Við Kópavogsbúar kunnum víst að kjósa; við höfum aðeins gleymt bestu leiðinni við að velja á lista – sem þó gafst vel fyrir margt löngu. Ég ætla að minna á hana – til samanburðar við hinar þrjár helstu sem reyndar hafa verið eða kynntar.
Prófkjörsleiðin
Sumir benda á að ofsmölun, misnotkun félagalista og margskráning í fleiri flokka í aðdraganda prófkjörs beri lýðræði ófagurt vitni og komi niður á málefnastarfi hinna mörgu sem hafa lengi verið í flokkunum.
Raðleiðin
Vinstriflokkarnir tveir hafa undanfarið í Kópavogi valið aðra og að sumu leyti skaplegri leið; sú leið er reyndar kennd við Framsóknarflokkinn sem notast hefur við hana undanfarin ár í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Hún felst í að allir félagsmenn eða helstu trúnaðarmenn velji á fundi fyrst í forystusætið, svo í 2. sæti og svo koll af kolli. Þannig er komist hjá óheppilegri samsetningu lista; einkum er með henni unnt að ná betra kynjajafnvægi en í Garðabæ um daginn er íhaldið valdi fjóra miðaldra eða eldri karla í fjögur efstu sætin. Þessa leið má nefna raðleiðina.
Persónukjör samhliða kosningum
Sú leið til persónukjörs, sem lagafrumvarp vinstristjórnarinnar frá í fyrra fól í sér, hafði þann ókost að samtímis skyldi kjósa fólk á lista og velja lista til þings eða sveitarstjórnar; kjósandi gæti því ekki á kosningadag vitað hver yrði í forystu eða í öðrum (efstu) sætum á listanum. Af því leiðir annan ókost, þ.e. að óljóst væri hverjir skyldu tala máli flokksins í kosningabaráttunni. Þriðji ókosturinn er misklíð sem af því gæti hlotist. Þessa leið má e.t.v. kalla kosningakjör.
Aðrir flokkar studdu markmiðið um persónukjör og því var illt að ekki skyldi lokið við slíka lagasetningu í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þá hefði mátt laga þessa helstu vankanta frumvarpsins.
Kópavogsleiðin – gamla
En til er betri leið sem ég heyrði nýverið af. Heimildarmaður minn er Jón Guðlaugur Magnússon, fyrrverandi bæjarritari í Kópavogi. Hann var einn helsti hvatamaður þess að Sigurður Geirdal valdist til forystu í Framsóknarflokknum hér í Kópavogi 1990 er farsælt uppbyggingarstarf með samstarfsflokknum hófst. Að sögn Jóns Guðlaugs fóru flokkarnir fjórir í Kópavogi þá leið 1970 og 1982 að allir kjósendur á kjörskrá gátu mætt á sama stað á sama degi til að velja á lista í þeim flokki sem þeir völdu sér.
Framsóknarflokkurinn vildi endurtaka þessa leið síðar en ekki náðist samstaða með öðrum flokkum um það.
Kostir Kópavogsleiðarinnar
Kópavogsleiðin gamla hefur að mínum dómi og minna heimildarmanna ýmsa kosti umfram ofangreinda leið sem íhaldið fór um nýliðna helgi og við Framsóknarfólk ljúkum nk. laugardag, 27. febrúar. Hún er líka að ýmsu leyti betri en ofangreint kosningakjör.
Helstu kostir Kópavogsleiðarinnar eru að allir, sem vilja og geta, mæta á (próf)kjörstað á sama degi á einum stað og enginn raðar á lista í fleiri en einum flokki – eins og ég hef heimildir um að hafi tíðkast töluvert undanfarið víða; að sögn líta sumir kjósendur á það sem mannréttindi sín að skrá sig í fleiri en einn flokk og jafnvel marga flokka í því skyni að hafa áhrif á mannval á listum. Um leið er væntanlega komist hjá stærstu göllunum sem margir telja felast í prófkjöri (jafnvel lokuðu). Þeir gallar eru annars vegar að fólki er „smalað“ inn í flokk sem það aðhyllist jafnvel ekki beinlínis og dvelur stundum ekki lengi í (og gengur jafnvel strax aftur úr). Hins vegar er það galli að mati sumra „eldri“ flokksmanna að fólk velji á lista en taki ekki þátt í málefnastarfi og öðru starfi flokkanna.
Orðlengi ég þá ekki um galopin prófkjör sem ég tel hafa þann augljósa galla að fjöldi kjósenda mætir á prófkjörstað til þess að velja fólk á lista sem þeir kjósa svo ekki í kosningum. Engum flokki er greiði gerður með því – nema þeim sem kunna að senda sína liðsmenn til að skipta sér af öðrum flokkum.
Rétt aðferð við persónukjör er framtíðin
Þótt margir fárist nú yfir aðferðum okkar Kópavogsbúa við að ákveða mannval á listum (a.m.k. meirihlutaflokkanna tveggja) fyrir bæjarstjórnarkosningar er betri leið til; hún hefur bara gleymst um sinn – enda var hún síðast notuð 1982 og þar áður 1970. Vona ég að Kópavogur taki forystu í að koma Kópavogsleiðinni gömlu í framkvæmd og helst í lög í tæka tíð fyrir næstu kosningar.