Sunnudagur 23.05.2010 - 20:55 - FB ummæli ()

Sammála Birnu bankastjóra – eða þannig

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt – eins og að vera sammála bankastjóra. Í fréttum hljóðvarps RÚV í dag var birt viðtal við einn slíkan og samkvæmt fréttavef RÚV var þetta megininntakið:

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að verði niðurstaða hæstaréttar [sic!] um lögmæti myntkörfulána ólík eftir því hvaða eignaleigufyrirtæki eigi í hlut, hljóti ríkisstjórnin að þurfa að setja lög um lánin.

Forsendubrestur o.fl.

Forsendur bankastjórans eru svipaðar og mínar, heyrist mér:

  1. Að gengisbundin lán séu líklega ólögmæt (bæði samkvæmt lögum, svo og reglum um svonefndan forsendubrest og einnig vegna fjölmargra annarra lagasjónarmiða).
  2. Að skilmálar, aðstæður, staða aðila og jafnvel forsendur í mismunandi lánasamningum séu að líkindum mismunandi svo að niðurstöður dómstóla geti orðið ólíkar eftir atvikum.
  3. Að þetta kalli á íhlutun af hálfu handhafa löggjafarvalds.

Reyndar má segja að þarna sé bankastjórinn, loksins, frekar að taka undir með mér o.fl. aðilum (ekki síst Hagsmunasamtökum heimilanna) sem hafa frá upphafi – fyrst sama kvöld og neyðarlögin voru sett – lagt fram tillögur um heildstæða lausn á skuldavanda neytenda í kjölfar bankahruns. M.ö.o. eru  nær 19 mánuðir síðan ég nefndi fyrst hugmynd mína sem talsmaður neytenda um gerðardóm til þess að færa niður með samræmdum hætti lánaskuldbindingar neytenda í kjölfar þess að lánakröfur samkvæmt samningum banka og annarra við neytendur yrðu teknar eignarnámi; þetta gerði ég á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis 3. nóvember 2008 – réttum fjórum vikum eftir að neyðarlögin voru sett.

Nú er liðið meira en ár síðan ég lagði þetta formlega til í embættisnafni

Skaðlegt tómlæti

Tillagan hefur verið kynnt tugum aðila með fundum og glærum – öllum sem þegið hafa slíkt boð eða óskað eftir því að eigin frumkvæði; nú síðast fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Margir hafa tekið undir með mér en stjórnvöld virðast enn horfa fram hjá lagasjónarmiðum sem þessum og einblína á að þeir sem geti greitt (óréttmætar) kröfur eigi að greiða.

Fyrir utan þann gríðarlega skaða sem neytendur og aðrir hafa beðið af tómlæti stjórnvalda í þessu efni er ljóst að síðbúnar en loks væntanlegar niðurstöður dómstóla um fyrstu málin (en ennþá á eftir að reyna á verðtryggð lán o.fl.) munu leiða til mikillar óvissu og óánægju ef þær verða mismunandi eftir atvikum eins og að ofan er lýst. Kjarni málsins nú er sú spá okkar Birnu Einarsdóttur bankastjóra – að erfitt verður fyrir neytendur og þjóðfélagið almennt að sætta sig við margar mismunandi niðurstöður eftir því hvernig skilmálar eru orðaðir, hvaða aðstæður voru við samningsgerð eða síðar, hver staða aðila og jafnvel hvernig forsendur voru lagðar til grundvallar mismunandi lánasamningum.

Hitt er því miður líklegt að erfiðara er nú að setja slík neyðarlög eins og ég lagði til fyrir nær 19 mánuðum síðan og áréttaði formlega eftir þingkosningar í lok apríl í fyrra.

Á fréttavef RÚV segir svo:

Misræmi hefur verið í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur en dómstóllinn hefur úrskurðað í tveimur málum um lögmæti myntkörfulána. Dómstóllinn dæmdi eignaleigufyrirtækinu SP Fjármögnun í hag í desember en í febrúar féll dómur öðru eignaleigufyrirtæki, Lýsingu, í óhag. Hæstiréttur hefur nú bæði málin til meðferðar og er búist við dómi í lok júní. Birna segir að verði niðurstaða hæstaréttar mismunandi eftir því hvort eignaleigufyrirtækið á í hlut hljóti ríkið að þurfa að grípa til aðgerða. Hún segir að margir viðskiptavina bankans bíði niðurstöðu hæstaréttar, einkum heimilin.

Við þetta er að bæta að þriðji dómurinn féll fyrir nokkrum vikum – lántakanda í hag (en sá var ekki einu sinni neytandi).

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur