Sunnudagur 10.03.2013 - 00:44 - FB ummæli ()

Afgreiðsla eða þjóðlindir í auðareigu! Ræða mín á Ingólfstorgi 9. mars 2013 um stjórnarskrármálið (auk hljóðupptöku).

Upptaka af ræðu GT á útifundi á Ingólfstorgi 9. mars 2013

Til hamingju, kæru félagar.

Meirihluti hefur nú náðst meðal alþingismanna (32) fyrir því að staðfesta – sem fulltrúar þjóðar sinnar – þann vilja kjósenda, sem fram kom með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl., að fá nýja stjórnarskrá. Þar er m.a. áréttað að allt vald sé runnið frá þjóðinni.

Ekki einungis hefur þjóðin verið með í þessu ferli frá upphafi – með þátttöku sinni í tveimur þjóðfundum, heldur var það í raun hún sem hrundi af stað atburðarrásinni. Búsáhaldabyltingin – bylting fólksins – þverpólitísk hreyfing fólks úr öllum lögum samfélagsins – vopnuð búsáhöldum frammi fyrir þingi og þjóð – í heilagri reiði og uppreisn gegn spillingu og vanhæfni.

Á þeirri stundu tók fólkið í landinu réttmætt vald sitt – sér í hendur.

Þess vegna er þessi hátíðarfundur haldinn – er það ekki?

Nú eru fjögur og hálft ár liðin frá búsáhaldabyltingunni – og við erum komin á lokastað í ferli umbóta.

Það á bara eftir að greiða atkvæði á Alþingi um tillögur stjórnlagaráðs eins og þær líta nú út eftir ítarlega þinglega meðferð og ýmsar betrumbætur.

Og takið eftir: Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur aldrei verið virt að vettugi á Íslandi. Það skal aldrei verða.

***

Mig langar að rifja upp valdarán sem reynt var hér á landi fyrir 9 árum. Þessi tilraun til valdaráns varð árið 2004 eftir að samþykkt voru svonefnd fjölmiðlalög, mjög umdeild, eins og við munum, og umdeilanleg, að mínu mati. Þegar til kom brást forseti Íslands við áskorunum og dreif sig heim frá fjarlægum löndum og synjaði lögunum staðfestingar. Ég var ánægður með það enda sýndi forsetinn þar mikilvægt mótvægi við þá hægristjórn sem þá réð ríkjum og veitti ekki af aðhaldi – sem hvorki kom innan frá né að utan. Aðhald og valdajafnvægi er mikilvægt í lýðræðisríki og meginstef í nýju stjórnarskránni – sem við fögnum hér í dag. Þáverandi forsætisráðherra hugðist virða synjun forseta að vettugi enda taldi hann forsetann ekkert eiga með að blanda sér í pólitík lengur og auk þess hefði synjunar- eða málskotsheimild forseta lengi legið ónotuð, í 50 ár. Forsætisráðherra gat að vísu vitnað í einn fræðimann, samflokksmann sinn, þessari niðurstöðu til stuðnings þótt hún gengi gegn bókstaf og skilningi allra á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Sem betur fer setti samstarfsflokkur forsætisráðherra þá honum loks stólinn fyrir dyrnar í því máli – og því heyrðist ekki mikið af þessu valdaráni.

En áður en forsætisráðherra gafst upp og Alþingi afturkallaði fjölmiðlalögin svo að ekki kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu var reynt að rökstyðja að unnt væri með almennum lögum eftirá að búa til þröskulda um lágmarksþátttöku eða aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu; sem betur var líka fallið frá slíkum valdaránshugmyndum – sem hefðu jú farið í bága við almenna reglu stjórnarskrárinnar um að meirihluti þeirra sem mætir á kjörstað ráði úrslitum, nema annað sé tekið fram.

Nú er valdaránið verra; nú er ekki bara reynt – heldur er  búinn til þröskuldur – eftirá; talað er um að tæp 50% hafi ekki verið næg þátttaka. Þetta var ekki skilgreint fyrirfram. Að þessu sinni er það ekki dómsmálaarmur Sjálfstæðisflokksins sem ákveður að ógilda afstöðu kjósenda, eftirá. Nú eru það “umboðsmenn ógreiddra atkvæða” sem ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan sé að vettugi virðandi þrátt fyrir að þátttaka í henni sé nær 50%. Þessari óformlegu ályktun er ekki hægt að áfrýja neitt – ekki frekar en þegar löggjafararmur Sjálfstæðisflokksins fól dómsmálaarmi sínum að ógilda í fyrsta skipti niðurstöðu kjósenda á Íslandi án þess að þeirri niðurstöðu væri hægt að áfrýja.

Ekki gengur að draga fólk á kjörstað  í góðri trú – og setja síðan einhvern mælikvarða eftirá vegna þess að það hentar valdastéttunum betur að segja að fleiri hefðu átt að mæta. Eðlilegt er þegar ráðgefandi atkvæðagreiðsla er að þeir mæti helst sem hafa mestan áhuga á málinu. Viljinn er skýr. Hvað á að gera við þennan vilja?

Helmingsþátttaka er svipað og í ráðgefandi, svæðisbundnum atkvæðagreiðslum í Noregi (52%) og heldur meira en meðaltal slíkra atkvæðagreiðslna hér á landi (47%) og á þessari öld í Sviss (45%).

Það truflar ekki þessa síðbúnu þröskulda íhaldsins að niðurstaða þjóðaratkvæðisins er í samræmi við nokkuð stöðugan og yfirgnæfandi stuðning almennings í réttnefndum skoðanakönnunum.

Sumir ganga lengra en að búa til þröskulda, eftirá. Félagi minn úr stjórnlagaráði, Pawel Bartoszek, lætur í grein í Fréttablaðinu í gær hreinlega eins og engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi átt sér stað; hann minnist ekki á hana þegar hann sakar mig og aðra nafngreinda umbótasinna um að kalla það valdarán þegar alþingismenn “fylgja eigin sannfæringu en ekki því sem þjóðinni (þ.e. þeim sjálfum) finnst.” Nú er þjóðaratkvæðagreiðslan alveg horfin – ekki einu sinni nefnd “skoðanakönnun” eins og annars er línan úr Valhöll; á því er líklega sú skýring, sem fram kom ítrekað í stjórnlagaráði, einkum frá félaga mínum Pawel, að þjóðin væri hreinlega ekki til. Þess vegna var engin þjóðaratkvæðagreiðsla; því getur enginn talað fyrir hönd þjóðarinnar.

Það er hins vegar til flokkur. Þeir eiga flokkinn. Flokkurinn á völdin og ef hann samþykkir ekki leikreglurnar eru þær einskis virði.

Árið 2004 var almenningur ósáttur við að fá ekki sína þjóðaratkvæðagreiðslu; margir vildu fá að fella lögin úr gildi í stað þess að þingið afturkallaði lög sín. Nú krefjast kjósendur, almenningur, heimilin – já “þjóðin” – þess að fá atkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskrána – á Alþingi; meirihlutinn er fyrir hendi, meirihluti er nægur.

Þingforseti má því ekki feta frekar í fótspor Trampe greifa og stöðva stjórnarumbætur eins og gerðist á Þjóðfundinum 1851. Þá þurftu Íslendingar að bíða í a.m.k. aldarfjórðung eftir réttarbótum. Það má ekki gerast aftur. Ég mótmæli í nafni þjóðarinnr þessari aðferð íhaldsaflanna. Við mótmælum öll.

Eiga þeir kannski líka þingforsetann?

Nú er alvarlegra valdarán í gangi en valdaránstilraunin 2004. Það er alvarlegra í fyrsta lagi af því að nú er ekki um almenn lög að ræða heldur grundvallarlög, starfslýsingu þjóna almennings; málið snýst um sjálfa stjórnarskrána. Vandinn er sá að í þessu tilviki getum við ekki kært þingmenn fyrir að svíkja kosningaloforð og hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðis.

