Fimmtudagur 06.12.2012 - 23:43 - FB ummæli ()

Trúboð í skólum er ekkert skaðlegt

Hvernig getur það skaðað börn þótt prestar heimsæki skólann, tali um kærleika og miskunnsemi og kenni börnunum að spenna greipar? Hafa þau eitthvað illt af því að læra að syngja Jesús er besti vinur barnanna? Ef þetta flokkast sem trúboð, hvernig stendur þá á því að mörg þessara barna verða samt trúleysingjar?

Svarið er: Börn hafa ekkert illt af því að fá prest í heimsókn eða fara í kirkju og ef þau eiga meðvitaða foreldra og alast upp í gagnrýnu samfélagi að öðru leyti, þá eru litlar líkur á að samstarf kirkju og skóla hafi þau áhrif að börnin vaxi upp sem trúarnöttarar.

Nú? Og er þá ekki allt í lagi að halda trúboðinu áfram?
Nei, það er ekki í lagi.

Börn hafa ekkert illt af því að heyra fallegar sögur af Jesússi og læra umbuðarlyndi og kærleika. Þau hefðu heldur ekkert illt af því að heyra skoðanir Vantrúarmanna á Jesússi eða heyra boðskap anarkista um yfirvaldslaust samfélag. Sennilega hefðu þau gott af því.

Þar með hlýtur að vera alveg sjálfsagt að Vantrúarmenn gangi í skólana og útskýri fyrir börnunum hvernig heimurinn yrði betri og kærleiksríkari ef fólk hætti mylja undir stofnanir sem berjast gegn mannréttindum minnihlutahópa. Þeir gætu líka gefið þeim bók Richard’s Dawkins The GOD Delusion og ef eitthvert þeirra myndi nenna að lesa hana þá yrði það allavega til þess að viðkomandi pottormur bætti við orðaforða sinn í ensku. Allavega myndi það ekki skaða neinn.

Þar með væri líka bara gott mál að anarkistakórinn heimsæki alla leikskóla á landinu nú fyrir jólin, kenndi börnunum slagorð á borð við yfirvald er ofbeldi! og syngi með þeim kók er kúkur kapítalsins og fleiri pólitíska jólasöngva. Börnin hefðu bara gaman af því og ekki trúi ég að nokkrum foreldrum þætti verra ef börnin færu að líta kókdrykkju gagnrýnum augum.

Nú viljið þið ekki fá okkur í skólana? Í alvöru? Haldið þið að börnin ykkar verði þá anarkistar? Eða að þau hætti í skóla til að útbreiða boðskap Vantrúarmanna?

Nei ég hélt ekki. Það eru allt aðrar ástæður fyrir því að þið viljið ekki hleypa stjórnmálaöflum og grasrótarhreyfingum inn í skólana. Af sömu ástæðum kærum við hin okkur ekki um að kirkjan komi að skólastarfi. Ekki heldur fyrir jólin.

Nú skilst mér að mörgum finnist hið erfiðasta mál að greina á milli fræða og trúboðs. Er það t.d. trúboð ef skólakórinn syngur jólasálm á litlu jólunum?

Í flestum tilvikum er einfalt að meta þetta, með því að setja pólitík í stað trúar. Ef skólinn ætlaði að halda hátíðadagskrá þann 1. maí, hvernig yrði staðið að því? Væri hann að boða kommúnisma ef skólakórinn syngi Maístjörnuna? Varla held ég að margir tækju undir það. Hinsvegar er ég nokkuð viss um að ef Steingrímur J. Sigfússon yrði fenginn til að heimsækja skólana og útskýra valda kafla úr Rauða kverinu, yrði mörgum heitt í hamsi.

Það er ekkert svo erfitt að greina á milli fræðslu og trúboðs. Þarf bara að hugsa pínulítið. Og halda í heiðri meginregluna; ef þú ert ekki viss um að þú megir það, láttu það þá bara eiga sig. Það er allavega ágæt leið til að forðast vesen.

 

Þennan pistil skrifaði ég reyndar fyrir tveimur árum en hann á alveg jafn vel við núna. Um það sannfærðist ég þegar ég sá umræðuhalann við þessa umfjöllun DV.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics