Kærleiksblómið sem gegnir embætti innanríkisráðherra vill koma kristniboðskap inn í skólana aftur. Daginn eftir að þær fréttir bárust sagði DV frá enn einu mannréttindabrotinu af hálfu Útlendingastofnunar. Flóttamenn eru fólk sem á raunverulegri ögurstund neyddist til að flýja heimaslóðir sínar og margir þeirra eiga ekki afturkvæmt þangað. Ég þekki ekki sögu Tonys en ég veit að fátækt er stórt vandamál í Nigeríu, að ræningjar þeir sem kapítalistar nefnast hafa svo sannarlega herjað á Nigeríu eins og önnur Afríkulönd og að stjórnvöld í Nigeríu hafa margsinnis verið gagnrýnd fyrir mannréttindabrot á öllum sviðum.
Ef ráðherra væri í einlægni umhugað um kærleiksuppeldi þjóðarinnar myndi hún byrja á þeim sviðum sem hún ber sjálf ábyrgð á. Hún gæti t.d. fengið prest til að segja starfsfólki Útlendingastofnunar söguna af miskunnsama Samverjanum.
Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.
En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.
Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.
Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?
Hann mælti: Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum. Jesús sagði þá við hann: Far þú og gjör hið sama.
Þjóðkirkjan hefur túlkað þessa sögu eins og eðlilegast er. Boðskapurinn er sá að þegar einhver er hjálparþurfi t.d. vegna veikinda, slyss, ofbeldis, kúgunar eða fátæktar, þá beri okkur sem sæmilegum manneskjum að koma til hjálpar og má þá einu gilda hvort viðkomandi tilheyrir okkar hópi eður ei. Þjóðerni manns firrir okkur ekki ábyrgðinni á okkar minnsta bróður.
Sem betur fer þarf ekki kristindóm til þess að sjá ástæðu til að virða mannréttindi. Réttinn til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar. Rétt ástvina til að vera saman og rétt barns til foreldra sinna en Tony á unnustu á Íslandi og þau eiga von á barni. Þessvegna ætlar fólk, kristið fólk sem ókristið, fólk sem ætlast til þess að Útlendingastofnun virði mannréttindi, að koma saman við innanríkisráðuneytið á morgun, miðvikudaginn 20. nóv. kl 12 og andmæla brottvísuninni. Þar sem langflestir þeirra sem komnir eru yfir tvítugt fengu kristilegt uppeldi í grunnskóla ætti mætingin að verða harla góð.