Endurbirt með leiðréttingum kl.17.15
———-
Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að það sé ekki kynferðisbrot að vaða með fingur inn í leggöng og endaþarm þolandans? Ég skildi það ekki – þessvegna las ég dóminn.
Dómur hæstaréttar í máli nr 521/2012 er mikil lesning, ríflega 120 blaðsíður og vekur satt að segja fleiri spurningar en hann svarar. Í þetta sinn er það þessi spurning um forsendur sem mig langar að ræða.
Þegar ég birti þennan pistil fyrr í dag taldi ég víst að vandamálið sem hæstiréttur stóð frammi fyrir hefði verið það að ekki sé leyfilegt að dæma þennan verknað á grundvelli tveggja lagagreina. Hefði sá hluti árásarinnar sem ég hefði kallað kynferðisbrot, verið dæmdur sem nauðgun, hefði það tæmt sök um líkamsárás fyrir þennan tiltekna verkað og öfugt. Mér var fljótlega bent á að þetta væri misskilningur hjá mér. Ekkert sé því til fyrirstöðu að nota 1. mgr. 194. greinar og 2. mgr. 218. greinar samhliða.
Dómara greinir ekki á um það að umrætt atvik hafi átt sér stað og að það hafi verið meiðandi og lítilsvirðandi. Þá greinir hinsvegar á um hvort eigi að kalla það „kynferðismök“ eða „líkamsmeiðingar“. Öfugt við það sem ég taldi er hægt að beita báðum ákvæðum og sú spurning á því fullan rétt á sér hversvegna báðum ákvæðum var ekki beitt. Eftir sem áður langar mig þó að varpa fram spurningum um það hvort, og þá hversvegna, kynferðisofbeldi sé álitið verra en líkamsmeiðingar.
Árásin
Í dómnum er lýst hrottalegri líkamsárás. Vopnað og grímuklætt fólk réðst inn á heimili að nóttu til, ógnaði konu og meiddi hana. Hún varð fyrir niðurlægjandi ummælum, hún var hárreytt, barin og tekin kverkataki svo hún missti meðvitund hvað eftir annað. Hún varð fyrir spörkum með stáltá, skorið var í fingur hennar og fingurnögl rifin upp, henni var hótað aflimun og hnífi haldið við háls hennar. Að lokum var hún skilin eftir hálfrænulaus og útidyrum læst. Ef hún hefði verið ófær um að opna fyrir félaga sínum sem bar þar að skömmu síðar, hefði hann líklega haldið að enginn væri innan dyra og útilokað er að segja til um hvenær henni hefði þá borist hjálp.
Læknar staðfesta skallabletti á höfði og áverka víða um líkamann. Konan tognaði á þremur stöðum á baki, það blæddi inn á forhólf auga með þeim afleiðingum að hún var með blindublett um tíma og hún fékk heilahristing.
Fyrir utan fingurskurðinn hefur ekkert af ofangreindu fengið mikið vægi í samfélagsumræðunni. Hinsvegar finnst varla það mannsbarn sem ekki er með það á hreinu að hún varð einnig fyrir því að maður setti fingur í leggöng hennar og endaþarm og kleip í spöngina og umræða síðustu daga hefur öll snúist um það hvað hæstiréttur sé skeytingarlaus gagnvart kynferðisbrotum.
Niðurstaða dómsins
Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn var hér um að ræða afar illyrmislega líkamsárás sem fellur undir 2. mgr. 218. gr. laganna, bæði þegar litið er til aðferðar og afleiðinga árásarinnar.
Rétt er að taka fram að 1. mgr. 194. greinar á við um þvingað samræði eða önnur kynferðismök en 2. mgr. 218. greinar á við um lífshættulega líkamsárás. (Sjá nánar hér.)
Því verður ekki með nokkurri sanngirni haldið fram að hæstiréttur viðurkenni ekki alvarleika brotsins. Viðurkennt er að árásin hafi verið hrottafengin og árásarmennirnir eigi sér engar málsbætur. Einnig er viðurkennt að maður hafi sett fingur í leggöng og endaþarm konunnar. Nógu mörg vafaatriði eru um það atvik til þess að dómurum hefði verið í lófa lagið að sýkna af þeim þætti árásarinnar ef áhugi hefði verið fyrir því. Dómarar viðurkenna hinsvegar að þetta atvik hafi átt sér stað þótt þá greini á um hvort þar hafi verið brotið gegn lagagrein 194 eða 218. (Í ljósi þess sem mér hefur verið bent á að vel komi til greina að beita þessum greinum samhliða má svo spyrja hversvegna það var ekki gert.)
Í fyrstu hélt ég að hin mikla reiði sem braust út stafaði af því að fólk teldi víst að það hefði þyngt dóminn ef dæmt hefði verið á grundvelli 194. greinar. Ekkert bendir þó til þess því dómar yfir þremur sakborningum af fjórum eru þyngdir frá dómi héraðsdóms sem dæmdi málið að hluta sem kynferðisbrot. Í einu tilviki var refsing þyngd um heila 18 mánuði eða úr tveimur og hálfu ári í fjögur. Það er því fráleitt að líta svo á að hæstiréttur sé sáttur við þessa háttsemi.
Eru kynferðisbrot alvarlegri en líkamsmeiðingar?
Í umsögn sálfræðings þolanda segir að hún hafi þróað með sér áfallastreituröskun. Brotaþoli varð fyrir annarri hrottafenginni árás viku eftir þá sem þessi dómur snýst um. Henni var hent út úr bíl fyrir utan slysadeild Landspítalans og skilin eftir meðvitundarlítil á bílaplaninu. Hún rankaði við sér á sjúkrastofu við nánast sömu aðstæður og eftir fyrri árásina. Það mál er ennþá óupplýst.
Það kemur ekki á óvart að tvær hrottalegar líkamsárásir hafi alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlíf manneskju en athygli vekur að í umsögn sálfræðingins segir:
Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að A þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots.
Hér er gengið út frá því að einn tiltekinn þáttur árásarinnar valdi áfallastreituröskun. Það er út af fyrir sig ótrúlegt að hægt sé að segja til um það með vissu að einn tiltekinn þáttur sé hin eina, sanna orsök en þessi ummæli benda til þess að brotaþoli og/eða sálfræðingur hennar telji mikilvægt að brotið sé metið á forsendu 194. greinar.
Í þessari greiningu sálfræðingsins sem og í samfélagsumræðunni um hæstaréttardóm nr. 521/2012 endurspeglast sú hugmynd að kynferðisbrot séu í eðli sínu alvarlegri en aðrar líkamsárásir. Menn horfa ekki til þess að dómurinn hafi verið þyngdur heldur til þess að brotið hafi verið dæmt sem líkamsárás en ekki kynferðisbrot.
Hvernig stendur á þessari áherslu? Af hverju skiptir meira máli að brot sé viðurkennt sem nauðgun en að dómur á grundvelli lífshættulegrar líkamsárásar sé þyngdur?
Einu svörin sem ég hef fengið við því hingað til eru þau að það sé bara eitthvað að þeim sem sjái ekki hvað kynferðisbrot séu miklu alvarlegri en aðrar líkamsárásir og að kynferðisbrot séu niðurlægjandi og valdi andlegum áverkum. Þessi rök ganga ekki upp. Það er rétt að kynferðisbrot eru til þess fallin að niðurlægja og skaða fólk andlega en það eru líkamsmeiðingar líka. Ekki eru öll kynferðisbrot lífshættuleg en sérstaklega hættuleg líkamsrás eins og 218. grein snýst um, er það hinsvegar.
Áhugavert væri að fá betri skýringar hæstaréttar á því hversvegna brotið var ekki metið sem kynferðisbrot fyrst lögin bjóða upp á það. Á meðan við bíðum eftir skýringum hæstaréttar langar mig til að heyra frá þeim sem geta gefið mér skýringar á því hversvegna kynferðisofbeldi er talið vera í eðli sínu alvarlegra en högg, spörk, hárreytingar, hálstak, hótanir um aflimun og árás með eggvopni. Betri skýringar en þær að það sé bara augljóst.