Þriðjudagur 03.05.2011 - 21:40 - Lokað fyrir ummæli

25% Hæstaréttar skipaður

Samkvæmt fréttum síðdegis í dag hefur forseti Íslands fallist á tillögu innanríkisráðherra um skipan 3ja nýrra hæstaréttardómara – daginn eftir að mat dómnefndar var birt á vef innanríkisráðuneytisins. Þvert á það, sem sumir gætu lesið út úr fréttum, er skipun dómaranna – eins og vera ber – ótímabundin.

Ekki skal hins vegar skipa nýja dómara í Hæstarétti fyrr en tala þeirra nær aftur reglulegri tölu, 9, lögum samkvæmt. Tímabundið verða hæstaréttardómarar því 12 vegna anna í kjölfar hrunsins.

Fátíð fjölgun dómara í æðsta dómstóli

Að því er ég best veit er þetta í fyrsta skipti (væntanlega frá því að Hæstiréttur tók til starfa 1920, án þess að ég hafi kannað það) að fleiri en einn og fleiri en tveir dómarar í Hæstarétti eru skipaðir samtímis; þar er mikið vald falið núverandi valdhöfum enda sitja dómarar lengi – til sjötugs ef þeir vilja. Löngum voru hæstaréttardómarar reyndar aðeins fimm, að ég hygg. Hafa ber í huga að sagan sýnir að hætta er á að handhafar annarra valdþátta (löggjafar- og framkvæmdarvalds) misbeiti skipunarvaldi sínu til þess að raska valdahlutföllum í æðsta dómstóli ríkis og hafa áhrif á beitingu dómsvalds.

Þetta fyrirkomulag er raunar aðeins tímabundið og ákveðið í þetta eina skipti og gefur vissulega færi á að huga betur en endranær að fjölbreytilegum bakgrunni dómaranna – eins og ég tel afar brýnt og vil jafnvel tryggja í stjórnarskrá.

Mikil og langvarandi völd falin núverandi valdhöfum

Á hinn bóginn eru þeir þrír dómarar, sem matsnefndin taldi hæfasta (2 dómaraefni) og innanríkisráðherra valdi meðal hinna (1 dómaraefni), sem sagt, skipaðir ótímabundið; þeir eru fæddir 1950, 1052 og 1954; að meðaltali eru þeir sem sagt 59 ára á skipunarárinu og sitja því að líkindum að meðaltali hið skemmsta í um 6 (samtals 18) ár enda hefur sú óheppilega venja skapast – sem ég tel raunar spillta – að hæstaréttardómarar nýta sér afsagnarheimild í öryggisskyni til þess að halda kjörum sínum án vinnuskyldu og hætta á fullum launum 65 ára og halda þeim (en undarlegt væri að þau héldust lengur en til sjötugs, sem er almennur lífeyris- eða starfslokaaldur hjá ríkisstarfsmönnum).

Að hámarki sitja þessir þrír dómarar til sjötugs eða að meðaltali í 11 (samtals 33) ár. Með þessu vil ég ekki efast um val dómnefndar, ákvörðun innanríkisráðherra eða atbeina forseta – enda hef ég mikið traust á þeim og álit á þeim hæstaréttardómurum sem skipaðir voru. Ég vil þó árétta að löggjafinn hefur falið fáum einstaklingum (og þar af aðeins einni konu) að velja 3 til viðbótar 9 sitjandi hæstaréttardómurum sem tímabundið munu vera 25% Hæstaréttar – og þriðjungur, 33%, Hæstaréttar þegar nægilega margir hæstaréttardómarar hafa látið af störfum sökum aldurs.

Stjórnlagaumbætur að gefnu tilefni

Þessi skipun 3ja hæstaréttardómara í eitt skipti og ekki síður sú tímabundna skipan sem nýverið var ákveðin af Alþingi og ekki síst tilefni þessara breytinga – þ.e. hrunið, ofgnótt dómsmála í kjölfarið og umdeild og gagnrýniverð skipan hæstaréttardómara síðustu 90 ár – gefur tilefni til að huga vel að skipan handhafa dómsvalds í stjórnarskrá.

Þetta er einmitt það verkefni stjórnlagaráðs sem lengst er komið í drögum að tillögum hlutaðeigandi nefnda eins og fylgjast mátti með á 6. ráðsfundi sl. fimmtudag og hugsanlega verður afgreidd inn í áfangaskjal næsta fimmtudag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur