Þriðjudagur 9.4.2013 - 15:06 - FB ummæli ()

Er Paul Krugman Framsóknarmaður?

Nú jæja, ég sé ekki betur en að Paul Krugman sé orðinn Framsóknarmaður samkvæmt þessum skrifum Stefáns Ólafssonar hér.

Eflaust er Stefán hér að vísa til skrifa Krugman til dæmis hér og hér. Þarna er meðal annars bent á að afskriftir skuldugra heimila geti haft jákvæð áhrif á eftirspurn í Bandaríkjunum. Málið er mér að einhverju leiti skylt, því þessar niðurstöður byggjast að einhverju leiti á fræðigrein sem við Krugman skrifuðum síðasta haust í Quarterly Journal of Economics hérna.

Blasir þá ekki við að ég þurfi að ganga í Framsóknarflokkinn? Áður en svo verður, væri nú gaman að sjá í hverju tillögur Framsóknarflokksins felast. Hafa þær yfir höfuð verið settar fram? Gott væri að fá ábendingar um slíkt í athugasemdum.

Eina sem ég þekki hvað þetta varðar eru tillögur Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um 20 prósent flata afskrift. Það voru afar vondar tillögur, eins og við Jón Steinsson hagfræðingur fjölluðum um á sínum tíma hérna í Morgunblaðinu, aðallega vegna þess að þær voru óheyrilega dýrar og nýttust helst þeim sem mestar höfðu tekjurnar og þurftu ekki endilega á skuldaniðurfellingu að halda.

Mér sýnist þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hleypti af stokkunum eftir hrun að mörgu leiti ágætar og sýnist þær hafa fengið undalega litla umræðu. Eflaust geta þær gengið enn lengra ef meira svigrúm skapast í ríkissfjármálum eins og margir eru að vona. Ég sé ekki betur en skilyrði séu fyrir ágætri samstöðu um slíkt í íslenskum stjórnmálum ef þetta svigrúm er til.

Svo er raunar ekki úr vegi að benda á að fræðigreinin sem við Krugman birtum snerist aðallega um áhrif aðgerða af þessu tagi í hagkerfum þar sem stýrivextir seðlabanka eru í núlli. Það á við um Bandaríkin, Japan og Evrusvæðið í dag, en á hins vegar ekki við á Íslandi þar sem stýrivextir eru jákvæðir.  Eftirspurnaráhrifin verða líkast til ekki nærri jafn mikil á Íslandi við svipaðar aðgerðir. Mér sýnist þetta því fyrst og fremst snúast um tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og hvað er réttlátt og eðlilegt í þeim efnum en ekki það hvernig haga eigi eftirspurnastjórnun. Í þeim efnum eru mun betri og ódýrari kostir eru í boði uppi á Íslandi.

PS. Ég hef ekki haft tækifæri ennþá til að spyrja Paul Krugman um afstöðu hans til íslenskra stjórnmála og um nýskráningu hans í Framsóknarflokkinn. Ég mun gera það við fyrsta tækifæri.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.4.2013 - 23:19 - FB ummæli ()

Stjórnmálaástandið uppá Íslandi

Fyrir fólk á mínum aldri sem horfir á íslenskt stjórnmálaástand að utan frá má að mörgu leyti segja að íslenskt stjórnmálalíf sé komið í gamalkunnugt ástand.

Þegar ég var að alast upp var ástandið yfirleitt þannig að á mið-hægri væng íslenskra stjórnamála var allt með tiltölulega kyrrum kjörum, á meðan vinstri vængur stjórnmálanna var algerlega tvístraður í alls konar hreyfingar, flokka og fylkingar sem nú er löngu horfnar af vettvangi. Margir muna eflaust eftir Alþýðuflokknum, Alþýðubandanlaginu og Kvennalistanum. En þessir klúbbar margklofnuðu líka í alls kyns félagskap ef ég man rétt, eins og Nýjan Vettvang, Þjóðvaka, Bandlag Jafnaðarmanna,  Samtök Frjálslyndra og Vinstrimanna, flokk Mannsins, Frjálslynda Jafnaðarmenn, ég er satt best að segja búinn að gleyma flestum þessum nöfnunum og er kannski ekki að fara rétt með. Einhver tíma reyndu menn svo að safnast í einn flokk sem auðvitað fékk þá nafnið ´Samfylking´. Ég sé að fólk talar oft um ´fjórflokk´ en minningunni var miklu frekar um fimm eða sex flokka að ræða. Og þeir voru alltaf að skipta um nöfn. Niðurstaðan var sú að oft gátu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur myndað sterka hreina meirihlutastjórn á Alþingi með minnihluta atkvæða kjósenda því að atkvæðin á vinstrivængnum nýttust illa á Alþingi í öllu kraðakinu. Svipað gerðist oft í sveitastjórnum landsins.

Mér sýnist þetta aftur vera orðin staðan uppá Íslandi. Hvað eru þau nú aftur orðin mörg framboðin sem flokka má sem vinstra megin við miðju? VG, Björn Framtíð, Lýðræðisvaktin, Dögun, Samfylking, Pírataflokkurinn, Regnboginn, er ég ekki að gleyma einhverju? Er Hreyfinginn enn á lífi? Það getur vel verið að þessir flokkar nái meirihluta atkvæða, en meirihluti á Alþingi gagnvart Framsókn og Sjálsfæðisflokk er ansi langt undan því atkvæði smáflokka nýtast illa.

Þegar á þessu öllu gengur gerist svo það sem maður man vel eftir – burtséð frá því hvort atkvæði detti dauð niður þegar kemur að Alþingi — að í öllum glundroðanum eru það mið og hægri flokkarnir græða. Ég sé ekki betur en að Framsóknarflokkurinn sé nú að fitna og fitna eins og púkinn á fjósbitanum.

Það sem kannski er helst frábrugðið hinu gamalkunna mynstri er að nú er það helst Framsóknarflokkurinn sem stækkar, en ekki verður betur séð en Sjálfstæðisflokkurinn sé í frjálsu falli. Það er óneytanlega ný og merkileg staða — hið nýja í stöðunni — og þarfnast líklega betri skýringa.

Sjálfum þykir mér líklegt að ástæðunnar sé helst að leita til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hætti að höfða inná miðjuna og er farið að svipa æ meira til bandarísku tepokahreyfingarinnar. Öfgafull afstaða gagnvart Evrópu er aðeins eitt dæmi um slíkt (rekum Evrópustofu úr landi!) en almennt má segja að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi verið mjög í takti við þannig tilhneigingar. Það sem helst veldur, að mér sýnist, er ekki endilega skrifað beint á reikning Bjarna Benediktssonar, heldur hins að ysta hægrið virðist búið að ná undirtökum í flokknum, og flestir flokksmenn dansa nú eftir púkablístru Davíðs Oddssonar og fólks með svipaða Heimssýn. Kannski er það bara mín tilfinning, en mér sýnist að þessi hægriarmur Sjálfstæðisflokksins hafi einhvern veginn radicalerast eftir hrunið, ekki ólíkt tepokafólkinu í Bandaríkjunum þegar Obama var kjörinn. Það er eins og vinstristjórnin hafi algerlega ært þá og skoðanir þeirra verða æ öfgafyllri og í minna samhengi við hina breiðu miðju íslenskra stjórnamála. Allt er þetta líklega heldur fráhrindandi fyrir almenna kjósendur.

Og svo má ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn er að sækja í sig veðrið burséð frá skógarferð Sjálfstæðisflokksins yst inná hægrivæng stjórnmálanna. Það þykir mér áhugaverð þróun. Að mörgu leiti sýnist mér Framsóknarflokkurinn hafa leitað á dálítið ný mið, og kannski er fyrirmyndanna helst að leita meðal hinna svokölluðu ´popúlísku flokka´sem stundum skjóta upp kollinu við erfiðar aðstæður — sérstaklega eftir hrun. Forza Italia – flokkur Berlusconi — kemur uppí hugann en sá flokkur varð til uppúr stjórnmálalegu hruni á Ítalíu á tíunda áratug síðustu aldar. Það eru líka ýmsir flokkar í S-Ameríku þar sem popúlismi á sér djúpar rætur sem urðu til við svipaðar aðstæður. Flokkur Peronista í Argentínu er dæmi um slíkt en það er mýmörg önnur dæmi sem koma uppí hugann.

Það væri kannski dálítið nýtt ef hreinn og klár popúslismi myndi ná fjöldafylgi uppi á Ísland. Kannski má að einhverju leiti segja að Besti Flokkurinn hafi verið tær popúlistaflokkur (Ísbjörn í húsdýragarðinn!) en hann var þó frábrugðinn Framsóknarflokknum í dag að því leitinu til að flestum var ljóst að um grín var að ræða. Nú virðist hins vegar ekkert spaug vera á ferðinni, að því er ég best get séð, og því forvitnilegt að sjá hverju framvindur.  Á endanum grunar mig að þetta geti orðið heldur dýrt spaug.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.3.2013 - 22:02 - FB ummæli ()

Sauðfé

Þegar horft verður til baka eftir nokkra áratugi er ekki ólíklegt að skipta megi uppgjöri hins íslenska bankahruns í tvo þætti.

