Þessar dagana erum við í stjórnlagaráði að nálgast lokakaflann í að semja grunnlög eða stjórnlög – nýja stjórnarskrá – fyrir Ísland.
Herskylda bönnuð
Eitt nýmælið í áfangaskjali er að leggja bann við herskyldu.
Í því felst – eins og mörgu öðru sem við erum að ná sátt um þessar vikurnar – tiltekin lausn (eða málamiðlun sem hefur á sér meiri hrossakaupsbrag) á mismunandi sjónarmiðum; sumir vilja m.ö.o. ganga lengra og kveða á um það í stjórnarskrá, sem raunar var ákveðið og yfirlýst við stofnun íslenska ríkisins 1918, að landið skyldi hlutlaust (og herlaust) um aldur og ævi. Aðrir andmæltu og sögðu að ef svo ólíklega og óheppilega færi að á ríkið yrði ráðist yrði að vera mögulegt að stofna hér sjálfboðaliðaher þótt vanmegnugur yrði væntanlega ef litið er til aðstæðna og sögu, m.a. Danmerkur og jafnvel Noregs 1940; ekki væri hægt að ætlast til þess að aðrir verðu landið fyrir okkur – hvað sem liði aðild okkar að varnarbandalaginu, NATÓ.
Alþingi staðfesti alla hernaðaraðild
Þá er – í ljósi nýorðinna atburða – sem ég hélt satt að segja ekki að myndu endurtaka sig eftir málsmeðferð við ákvörðun um aðild að Íraksstríði 2003 – gott að á morgun verður kynnt ákvæði frá nefnd (C) stjórnlagaráðs, sem fjallar um utanríkismál, að þar er áskilið samþykki Alþingis við aðild ríkisins að hernaðaraðgerðum; auk þess að áskilja fyrirfram samráð við þá nefnd Alþingis sem fjallar um utanríkismál, er gengið lengra að þessu leyti. Nýlegt og umdeilt mál um óbeina aðild okkar sem NATÓ-ríkis að hernaðaraðgerðum í Líbíu sýnir þörf á þessu.
Mér sýnist stefna í góða lausn á þessu máli sem öðrum sem við höfum hingað til fjallað um í stjórnlagaráði, sbr. nýlegan pistil um mínar áherslur í þessu efni og annan eldri.
Greinilega ekki úrelt mál
Fréttir í dag og í gær um að norska ríkið hafi beint eða óbeint leitast við að ráða „menn innan íslenska ríkisins til erlendrar herþjónustu“ – sem virðist geta farið í bága við almenn hegningarlög – ýtir undir að slík stefnumarkandi ákvæði í stjórnarskrá séu síður en svo fráleit.