Um leið og ég óska landsmönnum öllum til hamingju með 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta vil ég upplýsa að á afar efnismiklum og góðum fundi í stjórnlagaráði í dag lagði ég ásamt nokkrum félögum fram breytingartillögu við eftirfarandi tillögu úr nefnd stjórnlagaráðs (C) sem fer með lýðræðismál o.fl.:
Stjórnarskrárbreytingar
Til þess að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá nái fram að ganga á Alþingi þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hljóti það samþykkt skal það borið undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
Þjóðin breyti stjórnarskránni framvegis
Tillaga okkar Freyju Haraldsdóttur, Katrínar Oddsdóttur, Silju Báru Ómarsdóttur og Vilhjálms Þorsteinssonar um reglulegt stjórnlagaþing – í stað tilvitnaðrar 3. gr. í tillögum nefndarinnar – hljóðar svo:
Stjórnarskrá þessari skal aðeins breytt að tillögu stjórnlagaþings sem þjóðkjörið skal með persónukjöri þar sem hlutur kynja og fulltrúa landshluta skal tryggður með sama hætti og við kjör til Alþingis.
Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings á 25 ára fresti eða oftar ef Alþingi óskar eða 10% kjósenda óska þess. Um fjölda stjórnlagaþingmanna, starfsemi stjórnlagaþings og nánari reglur um kjör þess skal mælt í lögum. Tillaga að nýrri stjórnarskrá skal borin undir alla kosningabæra í landinu í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.
Rökin
Um rök fyrir þessari tillögu, sem meðflytjendur mínir bera vitaskuld enga ábyrgð á, hef ég áður skrifað um í Eyjupistlum hér og hér; í síðarnefndri færslu sagði:
Einveldið afnumið
Þingmenn mega eins og aðrir gjarnan hafa skoðun á ráðningarsamningi sínum og jafnvel áhrif á erindisbréf sitt frá almenningi – en fáir hafa sjálfdæmi um það. Sú var tíðin að einvaldskonungur var einmitt það, einvaldur – einnig um eigin stöðu; það er liðin tíð – þó að kóngunum hafi fjölgað síðan.
Þess vegna þurfum við ekki bara sjálfstæðan, bindandi stjórnlagadómstól – heldur líka regluleg, þjóðkjörin stjórnlagaþing.