Fimmtudagur 27.05.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Lögmál eða landslög?

Bresk lagahefð er mörgum fyrirmynd – að mínu mati með nokkrum rétti; þar er rætt um Rule of law. Í slíkri stjórnskipan er málum skipað með lögum – en hvorki með tilskipunum forseta (eins og t.d. í Rússlandi lengi vel), geðþótta stjórnmálaforingja (svo sem í ónefndum einræðisríkjum nær og fjær, fyrr og síðar) eða trúarsetningum æðstupresta (t.d. í Íran). Síður er til fyrirmyndar löggjöf sem blandar beinlínis saman lögum og trú eða gildismati – pólitík.

Í byrjun vikunnar sagði fréttastöð BBC frá því að stjórnlagadómstóll – nokkuð sem okkur skortir enn – í Kenya hefði lagt skorður við því að lögum og trú (sharia-lögum eða múslimskri trú) mætti blanda saman í dómstólakerfi landsins.

Höfum við náð sama þroskastigi og þetta afríska menningarríki?

Hvort ræður flokkspólitískt mat eða lagareglur?

Þetta kom mér í hug þegar ég rifjaði upp að lög (sem voru sett um það leyti sem ég var að hefja laganám fyrir um 20 árum) um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hérlendis væru ekki bara enn við lýði – heldur væri flokkspólitískri nefnd ennþá falið að meta – þ.e. ýmist að fylgjast með eða gefa ráð um – hvort skilyrðum laganna um erlendar fjárfestingar væri fullnægt. Þar segir í 1. mgr. 12. gr.:

Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt, sbr. ákvæði 5. gr. Jafnframt skal hún vera ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Ráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.

Þrátt fyrir stjórnarskrána er sem sagt háð flokkspólitísku mati – ekki bundið lögum – hvort tiltekinn aðili megi fjárfesta hérlendis; þetta stenst að mínu mati ekki stjórnarskrárregluna um atvinnufrelsi – en aðalatriðið er hver á að meta hvort lagaskilyrðum sé fullnægt?

Frjálslyndi eða takmörkun á eignarhaldi útlendinga – hver á að meta?

Þetta kom að vísu fram um daginn fyrst þegar MAGMA-málið komst í fréttir en náði frekari styrk í vikunni. Það sem ég er hissa á er ekki álitamálið – sem er þetta:

Eiga erlendir aðilar (einstaklingar með ríkisfang í öðrum ríkjum en smáríkinu Íslandi eða lögaðilar sem skráðir eru í öðrum ríkjum en Íslandi) að

  • geta eignast og fá að eiga í hlut íslenskum fyrirtækjum (lögaðilum sem hafa skráningu hérlendis) og – ef svo er –
  • hve stóran hlut?

Ég ætlaði ekki að skrifa um efnisatriði enda hef ég ekki fullmótaða skoðun á þeim – þrátt fyrir allt – en hallast þó í frjálslyndisátt.

Ég vil tjá mig um formsatriðið – sem kom mér á óvart. Ég trúði því ekki fyrr en ég tók á að lagaskipan væri (enn) svo óljós hér á landi – eftir um 15 ára aukaaðild að ESB, samkvæmt EES-samningi, og nær 2o árum eftir að umrædd lög voru sett – að nefnd ætti að meta hvort erlend fjárfesting stæðist; þessi nefnd er arfleifð frá fyrri tíð – skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka. Það að nefndin er samkvæmt lögunum aðeins „til ráðuneytis“ eða eigi að „fylgjast með“ er annað hvort rök fyrir því að ekki sé hlustað á hana eða að það sé í vali viðkomandi ráðherra að fara að ráðum hennar því ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar.

Lög eða trú?

Ég vil vera hreinskiptinn og líkja þessu við sharia-dómstól; hérlendis höfum við – formlega og að mestu í raun – búið við það í rúm 135 ár (og líklega lengur að nokkru marki), frá því að tiltölulega frjálslyndur danskur konungur færði okkur einhliða stjórnarskrá í anda danska stjórnlagaþingsins 1848-9 – að dómarar eigi að dæma eftir lögunum.

Þó að hér sé ekki um dómstól að ræða – heldur sem betur fer hverfandi fyrirbæri stjórn(málaflokka)skipaðrar nefndar – eiga sömu lögmál við þegar meta skal af hálfu stjórnvalda hvort lög eru uppfyllt.

Fyrir því eru ótalmörg fordæmi að dómstólar á Íslandi undanfarna öld a.m.k. treysta sér vel til þess að endurmeta lögmæti – og í seinni tíð réttmæti – úrskurða sem lúta að öðru en svonefndu frjálsu mati; m.ö.o. er matskennt hvaða einkunn maður fær á prófi og að einhverju leyti hver af 10 umsækjendum skuli hljóta eitt starf sem er í boði – og auglýst. Þar er reglan (en reyndar oft brotin) að matið á að vera málefnalegt, faglegt.

Hitt getur ekki verið matskennt samkvæmt okkar lögskipan, sbr. t.d. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, hvort – eða að hvaða marki – heimilt er að fjárfesta í íslenskum atvinnuvegi; annað hvort er það bannað eða heimilt eða eitthvað þar á milli – t.d. upp að einhverju marki. Okkar stjórnskipan leyfir ekki að lög segi að svo mikilvægt atriði sem atvinnufrelsi og eignarhald á auðlindum sé pólitískt matsatriði flokksfulltrúa í nefnd úti í bæ – sem klofnar svo 3:2 þegar loks á reynir.

Samkvæmt því eiga bæði

  • frjálslyndir borgarar eins og ég,
  • erlendir – og innlendir – fjárfestar og
  • íslenskir fullveldissinnar

að geta treyst því að lögin séu skýr.

Svo að annað dæmi sé tekið getum við ekki sætt okkur við samkvæmt okkar stjórnskipan að það eigi að vera matsatriði 2ja presta hvort ég megi giftast heitkonu minni eða hvort þú megir skilja við eiginmann þinn. Lögin ríkja.

Guðslög?

Sú var tíðin að þau lög sem giltu í landinu voru stundum aukaatriði – en aðalatriði var vilji sitjandi forsætisráðherra; sá tími er liðinn – var reyndar aldrei að réttum lögum.

Kjarninn er sennilega að samkvæmt umræddum lögum og stjórnarskrá hefur ráðherra framkvæmdarvald – en atvinnufrelsi má, sem sagt aðeins takmarka með lögum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur