Hún er frumleg – og, að ég held, vel meint – tillaga Hreyfingarinnar, um „neyðarstjórn“ eða þingkosningar – en gengur hún upp? Ég vil ekki gera lítið úr tilefninu eða góðum hug þingmannanna – og sat raunar um kvöldið áhugaverðan opinn fund um tillöguna.
Hér vil ég hins vegar skýra nokkrar reglur sem þessu tengjast og árétta nokkur skyld hugtök – en „neyðarstjórn“ er reyndar ekki þar á meðal enda ekki til í stjórnlagafræði (eða stjórnmálafræði svo ég viti).
Þingræðisreglan
Sumt í tillögunni er vel úthugsað – en kjarninn í minni athugasemd er þessi:
Stjórnskipulega þurfa ríkisstjórnir á Íslandi að styðjast við meirihluta Alþingis – aða a.m.k. njóta hlutleysis meirihluta alþingismanna.
Þetta er kallað þingræði og styðst við 106 ára gamla bindandi stjórnskipunarvenju – og væntanlega orðalag stjórnarskrárinnar síðan 1920 um þingbundna stjórn. Í öðrum ríkjum gilda aðrar reglur, þ.e. að skipun eða tilvist ríkisstjórnar sé meira eða minna óháð afstöðu þjóðþingsins, t.d. ef forseti skipar ríkisstjórn sjálfstætt.
Felst þingræðisreglan í því að ef meirihluti Alþingis samþykkir vantrauststillögu á sitjandi ríkisstjórn (eða einstaka ráðherra) ber forsætisráðherra að biðjast lausnar og forseti Íslands veitir henni (eða hlutaðeigandi ráðherra) lausn – en biður hana reyndar væntanlega að sitja til bráðabirgða (sem svonefnd starfsstjórn). Samkvæmt sömu reglu er almennt talið að forseta sé óheimilt að skipa ríkisstjórn (eða einstaka ráðherra) ef fyrirfram er ljóst að Alþingi muni votta henni (eða einstökum ráðherra) vantraust um leið og tækifæri gefist.
Hvernig á að ná málum „neyðarstjórnar“ fram?
Stærsti ágallinn á tillögu Hreyfingarinnar er að mínu mati ekki sú hugmynd að skapa megi þrýsting utan þings í því skyni að Alþingi votti sitjandi ríkisstjórn slíkt vantraust.
Stærsti gallinn við þessa væntanlegu þingsályktunartillögu er að í henni felst, að því er virðist, að neyðarstjórnin á að undirbúa ráðstafanir sem þurfa lagabreytingar til þess að ná fram að ganga. Væntanlega er ekki átt við einræðisstjórn í krafti bráðabirgðalaga samkvæmt þröngri og að mestu úreltri stjórnarskrárheimild fyrir ríkisstjórn til þess að setja bráðabirgðalög – með atbeina forseta. Því er mikilvægt – ef ekki nauðsynlegt – að sú ríkisstjórn, sem tæki við völdum sem „neyðarstjórn,“ hefði vilyrði eða a.m.k. nokkur líkindi fyrir því að sitjandi Alþingi myndi veita forgangsstefnumálum hennar brautargengi meðan hún sæti.
Fleiri skyld hugtök
Í bloggfærslu í lok janúar í fyrra skrifaði ég lengri pistil og skilgreindi eftirfarandi hugtök:
- Meirihlutastjórn.
- Minnihlutastjórn.
- Þjóðstjórn.
- Þingræðisstjórnir.
- Utanþingsstjórn.
- Starfsstjórn.
„Neyðarstjórn“ er, sem sagt, ekki þar á meðal en margir virðast nota það hugtak í svipaðri merkingu og „utanþingsstjórn“ og jafnvel „þjóðsstjórn.“
Þar segir t.a.m. um hugtakið þjóðstjórn:
Þjóðstjórn er það gjarnan nefnt þegar allir (eða flest allir) stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa á þjóðþingi eins og Alþingi, eiga fulltrúa í ríkisstjórn – sem þannig nýtur (nær) 100% stuðnings þingmanna. Slíkar ríkisstjórnir eru gjarnan skipaðar á stríðs- eða neyðartímum eins og gert var hér 17. apríl 1939 þegar uggvænlega horfði í okkar heimshluta (en sósíalistar þóttu ekki nægilega lýðræðissinnaðir til þess að vera „stjórntækir.“)
***