múslimakvenna sé merki um kúgun og þessvegna séu Frakkar í fullum rétti með að banna slæður, er þar með að reka hatursáróður gegn múslimum.
Kennari sem segir að það sé brot gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna að banna slæðuna er að hvetja til kvennakúgunar.
Kennari sem segir að Ísraelsmenn séu í fullum rétti með að reisa aðskilnaðarmúrinn er um leið að hvetja til ofsókna gegn Palestínumönnum.
Kennari sem segir að landnámnsbyggðir Gyðinga í Palestínu séu ólöglegar og að því beri alþjóðasamfélaginu að leysa landnámsbyggðirnar upp og vísa landnemum aftur til síns heima, er þar með að reka hatursáróður gegn Gyðingum.
Kennari sem leggur til að Framsóknarflokkurinn verði lagður í eyði er þar með að ógna börnum framsóknarmanna og særa þau.
Í alvöru talað. Hvar vilja þeir draga mörkin sem telja réttlætanlegt að skerða tjáningarfrelsi þeirra sem hafa rangar skoðanir?