Í fyrsta þættinum voru sett neyðarlögin með víðtækri samstöðu á Alþingi, sem að öðru jöfnu virðist ekki sammála um neitt. Þar var fékröfum í hina gjaldþrota banka umturnað svo að innlánseigendur áttu forgang en aðrir kröfuhafar lentu aftast í röðinni, öfugt við það sem lögin sögðu til um fyrir hrun. Sumir lögspekingar efuðust um að slíkar æfingar stæðust eignarrétt sem festur er í flestar vestrænar stjórnarskár, en ég hef ekki neina skoðun eða þekkingu á því. Eflaust má hér vísa til neyðarréttar ríkissins.

Bönkunum var síðan skipt í innlendan og erlendan hluta. Hinir íslensku innlánseigendur fengu kröfur sínar að fullu greiddar með ábyrgð íslenska ríkisins og innlendi hluti bankanna var svo að fullu endurreistur. Hinir erlendu innlánseigendur fengu engar tryggingar á endurgreiðslu en var vinsamlegast bent á þrotabúin. Aðrir kröfuhafar fengu ákaflega lítið í sinn hlut. Stærsta ástæðan fyrir þessari endurskipulagninu var að með þessu var hægt að takmarka innlendan kostnað á hruninu. Með þessum æfingum lenti stærstur hluti kostnaðarins á erlendum kröfuhöfum.

Nú sýnist mér annar þáttur eftirleiksins hafinn. Aftur virðist markmiðið að einhverju leiti vera að hámarka það fé sem hafa má af erlendum kröfuhöfum. Mér sýnist síðari þátturinn hafa byrjað líkt og hinn fyrri, með víðtækri samstöðu á Alþingi, sem aftur kom öllum á óvart, gerði hlé á öskrunum, og var sammála um eitthvað.  Það fór furðu hljótt, en fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi einróma að gjaldeyrishöft verði í gildi um óákveðin tíma (sjá hér http://www.ruv.is/frett/otimabundin-gjaldeyrishoft-samthykkt). Við erlenda kröfuhafi var eflaust verið að segja: Lok, lok og læs og allt í krónum. Svo verður ef til vill sest að samningaborði, hver svo sem tekur við völdum eftir kosningar, og erlendir kröfuhafar kreistir enn á ný ef þeir hafa áhuga á að flytja krónur sínar úr landi.

Ég er stundum spurður álits á hagfræðilegum álitaefnum í þessu öllu. Um þetta er sosum ekki margt að segja út frá hagfræðilegum sjónarhóli, nema kannski bara allt fínt, svona hagfræðilega séð. Það kann vel að vera þjóðhagslega hagkvæmt að hafa eignir af erlendu fólki. Hvort sú tilhögun borgar sig eða ekki, fer eftir því, hvort sá er eignirnar missir, kröfuhafinn, hafi einhver ráð til fylgja kröfum sínum eftir.  Margir Íslendinga högnuðust til dæmis verulega á því að fara í víking í fyrri tíð, að minnsta kosti á því stutta tímabili sem ´kröfuhafar´ voru ekki nægjanlega vel vopnum búnir til að endurheimta það sem glataðist.

Einn af lærdómum hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu er hversu erfitt er að fylgja fjárkröfum eftir yfir landamæri ríkja, jafnvel innan evrópska efnahagssvæðisins. Þjóðnýting á eignum erlendra kröfuhafa með einum eða öðrum hætti, kann þannig vel að vera í þjóðarhag, það fer allt eftir því hvernig erlendir markaðir og erlend stjórnvöld í dag eða í framtíðinni bregst við þessum gripdeildum. Niðurstaðan fer líka eftir því hvaða úrlausnir innlendir og erlendir dómstólar bjóða kröfuhöfum upp á. Um þetta allt er erfitt að spá, að minnsta kosti fyrir hagfræðinga, ef til vill eru lögspekingar heppilegri til þess.

En um erlenda kröfuhafa finnst mér hins vegar rétt að halda einu til haga, og er það efni þessarar færslu. Mér sýnist heldur ónákvæmt að kalla þá hrægamma líkt og algengt virðist vera í umræðu uppá Íslandi, en við notum það hugtak yfir ránfygli sem éta örkumla hræ. Önnur dýrategund kemur mér til hugar þegar erlendir kröfuhafar eru nefndir á nafn: Sauðkindur.

Engum nema sauðum dettur í huga að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir fékröfur á hendur Íslendingum. Og nú fer að líða að sláturtíð.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 13:05 - FB ummæli ()

Blogg

Mér datt í hug að prófa að búa til svona blogg. Hér er fyrsta færslan. Erfitt er að spá hvort eitthvað verði úr þessu, en við sjáum til.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gauti Eggertsson
Prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum. Heimasíða: http://www.econ.brown.edu/fac/Gauti_Eggertsson
RSS straumur: RSS straumur