Við getum hins vegar dæmt þá, í komandi þingkosningum.

***

Um hagsmuni verða alltaf átök – um auðlindirnar og um völdin. Þeir vilja ekki auðlindir í þjóðareigu; þeir vilja þjóðlindir í auðareigu – eða ætti ég að segja “þjóflindir”?

Um mikla hagsmuni – hvað þá sjálfa stjórnarskrána – verða mikil átök; stjórnarskrám er reyndar iðulega breytt á umbrotatímum eða þær settar í kjölfar þjóðfélagsátaka eða -hruns. En hér varð auðvitað ekkert hrun!

Ef undan málþófi er látið sigrar íhald og afturhald sem vill ekki umbætur.

Þeir vilja ekki umbætur; þeir eiga kerfið.

Við viljum opna atkvæðagreiðslu, á Alþingi.

Eins og 2004 koma fjölmiðlar við sögu.

En þeir eiga fjölmiðlana, bæði ríkisrekna og einkarekna.

Þeir eiga fræðimenn.

Nú koma þingmenn einnig við sögu.

Þeir eiga málþófið. Þeir eiga því þingið.

Auðvitað eiga þeir lagatæknana.

Þeir eiga líka Hæstarétt. Hæstaréttardómarar njóta áratugasamsæris við dómsmálaráðherra um að reka þá í 65 ára afmælisgjöf svo að þeir fái full laun til æviloka. Þessu breytir nýja stjórnarskráin líka.

Hina nýju stjórnarskrá – sem við höfum samþykkt í löglegri þjóðaratkvæðagreiðslu – undirbjuggu þingkjörnir sérfræðingar í hálft ár, á grundvelli áratugavinnu stjórnarskrárnefnda Alþingis og vinnu 1000 manna slembivalins þjóðfundar. Frumvarp að stjórnarskrá sömdu svo 25 fulltrúar í stjórnlagaráði sem þjóð og þing kusu til verksins – vegna þess að Alþingi hafði reynst óhæft til heildarendurskoðunar í 70 ár. Auk þess eru alþingismenn auðvitað vanhæfir til þess að leggja til eigin starfslýsingu og valdmörk gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds.

Allir gátu tekið þátt 2011; margir tóku þátt. Allir – þingmenn, fræðimenn, lögspekingar og kjósendur – hafa haft nær tvö ár til þess að kynna sér tillögurnar; margir hafa gert það – jafnvel sumir formenn stjórnmálaflokkanna. Þingmenn hafa fjallað um málið á tveimur þingum, mánuðum saman, bæði í þingsal og í öllum nefndum þingsins. Málið er tilbúið.

***

•     Þeir eiga flokkinn.

•     Eiga þeir forseta Alþingis?

•     Þeir eiga kerfið.

•     Þeir eiga fjölmiðlana.

•     Þeir eiga fræðimenn.

•     Þeir eiga verðtryggðu eignirnar.

•     Þeir eiga innistæðurnar.

•     Þeir eiga þingið.

•     Þeir eiga lagatæknana.

•     Þeir telja sig eiga auðlindirnar.

•     Þeir eiga meira að segja Hæstarétt.

 

Nú vilja þeir líka eiga sáttina: um lægsta samnefnara, útvatnaðan bakherbergjabræðing um eigin hagsmuni – eins og í eftirlaunamálinu.

En við eigum stjórnarskrána.

Við viljum atkvæðagreiðslu á Alþingi. Við eigum rétt á afgreiðslu þingsins, samþykkt eða synjun! Við eigum rétt á að vita afstöðu þingmanna til þess máls sem kjósendur  – vinnuveitendur þeirra – hafa samþykkt eftir 70 ára bið til þess að skipta út 140 ára gamalli stjórnarskrá.

Opinn tékki í frumvarpi 3ja flokksformanna kemur ekki í stað frumvarps stjórnlagaráðs.

Við gefumst ekki upp. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður aldrei virt að vettugi á Íslandi.

Ræða GT á útifundi á Ingólfstorgi 9. mars 2013

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur