Sigurjón Kjærnested var einn þeirra sem tóku til máls í umræðum um lekamálið í þinginu í dag. Sigurjón fullyrðir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að gögnin hafi komið frá innanríkisráðuneytinu. Þetta er ekki rétt hjá Sigurjóni. Þvert á móti bendir ALLT til þess að gögnin komið þaðan.
1. Eins og Mörður Árnason benti á er ritstíll og yfirbragð skjalsins eins og um óformlegt minnisblað úr ráðuneytinu sé að ræða.
2. Óformleg minnisblöð eru aldrei send milli stofnana. Ef skjal er sent úr ráðuneytinu með löglegum hætti er það gert formlega og um leið er það skráð sem formlegt skjal.
3. Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, hefur látið hafa það eftir sér að hugsanlega hafi einhverjir starfsmenn ráðuneytisins „tekið niður punkta„. Ljóst er að aðeins æðstu starfsmenn ráðuneytisins áttu að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem fram koma í skjalinu.
4. Annar aðstoðarmaður ráðherra, Þórey Vilhjálmsdóttir talaði fyrr í þessum mánuði um „minnisblað úr ráðuneytinu“ í viðtali í morgunútvarpi rásar tvö.
5. Aðrir sem gætu hafa haft aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í skjalinu eru Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóri og lögmaður Tony Omos. Bæði Útlendingastofnun og Ríkislögreglustjóri þvertaka fyrir að kannast við blaðið og það hefði verið beinlínis fáránlegt tiltæki hjá lögmanninum að falsa slíkt gagn. Það að innanríkisráðherra hafi ekki strax beðið um rannsókn á þessum þremur aðilium sem kemur til greina að hafi falsað blaðið bendir til þess að ráðherra hafi vitað að slík rannsókn myndi ekki bera árangur.
6. Blaðið var birt á afar heppilegum tíma fyrir ráðuneytið sem lá undir ámæli um að sundra fjölskyldu.
7. Innanríkisráðuneytið hefur enn ekki beðið þá miðla sem fyrst fluttu fréttir af „minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu“ að leiðrétta staðhæfingar um að blaðið sé þaðan.
8. Innanríkisráuneytið hefur ekki kært málið, þrátt fyrir að láta að því liggja að þarna hafi skjalafals átt sér stað.
Þetta hefur allt saman komið fram og bendir allt til þess að innanríkisráðuneytið sé ábyrgt.
Sigurjón furðar sig einnig á því að það sem kemur fram í skjalinu séu trúnaðarupplýsingar og bendir á að erlendis séu úrskurðir um mál hælisleitenda opinber gögn rétt eins og dómsmál. Sigurjón virðist ekki skilja muninn á formlegum úrskurði og illa ígrunduðum og að hluta ósönnum vangaveltum um einkalíf hælisleitenda. Hér er um að ræða plagg þar sem fram koma viðkvæmar, persónulegar upplýsingar, ekki aðeins um umsækjandann sjálfan heldur einnig ástkonur hans. Heldur varaþingmaðurinn virkilega að þessháttar gögn séu opinber í nágrannalöndunum?
Að lokum vil ég benda Sigurjóni á að enda þótt stjórnvöld í nágrannaríkjum okkar væru svo smekklaus að birta opinberlega upplýsingar á borð við þær sem hér um ræðir, þá er slíkt ólöglegt á Íslandi. Það er bara þannig. Þessvegna eru þetta trúnaðargögn, Sigurjón. Og þá veistu það.