Að afloknum vel heppnuðum þjóðfundi 2010 um stjórnarskrá er tímabært að velta því fyrir sér hvort ekki megi þróa þetta fundarform áfram og nota þjóðfundi til þess að svara spurningum um stór mál sem brenna á þjóðinni.
Svarar þjóðfundur sjálfur ákallinu?
Niðurstöður þjóðfundar eru skýrar og þar er að finna ákall um lýðræði, valdreifingu, ábyrgð og gagnsæi. Vilji margra stendur til þess að taka í auknum mæli upp beint lýðræði þar sem þjóðin er spurð. Þar gæti þjóðfundarformið hentað mjög vel.
Senda mætti þjóðfundi grundvallarspurningar sem hægt er að svara einfaldlega já eða nei og síðan væri þá alltaf þriðji möguleikinn sá að senda spurninguna áfram í þjóðaratkvæði ef þjóðfundurinn kemst ekki að afgerandi niðurstöðu. Það vald ætti að liggja hjá þjóðfundinum.
Spyrjum þjóðfund um kvótamálið
Það mætti hugsa sér að þjóðfundur væri spurður t.d. um það hvort taka eigi upp fyrningu í sjávarútvegi og verkefni fundarins væri að svara játandi eða neitandi. Með svari þjóðfundar væru línurnar lagðar og síðan væri það hlutverk stjórnmálamanna að þróa málið áfram í samræmi við niðurstöðu þjóðfundar.
Þjóðaratkvæðagreiðslur um umdeild mál eru erfiðar. Það þarf að tryggja báðum aðilum fjármagn og tíma til að kynna sín sjónarmið. Þó verður alltaf hætta á því að hagsmunir fjármagnsins verði ofan á og þeir sem túlka þeirra sjónarmið eigi auðveldara með að fjármagna kynningu og áróður fyrir niðurstöðunni.
Köfum dýpra
Sú hætta er líka alltaf fyrir hendi þegar tekist á um grundvallarmál að þjóðin skiptist í fylkingar og málatilbúnaður einkennist af upphrópunum, áróðri og fullyrðingum sem afbaka raunveruleikann og eru settar fram til að hræða fólk til þess að fylgja ákveðnum málstað en ekki til að dýpka umræðuefnið og komast að kjarna máls. Eins og nýafstaðinn þjóðfundur um stjórnarskrá og fyrirmyndin frá í fyrra sýna er á slíkum þjóðfundi nefnilega hægt að kafa dýpra en gera aðeins skoðanakönnun, já eða nei, af eða á. Á þjóðfundi má til viðbótar fá fram ástæður og forsendur þeirrar afstöðu sem fram kemur. Þetta er ekki hægt í venjulegri skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þúsund manna þjóðfundur – mannaður með handhófskenndu úrtaki sem endurspeglar þjóðina eftir kyni, aldri og búsetu – ætti að komast að sömu eða svipaðri niðurstöðu og fengist í þjóðaratkvæðagreiðslu en jafnframt að spara tíma fé og fyrirhöfn.
G. Valdimar Valdemarsson.