Sú ákvörðun að birta pistla á Eyjunni hefur vafist fyrir mér. Að sumu leyti af því að mér þykir vænt um lénin mín. Að sumu leyti af því að ég er ekki hrifin af útliti Eyjunnar og finnst dálítið kvíðvænlegt að geta ekki stjórnað útlitinu á mínu svæði sjálf. Auk þess er ég ofboðslegur tækniklaufi en það stoppar mig ekkert í því að prófa eitthvað sem ég kann ekki á, svo ég sá fyrir mér endalaust vesen ef ég gæti ekki kvabbað í mínum eigin sérlegu aðstoðarmönnum til að laga til eftir mig þegar ég er búin að klúðra einhverju.
Ég lenti strax í smávegis tækilegum vandræðum þegar ég fór fyrst inn á vefsvæðið. Varð auk þess frekar pirruð þegar ég sá að lokað er fyrir möguleikann á að setja inn viðbætur. Ég hafði samband við umsjónarmann vefsins, Birgi Erlendsson og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Það var síðla kvölds og ég átti alls ekki von á svari fyrr en í fyrsta lagi næsta dag en viðbrögðin komu ánægjulega á óvart. Viðbótin var sett inn strax, öllum spurningum svarað vel og skilmerkilega og öll vandamál leyst í hvelli.
Ég er hæstánægð með þessa þjónustu; eða eins og netverjar segja „læk!“