Spennandi umræður eru að skapast um erindi til stjórnlagaráðs á vef þess fyrir opnum tjöldum.
Eftir hádegi á fimmtudögum eru svo reglulegir fundir sem fylgjast má með á vefnum – og næsta fimmtudag má búast við að fyrstu tillögurnar verði samþyktar inn í áfangaskjal sem smám saman mun spinnast við.
Fram að því eru sjónarmið og tillögur vitaskuld á ábyrgð fulltrúanna sjálfr; hér má t.a.m. lesa lífleg andmæli Pawels Bartoszek um róttæka hugmynd Andrésar Magnússonar á ráðsfundi um afturvirka eignaupptöku gagnvart hrunkvöðlum! Raunar er unnt að mati okkar vildarréttarsinna að setja í stjórnarskrá ákvæði á borð við það sem Andrés lagði til – en ekki er þar með sagt að það sé skynsamlegt eða að um það sé samstaða í stjórnlagaráði eða meðal þjóðarinnar.
Stjórnskipulegur neyðarréttur fyrr og nú
Í þessu sambandi má minna á að til er fyrirbæri sem heitir stjórnskipulegur neyðarréttur. Á hann hefur reynt bæði fyrr og síðar hér á landi – t.d. 10. apríl 1940 þegar Alþingi fól ríkisstjórninni að fara með konungsvald í ljósi þess að daginn áður hafði samband við danska konunginn rofnað með því að Þjóðverjar höfðu ráðist inn í Danmörku daginn áður og hernumið hana. Konungsvald varð aldrei aftur virkt á Íslandi.
Í athyglisverðum dómi fjölskipaðs héraðsdóms í síðustu viku var stjórnskipulegum neyðarrétti borið við af hálfu þeirra, sem vildu að staðfest yrði gildi svonefndra neyðarlaga um afturvirka breytingu á kröfuröð réttarfarslaga í þágu forgangs innistæðueigenda. Ríkið átti raunar ekki aðild að því máli en stjórnskipulegt gildi laganna var staðfest með þeim röksemdum að þau brytu ekki í bága við eignarréttar- eða jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Reyndi því ekki á óskráða reglu um stjórnskipulegan neyðarrétt – eða eins og sagði í dóminum:
Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að ákvæði laga um forgang innstæðna, sbr. nú 3. mgr. 102 gr. laga nr. 161/2002, brjóti hvorki gegn ákvæðum 72. gr. eða 65. gr. stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu eða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ekki ástæða til að fjalla um málsástæður sóknaraðila sem lúta að stjórnskipulegum neyðarrétti.
Ég er raunar hallur undir að málsástæða um stjórnskipulegan neyðarrétt sé nærtæk röksemd í því máli en spennandi verður að sjá hvort Hæstiréttur staðfestir niðurstöðuna – eins og ég tel líklegt – og með hvaða röksemdum.
Er þörf á sérstökum stjórnarskrárákvæðum um neyðarrétt?
Við í stjórnlagaráði þurfum hins vegar að íhuga hvort ástæða sé til þess að setja í stjórnarskrá sérstakt ákvæði um stjórnskipulegan neyðarrétt eða hvort búa á áfram við óskráðar – og að mörgu leyti óljósar – reglur um það efni; í ljósi þess að þess virðist ekki hafa verið þörf hingað til og að hætta er á misnotkun skráðra ákvæða um stjórnskipulegan neyðarrétt hallast ég að hinu síðarnefnda.
Ég tel hins vegar brýna þörf á að Hæstiréttur fái nýtt og aukið hlutverk sem stjórnlagadómstóll og þannig sé aðhald að handhöfum ríkisvalds virkara og skjótari úrlausn á stjórnskipulegum álitamálum möguleg.
Á vef ráðsins, www.stjornlagarad.is, er unnt að fylgjast með útsendingum frá fundum og horfa á upptökur – auk fleiri möguleika til áhrifa.