Virðing Alþingis er ekki undir því komin hversu gæfulegar samþykktir þess eru, heldur skiptir meginmáli að þingmenn gæti þess að klæðast ekki lopapeysu eða gallabuxum og muni eftir ávarpsorðunum „háttvirtur þingmaður“ og „hæstvirtur ráðherra“ þegar þeir hreyta fúkyrðum í samstarfsfólk sitt.
Það er svosem ekki fallegt að segja félögum sínum að halda sér saman þótt stundum sé ástæða til. En Vigdís er náttúrulega gasprari og Steingrímur leyfir sér að segja það sem aðrir láta sér nægja að hugsa, tilmæli Steingríms um að háttvirtur þingmaður hætti að gjamma fram í fyrir honum ættu því ekki að koma neinum á óvart.
Sá sem helst ætti að skammast sín í þessu máli er forseti Alþingis. Fundastjóri sem andskotast á bjöllunni ef þingmenn virða ekki formreglur en lætur hinsvegar frammíköll viðgangast getur búist við því að fyrr eða síðar taki einhver að sér það verkefni hans að þagga niður í þingmönnum sem trufla þann sem hefur orðið, hvort sem það er með frammíköllum, glósum um geðslag „kennarans“ eða öðrum unglingastælum háttvirts þingmanns.