Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa?
Á sama tíma og efahyggjufólk berst fyrir því að koma trúboði þjóðkirkjunnar út úr barna-skólum, berjast feministar fyrir því að koma sínu trúboði inn í skólana undir merkjum jafnréttisfræðslu. Og hverjir eru þessir feministar? Því er svarað á vefsíðu Femínstafélags Íslands:
Femínisti er kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því.
Þessi skilgreining er ágætt dæmi um það hvernig kennivaldið leggur út af grundvallarhugmynd sem góð sátt ríkir um. Kirkjan byggir sitt kennivald á „kristnum gildum“, feministahreyfingin ætlar að reisa sitt kennivald á jafnréttishugsjóninni.
Kennivald er byggt á viðteknum hugmyndum
Sú manneskja er vandfundin sem hvergi sér merki þess að fólki sé mismunað á grundvelli kynferðis og að kynferði geti verið hindrun í vegi bæði karla og kvenna. „Jafnréttisfræðsla“ hljómar því vel í eyrum þess sem heldur að eitthvað sé að marka skilgreiningu feministafélagsins. Grandalausir foreldar telja jafnréttisfræðslu merkja að börnin verði vakin til umhugsunar um það hversvegna verk kvenna séu oft vanmetin og hversvegna karlar eigi frekar á hættu að vera sviptir samvistum við börnin sín. En feminismi er annað og meira en jafnréttisstefna, allavega sá kynungur hans sem veður uppi á Íslandi í dag. Ég hef lagt til eftirfarandi skilgreiningu:
Feminismi er trúarhreyfing fólks sem álítur að konur séu alltaf og í öllum aðstæðum fórnarlömb, sem eigi að njóta forréttinda út á það að konur fyrri tíma hafi verið fórnarlömb. Hver sá sem ekki er sammála því er fulltrúi feðraveldisins og sennilega kynferðislega brenglaður.
Þetta er það viðhorf sem afhjúpast í orðræðu og verkum feminista. Svörin sem svokallaðir kynjafræðingar munu gefa börnum við ofangreindum spurningum um kynjamisrétti eru því þau að konur séu vanmetnar vegna þess að karlar sjái sér hag í að halda þeim niðri og að feður séu hindraðir í umgengni við börnin sín af því að þeir séu ofbeldismenn.
Þjóðkirkjan byggði kennivald sitt á „kristnum gildum“; hugmyndum sem samstaða ríkti um og höfðu lítið með kristindóm að gera. Miðlægt var það viðhorf að kærleikur og fyrirgefning ættu að einkenna samskipti manna. Til skamms tíma lagði svo kirkjan út af þessum hugmyndum, m.a. á þann veg að mismuna bæri fólki á grundvelli kynhneigðar en fyrirgefa þeim villu sína sem snerust til guðlegra lífernis.
Þannig verður kennivald til; handhafar sannleikans túlka viðtekin gildi á sínum eigin forsendum. Nú er feminstahreyfingin komin vel á veg með að gerast handhafi sannleikans í jafnréttismálum, og þegar hún segir okkur að það sé jafnréttismál að koma á ritskoðun eða mismuna fólki eftir kynferði (svokölluð „jákvæð mismunun“) þá lendum við í þeirri stöðu að þurfa annað hvort að beygja okkur undir kennivaldið, eða eiga það á hættu að vera álitin jafnréttishatarar.
Tilgangurinn með jafnréttisfræðslu í skólum
Tilgangur feminista með svokallaðri jafnréttisfræðslu er sá að taka sér kennivald. Nýta aðgengi að börnum og unglingum til að endurmóta hugmyndir komandi kynslóða um allt sem lýtur að samskiptum kynjanna. Á yfirborðinu er þetta allt saman voða fallegt og lýðræðislegt. Losa skal börnin úr viljum staðalmynda og kenna þeim virðingu fyrir einstaklingsmun. Þetta fellur í kramið og tilraunaverkefni í jafnréttisfræðslu hafa þegar verið keyrð í nokkrum skólum og leikskólum.
Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að „fræðslan“ er á forsendum feminista. Takið eftir því hvernig fjallað er um kynjafræði sem forsendu jafnréttisfræðslu t.d. hér. Nái þessi áform fram að ganga verður jafnréttisfræðsla fyrst og fremst „fræðsla“ um það að karlar beiti öllum ráðum til að kúga konur. Þegar er verið að gera tilraunir á leikskólabörnum og einnig hefur verið stigið stórt skerf í átt að kynjafræðitrúboði í skólum með útgáfu Kynungabókar sem virðist vera ætluð framhaldsskólum og kannski efstu bekkjum grunnskólans.
Pólitískar forsendur Kynungabókar
Kynungabók er gefin út undir yfirskini jafnréttishugsjónar. Höfundar hennar eru fimm konur en enginn karl. Bókin ber öll merki kvenhyggju, jafnvel sjálf skilgreiningin á orðinu feministi, sem notuð er í hugtakalistanum (bls 41) er fengin að láni frá feministafélaginu. Ég hef oft gagnýnt aðferðafræði og heimildanotkun kynjafræðinnar. Ég ætla ekki út í þá sálma hvað Kynungabók varðar, heldur benda á ágætan pistil Hörpu Hreinsdóttur um þetta öndvegisrit.
Þrátt fyrir hið fræðilega yfirbragð sem stöplaritin gefa henni, er Kynungabók er ekki fræðirit heldur hápólitískt verk, þar sem skoðunum höfunda er haldið fram sem staðreyndum. Áróðurinn er grímulaus og strax í inngangnum (bls 7) er pólitískur grunnur bókarinnar kynntur:
Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju
Feminiskum hugmyndum og mótunarhyggju. Ekki vísindum, heldur trú.
Hvað er mótunarhyggja?
„Mótunarhyggja“ er sú skoðun að drengir og stúlkur séu fædd með sömu getu og tilhneigingar á öllum sviðum. Kynjamunur hvað varðar áhugasvið, áhættuhegðun o.sfrv. sé eingöngu vegna samfélagslegra áhrifa. Andstæða mótunarhyggju er eðlishyggja sem gengur út frá því að kynin séu ólík frá náttúrunnar hendi.
Þótt hreinræktuð eðlishyggja eigi sáralitlu fylgi að fagna innan félagsvísindanna, er langt frá því að mótunarkenningar hafi verið sannaðar. Almennt er viðurkennt að félagslegt umhverfi hafi áhrif en fjöldi vísindamanna telur félagslega þætti engan veginn nægja til að skýra kynjamun. Ég hvet þá sem láta sig jafnréttismál varða að skoða þessa rökræðu milli tveggja sálfræðiprófessora, Stevens Pinker og Elizabeth Spelke um skýringar á því að yfirgnæfandi fjöldi afreksmanna á sviði raunvísinda eru karlar. Fyrirlestrarnir eru bæði á myndbandi og rituðu formi og einnig er hægt að skoða glósur úr hvorum fyrirlestri. Gaman væri ef lesendur segðu svo álit sitt á því, eftir að hafa kynnt sér bæði sjónarmið, hvort eðlilegt sé að leggja mótunarhyggju til grundvallar í skólastarfi.