Miðvikudagur 09.06.2010 - 22:26 - FB ummæli ()

8 leiðir að stjórnlagaþingi?

Hér vil ég gera grein fyrir

  • fræðilegum kostum í stjórnlagaþingsmálinu,
  • mati mínu á raunhæfum valkostum í því efni og
  • ágiskun minni um hvaða aðilar aðhyllist hvern þeirra,

uppraðað frá íhaldssemi til róttækni; ég vona að mér fyrirgefist stikkorðin fremst í upptalningunni þó að sum þeirra kunni að vera nokkuð gildishlaðin – en þó rökstudd:

  1. Afturhald. Engra breytinga sé þörf á stjórnskipan landsins. Þennan valkost tel ég ótækan. Hann aðhyllast íhaldssömustu öfl landsins, líklega einkum í Sjálfstæðisflokknum en hugsanlega einnig í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði (VG) – og jafnvel í Framsóknarflokknum og hjá fólki utan flokka en síst í Samfylkingu, að því er ég tel.
  2. Íhald. Ekki hafi verið sýnt fram á að nokkurra breytinga sé þörf á stjórnarskránni enda ekkert um það fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnskipan okkar sé orsök hrunsins eða ástæða vanda okkar Íslendinga; í mesta lagi sé rétt að allir flokkar og öfl sameinist um að breyta því hvernig stjórnarskránni er breytt (79 .gr. stjskr.). Þetta er óraunhæfur valkostur að mínu mati því að flestir eru ósáttir við þessa stefnu. Þetta virðist vera mat núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins og hugsanlega nokkurs hluta hinna þriggja eldri flokkanna.
  3. Varfærni. Breytinga sé vissulega þörf á stjórnarskránni – þó að ekki séu allir á einu máli hvaða breytinga er (helst) þörf – en of róttækt sé að láta sverfa til stáls gagnvart íhaldi og afturhaldi með því að stofna í andstöðu við þessi öfl til bindandi stjórnlagaþings; því sé rétt að láta við það sitja að ráðgefandi, þjóðkjörið stjórnlagaþing komi saman og geri tillögur til Alþingis – sem hafi lokaorðið samkvæmt gildandi stjórnarskrá (79. gr. stjskr.). Þetta tel ég líklega ekki nægilegt til að fullnægja kröfu meginþorra þjóðarinnar – m.a. þeirra sem ekki eru virkir í flokksstarfi eða meðvitaðir um flóru þessara kosta – um sjálfstæðar umbætur á „kerfinu.“ Þessi tillaga virðist þó afstaða ráðandi stjórmálaafla, þ.e. ríkisstjórnarinnar og a.m.k. þeirra í þingflokkum Samfylkingar og VG sem hafa tjáð sig – auk a.m.k. eins þingmanns Framsóknarflokksins og hugsanlega einhverra sjálfstæðisþingmanna; miða ég þar við fyrirliggjandi ríkisstjórnarfurmvarp sem nú er til umfjöllunar (öfugt við hið fyrra sem ég átti aðild að og hið fyrsta sem ég samdi og lutu bæði að bindandi stjórnlagaþingi, sbr. 8. tl.).
  4. Lýðræðisleg varfærni. Ekki sé meginmálið hvort stjórnlagaþing er bindandi eða ráðgefandi – heldur hvort og hvernig almenningi, sem ekki situr á stjórnlagaþingi, gefst kostur á að koma að mótun nýrrar stjórnarskrár. Að mínu mati er þetta raunhæfur valkostur þó að ég sé reyndar of róttækur eða of mikill efahyggjumaður á þessu sviði til þess að aðhyllast þennan kost. Þessi kostur er meginatriði í málflutningi þingmanna Hreyfingarinnar (og nýtur líklega fylgi víðar án þess að ég þekki það).
  5. MR-leið. Við ættum að nýta okkur þá sérfræðiþekkingu sem við búum yfir og kalla saman þjóðfund með aðstoð helstu sérfræðinga á sviðinu til þess að koma saman og leggja til úrbætur. Þetta er að mínu mati alger söltun á umbótahugmyndum og í sama stíl og fjöldi stjórnarskrárnefnda (sem að vísu voru skipaðar alþingismönnum en ekki öðrum eins og hér virðist gert ráð fyrir) og betra að sleppa þessu í bili frekar en að fela sérfræðingum að leggja til nýja stjórnarskrá í samráði við svonefndan þjóðfund. Þessi stefna virðist nýverið fram komin af hálfu Sjálfstæðisflokksins til þess að sætta – eða þæfa – málið!
  6. Upplýsingastefna. Góð reynsla sé af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) og því ættum við að fela nokkrum valinkunnum, sérfróðum einstaklingum, sem Alþingi tilnefnir eða kýs, til þess að koma með tillögu að nýrri stjórnarskrá (sem Alþingi þarf væntanlega að fjalla um og staðfesta eða breyta eða hafna). Að mínu mati er þetta einhver ólýðræðislegasti kosturinn í boði – enda í anda upplýsts einveldis;  RNA lagði aðeins mat á staðreyndir og ályktaði af þeim en var ekki falið að leggja til bindandi æðstu lög til frambúðar, jafnvel til áratuga! Þessa frumlegu tillögu hefur Þráinn Bertelsson, þingmaður utan flokka, kynnt óformlega í ræðum og víðar og vill örugglega vel (en tillagan lýsir vantrausti á lýðræði að mínu mati).
  7. Málamiðlunarhugmynd. Ljóst sé að þeir róttækustu fallast ekki á mismunandi útgáfur af ráðgefandi stjórnlagaþingi sem lýst er að framan en að sinni náist ekki sátt um róttækustu tillöguna (í 8. tl.); því sé rétt að fallast á að stjórnlagaþing sé formlega ráðgefandi en hafi í raun úrslitavald með því að tillaga þjóðkjörins stjórnlagaþings verði send beint í (ráðgefandi) þjóðaratkvæði þannig að Alþingi hafi fyrst og fremst formlegan staðfestingarrétt. Fallist þjóðin á tillögu stjórnlagaþings muni hvorki einstakir þingmenn né þingflokkar treysta sér til þess að hafna tillögunni (einkum ef samþykkið er með yfirgnæfandi meirihluta). Þetta er hugsanleg málamiðlunartillaga ef allir aðilar láta af ítrustu hugmyndum sínum til íhalds eða róttækni. Þetta er hugmynd sem kom upp í samtölum mínum í gærkvöldi – og ég gæti íhugað í því skyni að ná bæði sáttum og árangri. Ég þykist vita að fleiri frjálslyndir umbótasinnar aðhyllist þessa lausn.
  8. Róttæk umbótastefna. Upprunaleg hugmynd mín (sem ég hef samið eitt frumvarp um í nafni þingflokks Framsóknarflokksins og verið meðhöfundur að öðru í umboði allra flokka nema Sjálfstæðisflokks) lýtur að því að sjálfstæðu, þjóðkjörnu stjórnlagaþingi verði – í eitt skipti – falin stjórnarskrárvarin heimild til þess að gera tillögu til þjóðaratkvæðis að nýrri stjórnarskrá, að höfðu samráði við Alþingi. Samþykki þjóðin – sem á vitaskuld síðasta orðið – tillöguna sé hún bindandi stjórnarskrá með þeim gildistíma, efnisákvæðum og breytingarákvæðum sem tillagan sjálf felur í sér. Þetta er raunhæfur valkostur að mínu mati; ella hefði ég ekki lagt hann til 28. nóvember 2008 á fundi hjá lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins, fengið hana samþykkt í nefndinni í desember 2008 og á flokksþingi í janúar 2009 – og í kjölfarið fengið það hlutverk frá þingflokknum í janúar 2009 að semja frumvarp um málið. Þessa tillögu aðhyllist ég enn; hana studdu þá Framsóknarflokkurinn auk vinstriflokkanna 2ja sem Framsóknarflokkurinn varði vantrausti frá 1. febrúar 2009 auk þingmanna Frjálslynda flokksins sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. Ég held að stór hluti kjósenda aðhyllist þessa hreinu, sjálfstæðu umbótaleið. Sjálfstæðisflokkurinn einn var á móti og stöðvaði framgang frumvarpsins með málþófi vorið 2009.

Ég hef reynt að lýsa kostunum, valkostunum og því hverjir fylgja þeim án þess að láta mína skoðun hafa áhrif en sem upphafsmaður bindandi stjórnlagaþings er vitaskuld ekki hægt að fullyrða að það hafi tekist! Ég hef vitaskuld oft lýst persónulegri afstöðu minni á opinberum vettvangi og víðar. Þá leyfði ég mér undirstrikun undir meginatriði besta kostsins að mínu mati í 8. tl.

PS Ef ég hef gleymt einhverjum meginkostum eða misskilið einhverja þigg ég gjarnan leiðréttingar – einkum um efni máls – svo og leiðbeiningar til lausnar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur