Ég gerði ákveðin mistök þegar ég birti síðustu færslu. Ég hefði átt að afmá persónukenni í skjáskotinu (og er búin að því núna). Það er nefnilega alveg rétt sem Harpa Hreinsdóttir bendir á í þessari grein, aðgerðir af þessu tagi geta kynt undir persónulegum ofsóknum. Það var vitanlega ekki hugmyndin hjá mér að ofsækja þennan mann, heldur að neita að hlýða skilmálum fb, þegar reglum er framfylgt reglnanna vegna. Ég fékk svo aukinheldur staðfest að maðurinn hefði beðið Hildi persónulega afsökunar, sem vitanlega skiptir miklu máli.
Dæmin um að fólki sé nuddað endalaust upp úr gömlum mistökum eru nógu mörg og gróf til þess að ég hefði átt að hugsa út í það áður en ég ýtti á enter að kannski væri ég að kalla óþarfa hörku yfir mann sem hugsanlega er bara meinlaus vitleysingur. Af nógu er að taka. Jafn ólíkt fólk og Sóley Tómasdóttir og Egill Einarsson (Gillz) eiga það t.d. sameiginlegt að fá bara hreinlega ekki fyrirgefningu fyrir orð sem féllu fyrir mörgum árum. Feminstar nudda Agli ennþá upp úr margra ára gömlum bloggfærslum sem hann baðst þó opinberlega afsökunar á. Askasleikir Sóleyjar Myndin af Askasleiki sem Sóley birti á blogginu sínu og eldgömul ummæli um að það hefði komið henni á óvart að það væri ekki hræðilegt að ala upp dreng, eru ennþá dregin fram í umræðunni. Hvorttveggja er óþarft.
Ég get hinsvegar ekki tekið undir þá skoðun Hörpu og fleira ágæts fólks að Hildur ætti bara að passa sig á að því að virða skilmála facebook. Fólk ber ábyrgð á ummælum sínum og það alvarlega í þessu máli er ekki það að Hildur hafi brotið notendaskilmála facebook, heldur það að reglum sem er ætlað að vernda höfundarrétt og einkalíf, skuli vera beitt þegar hatursfull skilaboð eru afhjúpuð. Mér finnst nokkuð langt gengið að tala um einelti gagnvart manni sem hegðar sér á þennan hátt. Í kjölfarið fékk maðurinn hennar Hildar svo símtal með hótun um að eyðileggja bílinn þeirra. Bíllinn er að vísu ekki til en það er samt eðlilegt að fólki bregði við slíkt og það er eðlilegt að bregðast við því.
Notendaskilmálum facebook er ætlað að vernda höfundarrétt og friðhelgi einkalífsins. Þeir eru væntanlega ekki hugsaðir til þess að opna farveg fyrir pólitískar ofsóknir. Sennilega er hægt að finna einhver brot á skilmálum hjá flestum þeirra sem nota facebook oft í viku, og ef nógu margir taka sig saman um að kvarta undan tilteknum einstaklingi, er kreddufesta gagnvart notendaskilmálum stórhættuleg. Það er eðlileg krafa að fólki sé gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en aðgengi þess er skert. Það er sérstaklega ósanngjarnt að hægt sé að úthýsa einstaklingum fyrir að birta skjáskot í ljósi þess að síðum sem er beint gegn tilteknum minnihlutahópum hefur ekki verið lokað þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Stjórnendur facebook virðast þannig bera meiri virðingu fyrir birtingarréttinum en sínum eigin reglum um hatursboðskap. Ég tek fram að ég styð ekki tillögur um lokun facebooksíðna eða annarra netsíðna nema þeim sé beint gegn einstaklingum.
Annað sem hefur vakið athygli mína í dag er að sjá þá djúpu virðingu sem ríkir fyrir rétti stórfyrirtækja á borð við facebook til að setja tjáningarfrelsinu skorður. Margt bendir til þess að facebook og fleiri stór fyrirtæki beiti valdi sínu í pólitískum tilgangi. En það er efni í annan pistil sem ég reikna með að skrifa á næstu dögum.