Sunnudagur 21.04.2013 - 23:49 - FB ummæli ()

Heimastjórn í þágu atvinnulífs

Kjósendur vita hvað þeir vilja. Við í Dögun (xT.is) vitum hvað við viljum. Nú er spurningin hvort kjósendur velja það sem þeir vilja – eða hvort viljinn er veðsettur eins og fleira.

Umbætur í þágu atvinnulífs

Dögun var stofnuð fyrir rúm ári á góðum grunni umbótaafla og setur þrennar umbætur á oddinn:
a)      Lánamál: Umbætur í lánamálum, niðurfærslu skulda fyrirtækja og heimila vegna forsendubrests og afnám þess meins sem verðtryggingin er í hagkerfinu. Þessa stefnu Dögunar hafa fræðimenn nú tekið undir.
b)      Auðlindastjórn: Umbætur á stjórn fiskveiða og annarra auðlinda, þjóðareign á auðlindum og aukið afgjald til eigandans fyrir afnot af auðlindunum; eigandinn er þjóðin – en ekki handhafar afnotaréttar orku og annarra auðlinda til lands og sjávar. Auðlindagjaldið vill Dögun tengja við byggðirnar sem og fiskveiðiheimildir í því skyni að draga úr miðstýringu ríkisvaldsins og bæta fyrir byggðaröskun sem kvótakerfið hefur stuðlað að undanfarin 30 ár. Aukið frelsi til handfæraveiða er skjótvirkasta og ódýrasta innspýting fyrir hagkerfið – ekki síst landsbyggðarinnar þar sem viðgangur atvinnulífsins og vöxtur peningahagkerfisins hefur verið minni. Þá er frelsi í handfæraveiðum alveg útgjaldalaust fyrir ríkissjóð í þröngri stöðu og auk þess lang vistvænasta aflaleiðin fyrir sjávarbyggðir sem sumar eru við dauðans dyr. Um leið þarf að fá togarana af grunnslóð.
c)      Heimastjórn: Dögun hefur barist fyrir nýrri stjórnarskrá – ekki síst í því skyni að tryggja að dregið sé úr valdi miðstjórnar ríkisins í höfuðborginni. Þótt ég hefði viljað ganga lengra er ég sat í stjórnlagaráði með því að skipta skattlagningar- og fjárveitingarvaldi ríkisins á milli ríkis og landshluta varð niðurstaðan þar engu að síður mikil réttarbót fyrir landsbyggðina. Allt frá því að Íslendingar fengu heimastjórn fyrir rúmri öld hafa landshlutar þurft að treysta á bænaskrár til Reykjavíkurvaldsins með litlum árangri þrátt fyrir heldur meira atkvæðavægi. Í stað þess að þingmenn fari með betlistaf suður – og séu svo uppnefndir kjördæmapotarar ef þeir vilja jafna aðstöðumun vegna búsetu – eiga heimamenn að hafa völd og tekjur í sínum höndum. Þetta gerir nýja stjórnarskráin með þrennum úrbótum:
nálægðarreglu um að þjónustu og verkefnum sé sinnt í héraði nema þau eigi betur heima í borginni;
samráðsskyldu þannig að ríkið hafi virkt samráð frá upphafi við fulltrúa heimamanna um breyttar reglur eða skilyrði;
tekjureglu þess efnis að öllum lögbundnum verkefnum sveitarfélaga fylgi nægar tekjur og að stjórnsýslueiningar séu af þeirri stærð að þau hafi burði til þess að sinna þeim.

Nýtt millidómstig á Akureyri

Þá er sjálfsagt að fleiri opinber verkefni séu flutt til sýslumanna um allt land, sem eru óháð staðsetningu. Enn fremur telur Dögun að nýjar stofnanir eigi að vera utan höfuðborgarsvæðisins nema sýnt sé framá nauðsyn annars. Sem dæmi hef ég nefnt nýtt millidómstig sem lögfræðingasamfélagið er nú einhuga um að koma á; það tel ég að eigi að hafa höfuðstöðvar á Akureyri.

Frelsum bændur úr viðjum regluvalds

Þá þarf að bæta skilyrði fyrir sjálfbærum landbúnaði, ábyrgri beitarstjórnun, varna yfirskuldsetningu við framleiðslu á kjúklinga- og svínakjöti og síðast en ekki síst frelsa bændur úr viðjum ríkisafskipta; heimaslátrun og sala beint frá býli felur í sér mikil tækifæri. Nýlega ræddi ég við bónda á Austurlandi sem sagðist mega slátra hreindýri sem skotið væri á landi hans en ekki neinu af því sauðfé sem hann á í hundruðatali.

Skatt á skemmtiferðaskip

Hvað ferðaþjónustu varðar þarf að tryggja með gjaldtöku frekar en ofreglusetningu að álag á landgæði og innviði landsins sé sjálfbært og framlegð fjöldaferðamennsku aukin til þjóðarbúsins. Í sjónvarpsþætti RÚV með fulltrúum allra flokka í gær [18.4.’13] nefndi ég sem dæmi í þessu skyni sérstakan skatt á skemmtiferðaskip sem hafnir landsins lokka hingað í þágu hafnarsjóða en án þess að nægileg framlegð sé til þjóðarbúsins eða samfélagsins með verslun og gistingu svo dæmi séu tekin. Farmar ferðamanna eru fluttir í Mývatnssveit héðan frá Akureyri án mikillar viðkomu. Sveitarfélagið Þingeyjarsveit hefur ekki gjaldstofn til þess að koma upp salerni og annarri aðstöðu við Goðafoss þar sem umhverfið er að troðast niður. Skútustaðahreppur hefur engan gjaldstofn í því skyni að vernda og verja hinar viðkvæmu Dimmuborgir. Skattur á skemmtiferðaskip sem renni til héraðsins getur bætt úr þessu án þess að grafa undan mikilvægum flugsamgöngum eins og komugjald flugfarþega gerir; ráðstefnuhald með flugsamgöngum felur í sér mikinn virðisauka fyrir Ísland og tækifæri fyrir atvinnulíf í Norðausturkjördæmi. Hinn nýi skemmtiferðaskipaskattur hefur heldur ekki þá ókosti náttúrupassa að allir ferðamenn í minni hópum og á eigin vegum – innlendir sem erlendir – þurfi að greiða gjald fyrir að njóta náttúru Íslands.

Jafnræði landsbyggðar til styrkja og innviða

Auk þess þurfa handhafar ríkisvalds að tryggja að landsbyggðin sitji við sama borð þegar úthlutað er úr (samkeppnis)sjóðum til tækniþróunar, nýsköpunar og rannsókna. Þótt hrósa megi fráfarandi vinstristjórn fyrir að tvöfalda fjárframlög í sjóði sem styrkja slíka uppbyggingu og fjárfestingu í þekkingarsamfélagi. Fáar umsóknir frá landsbyggðinni sýna að úrbóta er þörf. Sama sýnir skammur meðallíftími íslenskra fyrirtækja.
Eins og ég vék að í þætti RÚV í gær  [18.4.’13] um atvinnumál er eitt mikilvægasta málið að leggja, virkja eða tengja öflug fjarskiptanet um land allt svo að ungir frumkvöðlar fái notið sín og starfsemi á borð við menntanetið frá Kópaskeri og dúkkulísufrumkvöðulinn á Ísafirði blómstrað. Tengja þarf landshluta og þéttbýli og dreifbýli innan landshluta.

Hreiður fyrir fjölskyldur – og atvinnulíf

Loks er það atvinnumál að skólar séu reknir um land allt og önnur grunnþjónusta; án þess vill engin fjölskylda byggja sér þar hreiður – og án heimila og blómlegs mannlífs er ekkert atvinnulíf.
Áður birt 19. apríl 2013 í vefriti Akureyrarstofu um atvinnulíf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur