____________________________________________________________________________________
Þótt ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins hafi enn ekki verið mynduð er Framsóknarflokkurinn samt strax búinn að afreka það að svíkja eitt mikilvægasta kosningaloforð sitt, loforð sem vafalítið skýrir drjúgan hluta af skyndilegri fylgisaukningu flokksins. Þetta kosningaloforð má sjá í stefnuskrá Framsóknarflokksins en þar er eitt markmiðanna að:
– ná sem víðtækastri sá um stjórn fiskveiða.
Blönduð leið verði farin, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar við úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum. Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu, sanngjörnu veiðigjaldi sem tengt verði afkomu greinarinnar.
Skyndileg stefnubreyting Framsóknarflokksins virðist reyndar ekki koma neinum á óvart, andstæðingar flokksins spáðu þessum svikum og kjósendur þegja þunnu hljóði, kannski sjálfum sér sárreiðastir fyrir að hafa bitið á agnið. „Hornsteinn samfélagsins“ sem samkvæmt fyrri yfirlýsingum Framsóknarflokksins eru heimilin, virðist lítið eða ekkert hafa komið til umræðu á hveitibrauðsdögunum austur í Biskupstungum en ekki heyrist heldur múkk frá kjósendum flokksins vegna þess. Og Sigmundur Davíð velur ekki frumlega leið til þess að réttlæta svikin; skýrining er auðvitað sú að útlitið sé verra en „haldið var fram.“
Bíddu nú við Sigmundur Davíð; hver hélt hverju fram? Ríkisbókhaldið var ekkert leyndarmál. Enginn hélt neinu fram sem ekki var hægt að fletta upp og skoða með eigin augum. Ekkert nýtt hefur komið fram sem bendir til þess að gögnum hafi verið leynt eða að staðan sé neitt verri en „haldið var fram“ og ég hef ekki séð eitt einasta dæmi um að fráfarandi ríkisstjórn hafi gefið upplýsingar sem ekki standast skoðun. Þú getur kannski bent á eitthvert dæmi? Já, stattu bara fyrir máli þínu drengur og segðu svo „fyrirgefðu“ og segðu það fallega.
Eins og ég benti á í færslu gærdagsins hefðu sætabrauðsdrengirnir kannski átt að kynna sér hvað þeir voru að fara út í áður en Bjarni lofaði skattalækkunum og Sigmundur skuldalækkunum. Það eru léleg vinnubrögð og reyndar hrein og klár svik við kjósendur að lofa gulli og grænum skógum og segja svo eftir kosningar „já en þið verðið að fyrirgefa okkur því við vissum ekki hvað við vorum að gera.“
Sorrý Sigmundur Davíð en þeir sem vita ekki hvað þeir eru að gera ættu kannski að stefna á ábyrgðarminna starf en embætti forsætisráðherra. Og þó, ég veit satt að segja ekki um neitt starf þar sem er í lagi að lofa einhverju án þess að vita hvort nokkrar forsendur eru til að efna það. Hvað þá ef viljinn er ekki fyrir hendi.
Og sorrý kjósendur Framsóknarflokksins en fáir ykkar hafa sér það til afsökunar að hafa ekki vitað hvað þið voruð að gera. Þótt stefnuskráin lofi því að útgerðarmenn skuli borga sanngjarnt verð fyrir aflaheimildir og verðtryggingin afnumin, á Framsóknarflokkurinn sér langa sögu óraunhæfra loforða sem óðar eru svikin, auk þess að hafa einatt gengið erinda auðvaldsins.
____________________________________________________________________________________