(Þessi pistill birtist á Kvennablaðinu í desember 2014)
Ég er einn af þessum hálfvitum í umferðinni. Stundum held ég að ég hljóti að vera eini hálfvitinn í umferðinni – allavega hef ég aldrei hitt bílstjóra sem telur sig ekki sérstaklega öruggan og ábyrgan. Ég sannfærist þó um það, í hvert sinn sem ég sit sem farþegi í bíl með sérdeilis umferðargreindum bílstjóra, að hálfvitarnir séu að minnsta kosti tíu, auk mín. Ég sker mig þó úr að því leyti að ég er enginn venjulegur hálfviti heldur birtist umferðarheimska mín á mörgum sviðum.
Ég er í fyrsta lagi haldin sértækri rúmskynjunarröskun. Ég er ekki viss um hvort rúmskynjunarröskun er til sem fræðihugtak en hún er mjög raunverulegt ástand og lýsir sér þannig að ég fer til hægri þegar ég ætla til vinstri. Og öfugt. Þannig enda ég iðulega á Selfossi þegar ég ætla til Hafnarfjarðar. Nema mér hafi verið sagt að fara í suður, þá enda ég annaðhvort á Akranesi eða Kópaskeri. Enda er ég steinhætt að reyna að fara til Hafnarfjarðar. Það er bara ekki nógu gaman á Kópaskeri til að maður vilji stoppa þar oft á leiðinni í Hafnarfjörðinn af Miklubrautinni.
Í öðru lagi er ég haldin náttblindu og snjóblindu. Helstu einkenni þeirrar fötlunar eru þau að þegar dimmt er og snjór á götunum, þá sér umferðarhálfvitinn ekki línurnar sem skilja akreinarnar að og ástandið versnar til muna í skafrenningi. Mér skilst að þetta sé sjaldgæfur kvilli en líklega eitthvað skylt lesblindu. Reyndar gæti ég, sem sérlegur nýtingarfasisti, fært rök fyrir því að rétt sé og siðsamlegt að nýta allan veginn, en það ku víst vera andstætt einhverjum lagaákvæðum.
Ennfremur bý ég við aðstæðubundna angistarröskun, sem lýsir sér þannig að ég verð gripin mikilli skelfingu þegar stórir karlar á stórum jeppum skjótast fram úr mér til þess að verða á undan að rauða ljósinu. Ég stari á logandi, blóðrauð bremsuljósin hálfum metra fyrir framan stuðarann, sýp hveljur, gríp svo þétt um stýrið að hnúarnir hvítna og bít svo fast á jaxlinn að tannfyllingarnar þrýstast upp undir gagnauga. Skelfingin breytist þó fljótlega í almennt hugarvíl þegar ég átta mig á því að ég er – með umferðarheimsku minni, vingulshætti og ofurvarkárni – að tefja viti borna bílstjóra í því að komast að rauða ljósinu og ber því persónulega ábyrgð á almennri umferðargremju. Ég segi ekki að ég heyri raddir en ég VEIT samt að þeir eru allir að tala um hálfvitana í umferðinni. Mig semsagt. Eins gott að þeir segja það ekki svo ég heyri. Er annars ekki bannað að segja eitthvað svona ljótt sem særir tilfinningar minnihlutahóps eða getur allavega sært þær?
Aukinheldur einkennist aksturslag mitt af krónískum klaufaskap. Á mannamáli er það kallað að „keyra eins og keddling“. Eitt einkennanna er sérstakur hæfileiki til að festa bíla í snjósköflum. Enda þótt sé bara einn snjóskafl á höfuðborgarsvæðinu tekst mér að festa bílinn.
Í dag er til dæmis bara einn skafl í Reykjavík og nágrenni. Hann nær frá Seltjarnarnesi og að borgarmörkunum við Mosfellsbæ en þar tekur við annar skafl sem mér skilst að endi á Höfn í Hornafirði. Maður skyldi þó ekki vanþakka þau dýrmætu tækifæri sem íslenskt veðurfar gefur manni til þess að þroska þolinmæði sína enda hef ég eytt ómældum tíma spólandi í snjósköflum og er orðin afar vitur og þroskuð kona fyrir vikið. Í andlegum skilningi sko – ég er ennþá vangefin í umferðinni.
Þótt umferðarhálfvitar á Íslandi séu ekki nógu margir til þess að líkur séu til, að á meðal-mannsævi hitti maður nokkurn þeirra í eigin persónu, eru þessir fáu engu að síður stórt vandamál á Íslandi. Að vísu er óvíst hvort yfirdrifin aðgæsla og almennur klaufaskapur veldur beinlínis mörgum slysum en hættan sem fylgir umferðargremju (sem hálfvitarnir valda hinum öruggu) er allnokkur og líklegt má telja að lýðheilsuáhrif séu feiknarlega neikvæð.
Nú kann einhver að segja að lausnin blasi við – umferðarhálfvitar eigi einfaldlega að sleppa því að aka. Og jújú, það hljómar nokkuð vel en er barasta álíka raunhæft markmið og að uppræta framsóknarmennsku. Ég meina í alvöru – hálfvitar hafa alltaf þvælst fyrir umferðinni, alveg eins og framsóknarmenn fyrir pólitíkinni. Við MUNUM aka áfram.
Mun raunhæfari lausn er að umferðarheimska verði skilgreind sem fötlun – eða að minnsta kosti einhverskonar röskun, og umferðarhálfvitum fengin ýmis sérúrræði á grundvelli greiningarinnar. Bíla í eigu umferðarhálfvita mætti auðkenna með blikkljósum og ófötluðum bílstjórum gert að víkja fyrir þeim. Fólk með rúmskynjunarröskun fengi leyfi til að aka á móti umferð og leggja bílum á umferðareyjum. Keddlingar yrðu rækilega skilgreindar í lögum og þeim gefið formlegt leyfi til að aka samkvæmt kerlingarlegu eðli sínu.
Þeir sem kljást við aðstæðubundna angistarröskun gætu fengið undanþágu til að staupa sig undir stýri. Ekkert að drekka sig pöddufulla, bara svona aðeins að róa taugarnar og auka áræðni, svo við sem erum haldin kjánalegum ótta um að lenda í slysi þar sem einhver deyr eða lamast fyrir neðan augnbrúnir, séum ekki alltaf að sniglast fyrir ykkur hinum sem akið af festu og öryggi.
Væri þetta ekki bara fín lausn? Að vísu þyrfti hinn öruggi meirihluti sem veldur ekki slysunum nema á pappírum að taka tillit til hálfvitanna sem valda öllum þessum töfum og leiðindum í umferðinni, en við þvælumst fyrir hvort sem er. Þegar allt kemur til alls getum við ekki verið svo mörg sem eigum við umferðarraskanir að stríða enda er stór meirihluti bílstjóra að eigin sögn mun öruggari og betri bílstjórar en meðalmaður