Þriðjudagur 02.03.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

„örlítið meiri diskant“

Fullveldi er stjórnskipulegt, lögfræðilegt hugtak. Sjálfstæði er pólitískt fyrirbæri. Ég veit að þetta er ekki vinsæl skoðun nú þegar Icesave-deilan stendur enn yfir – en ég hef lengi haft þessa skoðun:

Afsölum okkur aðeins meira fullveldi – í því skyni að fá mun meira sjálfstæði.

Við höfum verið auka-aðilar að Evrópusambandinu (ESB) í 15 ár; ég vil að við gerumst alvöru aðilar og höfum raunveruleg áhrif á okkar eigin hagsmuni.

Nýendurkjörinn formaður Bændasamtakanna (ríkisstuddra hagsmunasamtaka) segir eins og fleiri hagsmunaaðilar: nei – aðild er ekki góð fyrir „Íslendinga.“ Svo kaffærir hann okkur í tæknitali. Sama gerir grátkór LÍÚ.

Svona er staðan:

Efnislega:

  • Stór hluti þjóðarinnar telur að ESB ásælist auðlindir „þjóðarinnar“ – sem kvótahafar stjórna þó, ef ekki eiga. Það er röng spá hjá þessum hluta þjóðarinnar að mínu mati. Til þess að sýna fram á þetta má nefna dæmi af Finnum – sem eiga enn og njóta sinna skógarauðlinda – og Norðmönnum – sem sömdu ekki af sér olíuauðinn. Fjölmörg dæmi geta sannað þetta frekar ef þörf er á.
  • Að mínu mati geta bændur varla haft það verra í ESB – og að öllum líkindum betra. 
  • Ljóst er að neytendur og launafólk hafa fengið flestar sínar réttarbætur frá Brussel undanfarin 15 ár vegna aukaaðildar okkar að ESB í gegnum EES. Neytendur, launafólk o.fl. hópar hafa mun betri kjör eftir Evrópureglum en án þeirra.
  • Gleymi ég einhverjum meiriháttar eða mikilvægum hagsmunum? Velkomið er þá að ræða það í athugasemdakerfinu.

Formlega:

  • Sterk ríkisstyrkt og einokunarvörð samtök og fleiri sterkir aðilar berjast gegn aðild að ESB.
  • Fáir og veikir aðilar standa að þeirri stefnu að í alvöru sé athugað hvaða kostir standa til boða.

 

Viljið þið meira lýðræði?

Ofangreind mál eru þó aðeins aukaatriði; aðalatriðin eru þessi: Ef þið skoðið söguna (eins og fræðimenn á borð við Úlfar Hauksson og dr. Baldur Þórhallsson prófessor hafa rakið) og nýja skýrslu framkvæmdarstjórnar ESB um stöðuna hér sjáið þið að þetta snýst ekki bara um fullveldi íslenska ríkisins eða sjálfstæði þjóðarinnar.

 

Aukið lýðræði og virkara sjálfstæði innan ESB

Álitaefnið lýtur að auknu lýðræði, meiri velsæld og sterkara réttarríki; ég hvet ykkur til þess að lesa skýrsluna. Ég tel rétt að lýðræðissinnar styðji aðildarviðræður og bíði niðurstöðu samninga og taki svo afstöðu – með auknu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar en gegn áframhaldi íslensks höfðingjaræðis.

Er ég þá ekkert farinn að ræða þá fallegu friðarhugsjón sem felst í ESB; eins og ég sagði í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar í fyrra þegar yfir 90% flokksþingsfulltrúa samþykktu með ströngum skilyrðum að Ísland skyldi ganga til aðildarviðræðna:

ESB er eins og gott samvinnufélag – eins og grunnhugsun Framsóknarflokksins: Evrópusambandið tekur það besta frá vinstrafólki (t.d. aukna og raunverulega vernd launafólks og neytenda) og það skásta frá hægriöflunum (t.d. frjáls viðskipti og sem samræmdastar kröfur til atvinnulífsins).

Ég segi því eins og Ingimar heitinn Eydal í Sjallanum forðum – í von um meira sjálfstæði, aukið lýðræði og sterkara réttarríki með aðeins meira framsali fullveldis:

Getum við fengið örlítið meiri „diskant“?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur