Þegar upp koma hneykslismál verður fólki tíðrætt um iðrun og fyrirgefningu. Þess er krafist að stofnanir, stjórnmálamenn og frægt fólk, sem hefur á einhvern hátt misboðið siðareglum samfélagsins, viðurkenni misgjörðir sínar og sýni iðrun. Opinber afsökunarbeiðni virðist þó sjaldan ef nokkurntíma duga til þess að viðkomandi fái fyrirgefningu.
Ég er alls ekki að segja að afglöp eigi að láta að baki bara ef ódámurinn biðst afsökunar. Ég er reyndar á því að fyrirgefningarbeiðni hljóti í langflestum tilvikum að vera persónuleg. Það virkar ekki eins og persónuleg fyrirgefningarbeiðni þegar einhver biður stóra hópa, jafnvel alla þjóðina afsökunar. Ég held líka að afsökunarbeiðni af hálfu stofnunar sé í langflestum tilvikum ómarktæk, enda beinist reiði almennings ennþá frekar gegn þeim einstaklingum sem brutu af sér en stofnuninni sjálfri.
Dæmin eru mýmörg hvort sem við lítum til stofnana, valdafólks eða valdlausra einstaklinga. Þótt kirkjan bæðist afsökunar á því að hafa ekki brugðist rétt við ásökunum um kynferðisbrot á hendur fyrrum biskupi, og þótt hún kæmi sér í framhaldinu upp ferli til þess að taka á slíkum málum, hefur kirkjan aldrei fengið fyrirgefningu. Geir Haarde baðst afsökunar á mistökum við einkavæðingu bankanna. Hann hefur kannski fengið fyrirgefningu sinna flokksmanna en sú afsökunarbeiðni hafði engin áhrif á mig eða aðra andstæðinga hans. Egill Einarsson baðst opinberlega afsökunar á ruddalegum húmor sem beindist gegn tilteknum feministum. Hann hefur þó aldrei fengið fyrirgefningu.
Að mínu mati er fyrirgefningarbeiðni án iðrunar og yfirbótar tilgangslaus. En hvernig gerir maður sem hefur reitt almenning til reiði yfirbót? Mér finnst eðlilegt að valdamaður sem misnotar völd sín eða sýnir vítaverða vanrækslu segi af sér. Það gerist sjaldan á Íslandi. Mér finnst hinsvegar ekki eðlilegt að sá sem hefur brugðist missi ævilangt tækifæri til að vinna störf sem henta menntun hans og reynslu.
Svo nei, ég er ekki að leggja til að við tökum „sorrý gæjs, ég meint’ett’ekki, ókeibæ“ sem fullgilt svar og mér finnst algerlega út í hött að stofnanir eigi að sýna einhvern sérstakan kærleika. En mig langar að vita hvað er átt við með þessari kröfu um iðrun. Á ódámurinn að sýna iðrun sína með því að gráta? Á hann að hýða sjálfan sig með hnútasvipu? Loka sig inni og skammast sín til æviloka? Hvað nákvæmlega felst í iðrun og yfirbót?