Fimmtudagur 07.03.2013 - 21:59 - FB ummæli ()

Burt með bænaskrár! eða: hvers vegna er betra að L-listinn véli um málin en að Kristján Þór Júlíusson sé sendur bónarveg suður

Landsbyggðarmálin hafa verið kjarninn í pólitískum áhuga mínum í nær 30 ár. Í þingkosningum í lok næsta mánaðar býð ég mig fram í 1. sæti Norðausturkjördæmis fyrir Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði – m.a. til þess að landsbyggðin þurfi ekki að senda bænaskrár suður – eins og til kóngsins forðum.

Tækifæri til umbóta

Nú gefst færi til umbóta, einstakt tækifæri.

Dögun (xT.is) leggur áherslu á þrjú umbótamál:

 • umbætur í lánamálum og afnám verðtryggingar,
 • umbætur í auðlindamálum og
 • umbætur á stjórnarskrá – ekki síst í þágu íbúa landsbyggðarinnar.

Valdajafnvægi fyrir landsbyggðina

Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár vinna gegn

 • valdajafnvægi sem veitir heimilunum aukið vægi gagnvart kerfinu,
 • þjóðareign á auðlindum og
 • flutningi valds frá höfuðborginni.

Ekki er rétt að stjórnarskráin hafi oft verið endurskoðuð. Fyrir utan ágæta uppfærslu mannréttindakaflans fyrir 18 árum hafa meginbreytingar á stjórnarskránni alla síðustu öld tengst valda(ó)jafnvægi milli sístækkandi þéttbýlis í kringum höfuðborgina annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar.

Hverju hafa átök um ójafnan atkvæðisrétt í þingkosningum skilað? Litlu.

Valdið kom bara hálfa leið…

Þörf er nýrra leiða.

Þegar heimastjórn komst á 1904 varð vald hins danska kóngs í raun eftir í höfuðborginni – og er þar enn – hjá þingmönnum og í alltof ríkum mæli hjá ráðherrum og embættismönnum. Auk þess er peningavaldinu að mestu miðstýrt þaðan; því vill Dögun einnig breyta með sameiningu og lýðræðisvæðingu lífeyrissjóða.

… en þarf að flytjast í hérað

Alþingis bíður nú það brýna verkefni að samþykkja fyrra sinni nýja stjórnarskrá í aðdraganda þingkosninga – eftir 70 ára bið eftir heildstæðri stjórnarskrá sjálfstæðs lýðveldis og áratuga vinnu ótal stjórnarskrárnefnda Alþingis. Nú er að ljúka rúmlega 4ra ára stjórnarskrárferli með búsáhaldabyltingu, þingkosningum, þjóðfundi, stjórnlaganefnd, stjórnlagaþingskosningum, stjórnlagaráði og ítarlegri skoðun á Alþingi og í öllum fastanefndum þingsins undanfarin ár – ekki síst í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að teknu tilliti til ábendinga innlendra sem erlendra sérfræðinga.

Af fjölda umbótamála sem nýja stjórnarskráin færir okkur má nefna

 • betra valdajafnvægi,
 • aukið aðhald gagnvart stjórnmálaöflum með persónukjöri og reglum um fjármál flokka og
 • meiri áhrif kjósenda með þjóðaratkvæðagreiðslum og frumkvæðisrétti.

Völd og tekjur hjá heimamönnum

Auk þeirra eru þrjú atriði í nýrri stjórnarskrá sem varða landsbyggðina sérstaklega.

 1. Tekjuflutningur (2. mgr. 105. gr.). Nægar tekjur fylgi lögbundnum verkefnum sveitarfélaga.
 2. Nálægðarregla (106. gr.). Opinberri þjónustu sé sinnt og stýrt í heimabyggð nema þau eigi sannanlega betur heima í höfuðborginni.
 3. Samráðsskylda (108. gr.). Stjórnarskráin skyldi Alþingi og ráðherra til þess að hafa samráð við sveitarfélög.

Í kjölfarið munu fulltrúar fólksins í héraði – svo sem Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-lista á Akureyri, og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri frá J-lista Dalvíkurbyggðar – sjálf finna lausnir og tækifæri í stað þess að senda þingmenn kjördæmisins eins og Kristján Þór Júlísson (D) eða Kristján Möller (S) suður í því skyni að ná til baka fé í framkvæmdir og opinbera þjónustu sem skattborgarar og fyrirtæki á Norðurlandi hafa lagt ríkinu til.

Burt með bænaskrár til miðstjórnarvaldsins í Reykjavík.

Gísli Tryggvason,

í 1. sæti T-lista Dögunar í NA-kjördæmi

.

Fyrst birt í Akureyri – vikublaði 7. mars 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur