Umræðan um ólöglegar geldingar á grísum rifjaði upp fyrir mér gamlar fréttir af geldingum leikmanna á lambhrútum og kálfum. Ég sendi fyrirspurn til MAST um það hvort vitað væri til þess að geldingar án deyfingar væru enn stundaðar og hvort hinar umdeildu tangir væru enn í notkun.
Þóra Jóhanna Jónasdóttir hefur svarað fyrirspurn minni. Hún segir því miður ennþá eitthvað um að geldingar á búfénaði séu gerðar án deyfingar og af fólki sem ekki hefur læknisfræðilega menntun. Í slíkum tilvikum segir hún að klemmt sé á sæðisstrenginn til þess séu notaðar Burdizzo geldingartangir en annarskonar tangir séu notaðar við geldingar með skurði sem aðallega séu notaðar við geldingar graðhesta. Dýralæknir noti einnig Burdizzo tangir en þá með deyfilyfjum.
Þóra segir Matvælastofnun leitast við að fyrirbyggja það að leikmenn sjái um geldingar með betri skráningu og eftirliti:
„Við höfum undanfarna mánuði verið að setja í ferli m.a. skráningar í sláturhúsum á geltum nautkálfum, sauðum og svínum og öðlumst þá einmitt grundvöll til að fá yfirlit yfir geldingar sem mögulega eru framkvæmdar af leikmönnum án leyfis og notkunar deyfilyfja þar sem hægt verður að gera samanburð við aðgerðaskýrslur dýralækna.Reglubundin skráning og skoðun á slíku hefur ekki verið gerð áður og vonumst við til að slíkar aðgerðir hafi ekki síst fyrirbyggjandi aðgerðir sem jú er það sem skiptir dýrin sem um ræðir mestu máli.“
Samkvæmt lögum um velferð dýra er dýralæknum einum heimilt að fremja læknisfræðilegar aðgerðir á dýrum, þar með taldar geldingar án húðrofs. En hér er kennslumyndband fyrir þá bændur sem telja sig hafna yfir dýraverndarlög, að vísu fékk þolandinn í þessu myndbandi tinktúru áður en leikmaður, sem þegar hafði mistekist einu sinni, mundaði töngina.