[Í fjölmiðlum undanfarið hafa margir undrast] hvernig réttnefnd sjálftaka gæti staðist. Samfélagið ólgar í kjölfar þess að skilanefndarfólk, skiptastjórar og lögmenn virðast geta skammtað sér – ef ekki verkefnin sjálf þá greiðslur fyrir þau.
Fyrsta árs laganemi veit betur
Svo er ekki – eins og ég ætla að rekja hér út frá þremur vel þekktum meginreglum lögfræðinnar. Það sem ég undrast er að stjórnendur hjá hinu opinbera og kjörnir fulltrúar virðast ekki vita betur; þó er þetta eitthvað sem laganemar læra yfirleitt strax á fyrsta ári!
Dómarar, stjórnendur og kjörnir fulltrúar eiga lögum samkvæmt að gæta þess f.h. almennings og eftir atvikum kröfuhafa að ekki sé farið á svig við eftirfarandi reglur.
Vanhæfi
Fyrst vil ég nefna svonefndar hæfisreglur – sem gilda um alla opinbera starfsemi, bæði stjórnendur og starfsmenn ríkis samkvæmt stjórnsýslulögum, dómara og skiptastjóra samkvæmt réttarfarslögum og aðra opinbera sýslunarmenn – t.d. lögmenn – skv. öðrum lögum. Ekki ætti að þurfa að eyða löngu púðri í að rökstyðja frekar að slíkir aðilar geti ekki samið við sjálfa sig eða sína um verk eða verðmæti – enda hafa forstjórar misst starfið fyrir þvíumlíkt. Ekki stenst heldur að þeir sem hafa komið að viðskiptum stjórni uppgjöri þrotabús eða öðru uppgjöri.
Samningsfrelsi?
Ummæli efnahags- og viðskiptaráðherra [fyrr á árinu] er hann var spurður um þessi mál – um að afskipti handhafa ríkisvalds af „launum“ á frjálsum markaði séu liðin tíð – virðast á misskilningi byggð. Annars vegar í ljósi vanhæfis samkvæmt ofangreindu; menn geta ekki samið við sjálfa sig eða tengda aðila. Hins vegar er ljóst að einhver sjálfstæður aðili þarf að
- panta verk eða semja um það og
- meta og samþykkja greiðslur fyrir það.
Almennt hljóta stjórnendur og kjörnir fulltrúar hjá ríki og sveitarfélögum að gæta þess að gerðir séu verksamningar – gjarnan og í stærri tilvikum að undangengnu útboði eða auglýsingu – um inntak og umfang verks; þar má ekki láta staðar numið því væntanlega er samið um heildarverð eða tímagjald og fjölda stunda eða áætlun um tímafjölda! Þetta geri ég jafnan – í smáu og einkum stóru – bæði sem almennur neytandi, stjórnandi o.s.frv. Á að gera minni kröfur til hins opinbera?
Samningsfrelsið er nefnilega tvíhliða – ekki einhliða; slíkt héti sjálftaka – og stenst ekki lög.
Reglan um sanngjarnt endurgjald
Í einhverjum tilvikum kann – af einhverjum ástæðum, í undantekningartilvikum og þá t.d. vegna hraða atvika – að hafa farist fyrir að semja um endurgjald fyrir verk; sem dæmi má nefna að kvöldið sem neyðarlögin svonefndu voru sett 6. október 2008 og nóttina á eftir gafst ekki tími til þess að semja um tímagjald við sérfræðinga sem skyndilega voru kallaðir til. Fljótlega í kjölfarið hefði hins vegar átt að ganga frá verksamningi – til lengri eða skemmri tíma. Ég trúi ekki að sjálftaka líðist án athugasemda meðan á verkinu stendur. Víða í íslenskum lögum er sú lagaregla staðfest sem hefur verið við lýði í aldir, kemur úr svonefndum Rómarrétti og er kennd við sanngjarnt endurgjald, precium justum; svona er hún t.d. í einum íslenskum lagabálki:
Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skal kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.
Yfir 2000 ára gömul regla gleymd?
Þetta er ekki „bara“ einhver siðaregla; þetta er gildandi og bindandi lagaregla sem er að finna bæði í fjölmörgum lagabálkum og er einnig óumdeild sem óskráð meginregla. Hún gildir ekki aðeins í svonefndum neytendamarkaðsrétti. Stjórnendur – bæði hjá hinu opinbera og á frjálsum markaði – og ekki síður kjörnir fulltrúar eiga að þekkja þessa reglu – og framfylgja henni. Allir lögfræðingar, sem væntanlega gefa ólöglærðum stjórnendum og kjörnum fulltrúum ráð, þekkja þessa reglu. Ef ekki er farið eftir henni í samskiptum við verksala (t.d lögmenn og skilanefndir) framfylgja dómstólar henni ef málið er réttilega borið undir þá. Auk þess er þessi regla, sem sagt, búin að vera í gildi í yfir 200o ár og er kennd á fyrsta ári í lagadeild.
Ég segi bara:
Hvað er málið?
***
Að gefnu tilefni er pistill þessi, birtur 21. febrúar 2010, endurbirtur nú – óbreyttur nema hvað varðar nokkur orð, sem eru innan hornklofa og varða tímasetningar, enda er tilefnið ærið og óbreytt ástand þótt ekki hafi verið tekið mark á þessu í fyrra skiptið.