Fyrri pistlar í þessari röð, sá nýjasti efst:
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa?
—–
Talið er að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum.
“Talið er”. Hvað eiga manneskjurnar eiginlega við? Engra heimilda er getið né er að finna neinar aðrar vísbendingar um það hverjir það eru sem hafa þessa barnalegu söguskoðun. Hún er sett fram sem jafn almenn sannindi og þau að jörðin snúist um möndul sinn.
Ekki er minnst á það í þessu samhengi að flestir karlar voru ekki og hafa aldrei verið nein valdastétt eða að óréttlæti hafi ekki aðeins bitnað á konum, heldur einnig á kotbændum og öðrum fátækum körlum; vinnumönnum, flækingum og niðursetningum. Fullorðinni manneskju kann að þykja það augljóst en við erum að tala um námsefni fyrir unglinga, þar sem megin áherslan er á kynjamál. Það er því fullkomlega rökrétt ályktun ungs lesanda að takmarkað frelsi og undirokun hafi beinlínis ráðist af kyni.
Þótt valdastétt hvers tíma hafi vitanlega mikil áhrif á gildismat og lagaumhverfi er það djarfleg túlkun að ein stétt móti samfélagið eftir sínum hagsmunum. Margra alda hefð liggur að baki hverri menningu og að sjálfsögðu voru ýmis einkenni á gamla bændasamfélaginu sem þjónuðu hagsmunum kvenna og barna. Karlar tóku sér hættulegustu störfin og enginn vafi er á að mörgum manninum hefur verið áþján að því að ferðast hreppa á milli eftir aðföngum eða sækja sjó í vitlausu veðri, frá barnsaldri. Nú er heldur ekki farið nánar út í aðstæður kvenna á þessum óræða tíma, og ég reikna með að höfundar telji sig alls ekki draga taum annars kynsins. Útgangspunkturinn er þó sá að samfélagið sé sniðið eftir hagsmunum karla, án þess að nokkuð sé minnst á að þeir hafi lagt eitthvað af mörkum. Tilfinningin sem eftir situr er sú að samfélagið hafi hentað körlum vel en konum illa.
Fjölskyldan (bls 9-11)
Áherslurnar í fjölskyldukaflanum eru á áhrif aukinnar atvinnuþátttöku kvenna á lagasetningu, og aðlögun atvinnumarkaðar að breyttu fjölskyldulífi. Vakin er athygli á að launajafnrétti sé bundið í lög og minnst á hvað jafnréttisbaráttan hafi skilað konum miklu frelsi og auðveldað körlum samneyti við börn. Einnig er komið lítillega inn á forsjármál og fæðingarorlof.
Í öðrum köflum er komið inn á verkaskiptingu á heimilum en hvorki hér né annarsstaðar í bókinni er fjallað um kynbundin vandamál tengd forsjármálum. Á skífuriti má sjá að það heyrir til undantekninga að karlar fari einir með forræði en ekkert minnst á það sem áhyggjuefni eða neinna skýringa leitað. Reyndar eru hefðbundnar kynjaímyndir eina skýringin á misjafnri stöðu kynjanna sem boðið er upp á í bókinni allri, fyrir utan þá söguskýringu að karlar hafi bara ráðið þessu öllu, og verður það að teljast full yfirborðslegt.
Velt er upp spurningu um það hvar þeir séu, sem ekki eru á vinnumarkaði og bent á að hægt sé að nálgast gögn um það hjá Hagstofunni. Engin tilraun er þó gerð til að svara þessari spurningu. Ólíklegt er að margir nemendur muni leggjast í rannsóknir á þessu sjálfir og ég velti því fyrir mér hvernig heittrúaður feministi (en líklegt er að þeir verði í meirihluta þeirra sem taka þessa “fræðslu” að sér) muni fjalla um þessa spurningu. Verður áherslan sú að hærra hlutfall kvenna en karla sé ekki á vinnumarkaði af því að konur beri svo mikla ábyrgð á börnum? Verður yfirhöfuð boðið upp á dýpri skýringar? Hvernig verður fjallað um karla sem eru ekki á vinnumarkaði? Hvernig verða kynjahlutföll meðal útigangsfólks, fanga og annars utangarðsfólks útskýrð fyrir unglingum? Kynungabók svarar því ekki.
Hvað situr eftir þegar unglingurinn hefur lesið þennan kafla um fjölskyldu og jafnrétti? Ég held að það sé eftirfarandi:
– Sókn kvenna út á vinnumarkaðinn leiddi til lagabreytinga hvað varðar launajafnrétti og fæðingarorlof.
– Karlar eru meira með börnum sínum en áður og margir foreldara kjósa sameiginlega forsjá við skilnað.
Það sem bókin upplýsir ekki um er að á einu sviði er kynjamisrétti ennþá bundið í lög og það varðar tilkall feðra til barna. Karl sem telur sig föður barns hefur enn ekki rétt til þess að höfða faðernismál ef kona hefur kennt barnið einhverjum öðrum. Ekki er heldur minnst einu orði á baráttuna fyrir jafnrétti í forræðismálum eða getuleysi kerfisins til að bregðast við umgengnistálmunum. Má þó ætla að þetta sé það jafnréttismál tengt fjölskyldunni sem mest snertir hagsmuni barna og unglinga.
Félagar í Fathers 4 Juctice mótmæla umgengnistálmunum, við Buckingham höll í september 2004
Þótt til séu ánægjulegar undantekningar, eru réttindi barna og feðra til samvista jafnréttismál sem sjaldan er rætt af þeim sem kenna sig við feminisma. Ég geri ekki þá kröfu til feminista að þeir berjist fyrir réttindum karla enda snýst feminsmi um réttindi kvenna en ekki janfrétti. Ég geri hinsvegar þá kröfu til skólanna að jafnréttisfræðslu verði sinnt út frá sjónarhornum beggja kynja.
Í næsta pistli í þessari röð mun ég skoða skólakafla Kynungabókar. Þeim sem telja ástæðu til að kynna unglingum jafnréttishalla innan fjölskyldunnar, bendi ég á þennan fyrirlestur Stefaníu Karlsdóttur, sem hún flutti á ráðstefnu um umgengnistálmanir í febrúar 2010. Hér er fjallað um umgengnistálmanir og ljótar ásakanir sem oft koma upp við skilnað og setja börn vitanlega í hryllilega stöðu. Ég man ekki eftir neinni umfjöllun fjölmiðla um þessa ráðstefnu. Enda ekkert kennivald sem að henni stóð.