Ég hef ekki áhyggjur af afkomu flugmanna en til hvers í fjandanum er verkfallsréttur ef yfirvaldið getur svo bara bannað fólki að nýta sér hann?
Flugmenn eru þó í skárri aðstöðu en kennarar að því leyti að verkfall flugmanna skaðar atvinnurekandann og ríkið. Verkfall kennara bitnar fyrst og fremst á börnum og foreldrum. Ef eitthvað er þá hagnast hið opinbera á kennaraverkfalli.
Verkfallsvopnið er veikt nema atvinnurekandinn finni áþreifanlega fyrir því og mér finnst beinlínis ósæmilegt að bjóða fólki sem vinnur umönnunarstörf upp á þá valkosti að þurfa annaðhvort að sætta sig við léleg kjör eða grípa til aðgerða sem bitna á skjólstæðingunum. Þar að auki eru verkföll vítahringur; ein stétt fær „leiðréttingu“ og þá þarf sú næsta að gæta þess að dragast ekki aftur úr og þá er það orðið ósanngjarnt gagnvart hálaunafólki sem vill fá sömu prósentuhækkun og pöpullinn.
Best væri að afnema verkfallsrétt opinberra starfsmanna og binda öll laun þeirra við laun þingmanna. Leggja niður greiðslur fyrir „óunna yfirvinnu“ og aðrar dulbúnar launahækkanir og viðurkenna frekar að fólk verðskuldi almennileg laun fyrir þá vinnu sem það sinnir raunverulega. Hvert starf yrði metið til x% af launum þingmanns svo ef ein stétt fær launahækkun þarf að hækka allar án nokkurs samingaþvargs. Það yrði þokkalegur þrýstingur á ríkisstjórnina að tryggja stöðugleika.