Miðvikudagur 16.04.2014 - 11:31 - FB ummæli ()

Sælir eru gleraugnalausir

Þegar ég var ung (og reyndar líka þegar ég var ekki lengur beinlínis ung) fannst mér gjörsamlega ömurleg tilhugsun að verða miðaldra. Nú er ég búin að vera miðaldra í nokkur ár og það er bara alls ekki eins slæmt og ég hélt. Reyndar töluvert skárra.

Ég hafði alltaf getað étið eins og hross í afmæli án þess að hlaupa í spik. Af og til þyngdist ég um 2 kg en þá dró ég úr sósuáti og skammtaði mér súkkulaði í nokkrar vikur og það bara virkaði. Ég hugsaði til þess með hryllingi að geta ekki lengur gúllað í mig 12 tommu pizzu og hálfum lítra af ís á eftir án þess að verða akfeit.  Í dag brenni ég álíka miklu og miðaldra kerling (af eðlilegum ástæðum) en mér til undrunar hef ég enga lyst á því lengur að borða eins og ég gerði. Ég þyngist ennþá lítillega af og til og þá grípur mig mikil angist, alveg eins og þegar ég var þrítug og tvítug og fimmtán ára. Það gerist ekkert nema ég hafi hreinlega staðið á beit og ég þarf ekkert harðara meinlætalíf en áður til að léttast.

Mér fannst tilhugsunin um að hrörna líkamlega alveg hræðileg. Og já, ég væri svo sannarlega til í að losna við hrukkurnar, ég er með nokkur hvít hár og nefið á mér er ekkert að minnka. En málið er að ég hef alltaf getað fundið eitthvað að útliti mínu og þótt ég geti kvalið sjálfa mig á því að horfa á hrukkurnar dýpka, þá líður mér ekkert verr en þegar ég var tvítug og gat látið eina bólu eyðileggja fyrir mér kvöldið og reiknaði með að allir nærstaddir hlytu að vera mjög uppteknir af því hvað ég hefði stórt nef. Ég fór í augnpokaaðgerð um fertugt en pokarnir eru komir aftur og ef fegrunaraðgerðir væru áhættulausar og ókeypis myndi ég áreiðanlega heimsækja lýtalækna reglulega. Á hinn bóginn var ég ekki nema þrítug þegar ég vildi fara í augnpokaaðgerð (og fékk þau svör frá lækninum að hann tæki ekki að sér að græða augnpoka á fólk) svo þótt útlit mitt hafi breyst þá er upplifun mín af líkama mínum nokkurn veginn eins.

Mér fannst líka vond tilhugsun að jafningjahópurinn myndi eldast. Mér þóttu miðaldra karlar með skalla og bringuhár fráhrindandi, líka þeir huggulegustu. Ég svaf hjá sætum strákum sem ég átti enga samleið með, bara af því að ég taldi sýnt að ég yrði dæmd til skírlífis eftir fertugt, því þá yrði ég sjálf svo feit, hrukkótt, gráhærð og röflandi að enginn myndi líta við mér nema miðaldra karlar sem ég hefði engan áhuga á.  En furðulegt nokk þá breyttist smekkur minn smám saman. Í dag er ég með manni sem er 12 árum eldri en ég og mér finnst það bara æðislegt.

Ég naut þess að vera mamma drengjanna minna og hugsaði sem svo að maður gæti ekki átt eðlilegt heimilislíf án barna. Á hinn bóginn langaði mig ekki að standa í veseninu og ábyrgðinni sem fylgir ungbörnum svo frekari barneignir voru ekki á óskalistanum nema ef ég hefði getað pantað eitt eða tvö 10 ára börn, heilbrigð og laus við hegðunarvandamál. Ég hélt að valið stæði um það að verða einmana, miðaldra kerling sem enginn hefði þörf fyrir, eða örþreytt, miðaldra, illa sofin kerling með smábarn í eftirdragi. Í dag finnst mér frábært að eiga uppkomin börn. Ég vona að ég eignist einhverntíma barnabörn en mig langar ekkert að hafa barn á heimilinu til langs tíma. Mér finnst bara fínt að enginn sé mér háður og nýt þess að geta setið við lyklaborðið án truflunar og eiga ekki von á því að einhver skilji ostinn eftir óvarinn á eldhússborðinu eða taki upp á því að rækta ánamaðka í makkintosboxi undir rúminu sínu.

Ég hélt að miðaldra fólk væri dæmt til andlegrar stöðnunar og að þau gamalmenni sem ekki væru full af fordómum hefðu fengið óvenjulega víðsýni í vöggugjöf. Í dag sé ég ekki að heimsósómaraus, fordómar og heimska aukist með aldrinum. Ég er heldur upplýstari og sjálfstæðari í hugsun í dag en ég var fyrir 20 árum og stendur auk þess ennþá meira á sama um álit annarra.

Ef ég gæti fyrirhafnarlaust litið út eins og þegar ég var 25 ára myndi ég segja já takk. En mig langar ekki í þann hugarheim, tilfinningalíf og veraldlegu aðstöðu sem var í á þeim tíma. Það eina sem angrar mig, sem angraði mig ekki hvort sem var á meðan ég brenndi 2500 hitaeiningum og hafði engar hrukkur, er það að ég þarf annaðhvort að halda bókinni armslengd frá mér eða nota gleraugu til þess að geta lesið. Sem segir mér líka að kannski sé stórhættulegt að líta í spegil með gleraugu á nefinu. Ég gæti séð allan þann hrylling sem ég óttaðist á meðan ég þurfti ekkert á gleraugum að halda.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics