Fimmtudagur 16.05.2013 - 11:51 - FB ummæli ()

Spurning Jónasar Kristjánssonar

Jónas Kristjánsson spyr hvort Sigmundur Davíð sé bófi eða bjáni.  Samkvæmt hugmynd Carlo M. Cipolla um bjánaskapinn fer þetta tvennt gjarnan saman. Ritgerð Cipolla heitir í enskri þýðingu „The Basic Law of Human Stupidity„. Með orðinu „stupidity“ á hann ekki við heimsku í merkingunni lág greindarvísitala heldur það sem ég kalla bjánaskap; tilhneigingu til að taka ákvarðanir sem eru bæði órökréttar og hafa fyrirsjáanlega í för með sér meiri skaða en ávinning.

 

Manngerðir Ciopolla

Cipolla telur upp fjórar megin manngerðir:

Cat-And-Mouse1Sá aumkunarverði (í ensku þýðingunni sem ég vísa til hér að ofan er notað orðið „helpless“ en á ítölsku er það „disgraziati“) gagnast samfélaginu en hann fær ekki það sem hann verðskuldar í staðinn. Cipolla á ekki við að greiðvikið og örlátt fólk sé aumkunarvert né heldur á hann við að raunveruleg fórnarlömb, í þessu samhengi, séu ekki til. Hann er að tala um þá sem láta aðra komast upp með að misnota sig þótt þeir gætu komist hjá því. Þann sem stendur ekki á rétti sínum, þann sem leggur meira af mörkum en hann raunverulega er fús til og verður ítrekað fyrir vonbrigðum þótt væntingar hans séu mjög sanngjarnar.

Cats_Helping_Eachother_to_get_the_FishSnillingurinn tekur ákvarðanir sem bæði hann sjálfur og samferðarmenn hans hagnast á. Á endanum græðir samfélagið allt.

 

kitten-with-yarnBófinn eða skúrkurinn hagnast á því að skaða aðra. Snjall bófi, sem er sjaldgæft fyrirbæri, veldur minni skaða en hans eigin ávinningur er. Flestir bófar eru hinsvegar líklegir til að hagnast lítið en valda öðrum miklum skaða. Þannig myndi Cipolla telja það bæði bjánaskap og bófahegðun að brjóta rúðu til þess að stela 2000 kalli því skaðinn fyrir þolandann væri meiri en hagnaður bófans.  Snjall bófi nýtur góðs af öðrum án þess að valda aukatjóni. Ég myndi t.d. samkvæmt þessu kerfi flokka þann snjallan bófa sem sækir sér tónlist af netinu án þess að borga fyrir hana.

cat-washing-machine-600Bjáninn er að mati Cipolla hættulegasta manngerðin því bjáninn afrekar í senn að skaða aðra, jafnvel samfélagið allt, og sjálfan sig í leiðinni. Bjáninn getur sýnt af sér bófahegðun en hann veldur ekki bara fórnarlambi sínu tjóni heldur kemur hann líka upp um sig og getur t.d. lent í fangelsi.  Bjáninn getur líka verið aumkunarverður. Bjáni með fórnarlund gæti t.d. gegn vilja sínum tekið að sér verkefni sem hann ræður ekki við, eyðilagt vinnuvél og slasað sig á henni í leiðinni.

 

Aftur að spurningu Jónasar

Ef við reynum að svara spurningu Jónasar um Sigmund Davíð út frá hugmyndum Cipolla, kemur þrennt til greina, snillingurinn, bófinn eða bjáninn. Sigmundur Davíð og hans flokkur kom vel út úr kosningum og það er mjög ótrúlegt að samfélagið muni hagnast á þingsetu hans án þess að það komi honum sjálfum til góða. Það þarf því eitthvað mjög óvænt að koma fram til þess að hann falli í flokk þeirra aumkunarverðu.

563367_469005436497943_1577077657_nEf Framsóknarflokknum tekst að standa við mikilvægustu kosningaloforð sín er Sigmundur Davíð snillingur samkvæmt greiningu Cipolla. Ef stóru kosningaloforðin verða svikin og afleiðingarnar verða þær að Framsóknarflokkurinn missi stóran hluta fylgis síns og Sigmundur glati vinsældum sínum, þá er hann (skv Cipolla) bjáni. Ef honum tekst bæði að halda vinsældum og svíkja kosningaloforð út á þá hugmynd að hann hafi ekki vitað hvað var að gera þegar hann kynnti loforðalistann er hann bófi. M.a.s. mjög snjall bófi.

Komi á daginn að Sigmundur Davíð sé ekki hreinræktaður snillingur er hinsvegar ljóst að samkvæmt greiningu Cipolla eru kjósendur Framsóknarflokksins bjánar. Margir þeirra aumkunarverðir bjánar. Því ef Sigmundur Davíð er ekki snillingur þá mun samfélagið allt bera skaða af ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins.

Við skulum vona að Sigmundur Davíð sé snillingur. Þá gætum við með nokkurri sanngirni dregið í efa hið fyrsta lögmál Cipolla um bjánaskapinn; fjöldi bjána í umferð verður aldrei ofmetinn.

____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics